BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Slys á Kópavogsvelli

08.07.2019

Það voru stórkostlegar aðstæður til að leika knattspyrnu í Kópavogsslagnum í Pepsi-Max deildinni  sunnudagskvöldið 8. maí þegar við Blikar tókum á móti HK í síðari leik liðanna í Íslandsmótinu.   Hitastig var um 18 gráður í mínum bíl og nánast logn.  Breiðablik í öðru sæti og því næstefsta á meðan HK var í því ellefta og næstneðsta.  22 stig gegn 8 og leikurinn á Kópavogsvellinum sjálfum, heimavelli okkar Blika.

Það var miklu tjaldað til enda eru þessi félög flaggskip íþrótta í Kópavogsbæ.  Breiðablik hefur 1.600 iðkendur innan sinna vébanda í knattspyrnu (fjölmennastir félaga í KSÍ) og HK er með 1.100.  Félögin eru því leiðandi í uppeldis- og þjálfunarstarfi á landinu.   Það eru  þúsundir fjölskyldna í bænum þar sem fótboltaiðkun gegnir stóru hlutverki í daglegu lífi þeirra.   Þetta er talandi dæmi um þá miklu samfélagslegu ábyrgð sem íþróttafélög bera og Kópavogur er til mikillar fyrirmyndar á því sviði.   Það var líka vel við hæfi að á þessum leik var vígð ný vallarklukka sem kom í stað þeirrar gömlu – sem reyndar var orðin ansi þreytt.   Hún er stórglæsileg og gerir alla umgjörð knattspyrnuleikja á Kópavogsvellinum veglegri og meira við hæfi sem á að prýða knattspyrnufélag í fremstu röð.  Tryggingafélagið  Vörður bauð til pylsuveislu og krakkarnir fengu sinn hoppukastala í blíðviðrinu. Áhorfendur voru 2.400 talsins, sem er fáheyrt á leik í knattspyrnu á Íslandi. Báðar stúkurnar þétt setnar og meira að segja slangur af fólki í grasbrekkunni góðu vestan megin, þaðan sem margir eiga góðar minningar frá fyrri tíð.

Eðli málsins samkvæmt voru væntingar okkar Blika miklar.  Fyrri leikur liðanna í deildinni var í fyrstu umferð í Kórnum og þar vorum við Blikar stálheppnir að fara úr efri byggðunum í bænum með 1 stig í farteskinu eftir 2-2 jafntefli.  Við slógum síðan nágrannana úr leik í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins nokkuð örugglega 3-1.   En þetta var þannig leikur að hann varð að vinnast ef við ætluðum að halda í við KR sem er á fleygiferð um þessar mundir með 7 sigurleiki í röð og 7 stiga forskot.    Einhver sagði að “hér verður skorið úr um hvort við erum hæfir til að taka þátt í toppslagnum í ár”.  Stór orð og eftir leikinn eru þessi ummæli farin að fá allt of mikla umhugsun.

Það voru gerðar 2 breytingar frá leiknum gegn KR.  Það var reyndar leikur sem var taktískt nokkuð sérkennilega lagður upp og úrslitin döpur og ljóst að menn voru staðráðnir í að gera betur en var uppi á teningnum í Frostaskjólinu.

Elfar Freyr Helgason, Höskuldur Gunnlaugsson og Brynjólfur Darri Willumsson komu inn í liðið og taktískt séð var blásið til sóknar.  Davíð og Höskuldur voru framliggjandi bakverðir og því reyndi mikið á bakdekkunina hjá miðvörðunum.  Þá voru bæði Brynjólfur og Thomas á toppnum og er það nýlunda í uppstillingunni hjá okkur.

KSÍ leikskýrsla        Úrslit.net skýrsla

Það eru mörkin sem  telja

Það er skemmst frá því að segja að Blikarnir réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik.  HK stillti upp mjög varnarsinnuðu liði og máttu sín frekar lítils.  Sóknartilburðir Breiðabliks voru þó þannig að ekki sköpuðust mörg opin færi þó að nokkur tækifæri á að skora hefðu litið dagsins ljós.  En við áttum okkar  góðu tækifæri á að skora. Thomas Mikkelsen fær alltaf nokkur í hverjum leik og þetta var ekki nein undantekning.  Honum voru þó frekar mislagðar fætur og þegar átti að reka endahnútinn á sóknirnar.  Einhvern tíma hefði maður hann setja boltann í markið – en ég taldi a.m.k. 4 færi sem hann átti í fyrri hálfleik.  Sjaldgæf nýting hjá honum.   Guðjón Pétur og Höskuldur tóku aukaspyrnur á stórhættulegum stöðum við vítateig HK manna en nýttu ekki. Þannig mætti áfram telja.

