BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Stefán Ingi áfram hjá Blikum

26.12.2020 image

Framherjinn stóri og stæðilegi, Stefán Ingi Sigurðarson, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Blika.

Stefán Ingi var við nám í USA síðasta vetur en kom snemma heim vegna heimsfaraldursins. Hann er 19 ára gamall og átti fínt tímabil árið 2020. Stefán var einn af lykilmönnum í 2. flokki karla, skoraði 17 mörk í 9 leikjum, en var svo lánaður í 1. deildarlið Grindavíkur fyrri hluta sumars. Þar stóð hann sig með það mikilli prýði að hann var kallaður til baka úr láni um mitt sumar. Þá hélt hann áfram að raða inn mörkum fyrir 2. flokkinn og spilaði að lokum 7 leiki á árinu með meistaraflokknum og gerði í þeim 3 mörk.

Sú ákvörðun að kalla hann heim úr láni reyndist happadrjúg fyrir Blika. Stefán átti nokkrar öflugar innkomur og hjálpaði Blikum að tryggja Evrópusætið mikilvæga undir lok tímabils.

„Stefán Ingi sýndi það á síðasta tímabili hversu öflugur hann er og við vonumst til að hann taki enn stærri skref á næstu árum í Breiðablikstreyjunni, segir þjálfarinn Óskar Hrafn Þorvaldsson“

Stefán Ingi er 191 cm að hæð og tekur mikið til sín í vítateig andstæðinganna. Það verður því gaman að sjá þennan sterka skallamann þróast á komandi árum. Hann kemur með nýja vídd í sóknarleik okkar og á sjálfsagt að verða mjög mikilvægur hlekkur í Blikaliðinu sem þjálfarateymið er að byggja upp í græna búningnum.

Stefán Ingi á að baki 14 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og hefur skorað í þeim þrjú mörk.

Það er mikið fagnaðarefni að Stefán sé búinn að skrifa undir nýjan samning. Það verður spennandi að fylgjast með þessum stóra og öfluga framherja á næstu árum.

image

Stefán Ingi Sigurðarson og Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari Breiðabliks.

Til baka