Einhvern veginn hafði maður samt á tilfinningunni að þetta væri að koma.  En þá gerist hreint ótrúlegt atvik á 42. mínútu.  Varnarmaður sendir 50 metra sendingu inn í vítateig Breiðabliks. Viktor fylgdi sóknarmanni HK inn í teig og ekki virtist mikil hætta á ferðum.  Þá gerðist einhver hræðilegur misskilningur milli Gunnleifs í markinu og Viktors og Gulli fór hikandi af marklínunni.  HK-ingurinn komst inn á milli þeirra og skallaði yfir Gulla og í markið.  Svona á ekki að geta gerst ef samtal og áræðni er til staðar.   Þetta var í fyrsta sinn í leiknum sem HK átti tilraun sem hitti rammann hjá Blikunum. 

Það var því ekki gott bragð af kaffinu í leikhléinu.  Menn hristu hausinn og voru enn að velta fyrir sér hvað hafði gerst í markinu sem við fengum á okkur.  Aðrir kannski meira að spá í hvort við ættum ekki að hætta þessum háu sendingum úr vörninni  inn á miðju HK varnarinnar þar sem þeir eru hvað sterkastir fyrir. 

Síðari hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri hafði byrjað.  Blikarnir sóttu án afláts en lokahnykkinn vantaði.  Thomas átti gott skot rétt framhjá og Guðjón Pétur sömuleiðis.  Thomas átti líka skalla í þverslá og hefði átt að skora.   Þá gerist annað slys á 60. mínútu.  HK fékk hornspyrnu (þeir fengu 3 í leiknum en Blikar 9)  og eftir klafs í teignum hrökk boltinn til Arnars Atlasonar sem skoraði framhjá Gulla sem var kominn úr jafnvægi.  Hreint ótrúleg staða.  Fólk sat lamað í stúkunni og vissi ekki sitt rjúkandi ráð.

Í kjölfarið ákvað Ágúst að setja þá Gísla Eyjólfsson og Aron Bjarnason inn fyrir Andra Yeoman og Brynjólf Darra á 60 mínútu.  Áfram hélt sókn Blikanna og sjensarnir komu á færibandi Enn og aftur var Thomas Mikkelsen í dauðafæri en nú varði markvörður HK skalla hans með undraverðum hætti.  Á 79. mínútu kom Þórir Guðjónsson inn fyrir Damir Muminovic.  Miðframherji inn fyrir varnarmann.  Skilaboðin um sóknarþunga verða ekki skýrari.  Damir var nýbúinn að fá gott færi en nýtti ekki. Það tók Þóri ekki nema 2 mínútur að gera það sama, að skalla framhjá úr góðu færi.

Á 89. mínútu brást honum ekki bogalistinn hinsvegar og skoraði með skalla eftir góða fyrirgjöf Arons eftir þunga sókn.   

Uppbótartíminn var 4 mínútur og var svo sannarlega viðburðaríkur.  Gísli fékk algert dauðafæri - og Viktor sömuleiðis en báðir hittu ekki markið.   Síðan fær Ásgeir Börkur boltann í höndina og hver einasti maður á Kópavogsvellinum sá það sem var svo augljóst – boltinn fór í höndina á leikmanninum inni í vítateig og hafði afgerandi áhrif á leikinn.  Þegar slíkt gerist á að dæma vítaspyrnu samkvæmt samþykktum dómarareglum í alþjóðlegri knattspyrnu.  Hvernig Guðmundur Ársæll dómari leiksins komst að annarri niðurstöðu er mér og öðrum algerlega hulið og verður hann að eiga við sína samvisku.

Þessi leikur var talsvert áfall.  Í fótbolta er ekki nóg að hafa stöðuyfirburði og að eiga fleiri skot á markið en andstæðingurinn. Breiðablik átti 17 skot á markið en HK 5.  Það þarf að koma boltanum alla leið í mark andstæðingsins. Það er ekki spilað um knattspyrnuhæfni eða boltameðferð í fótbolta.  Það eru mörkin sem telja.  Við vorum alvarlega áminntir um það þetta fallega sunnudagskvöld. Það voru því þung spor heim af Kópavogsvellinum. Svipurinn á andlitum stuðningsmönnum Blika var því ekki upplitsdjarfur á heimleiðinni.  Samtölin voru stutt og margir hristu höfuðið og menn voru að spyrja sig sömu spurningar.  „Hvernig gat þetta gerst“?   

Hvað gerist næst?

Það er alveg ljóst að við Blikar erum í mótvindi eftir 2 slæm töp í röð.   Það er gott að gera sér grein fyrir því. Spilamennskan er að hiksta.  Hvort sem það er uppstillingin á liðinu eða taktíkin er ekki gott að segja. Mér segir svo hugur að það er fyrst og fremst hugarfarið sem þarf að breytast. Við verðum að trúa því að hér muni verða breyting á.  Leikmannahópurinn er að taka talsverðum breytingum sem er alltaf ákveðið rót á miðju keppnistímabili.   Jonathan Hendrickx er farinn til síns heima og það er alveg ljóst að liðið saknar hans mikið.  Aron er á leið í atvinnumennsku til Ungverjalands og er það talsverður missir líka.  En við höfum fengið Gísla Eyjólfsson til baka frá Svíþjóð og bindum við miklar vonir við hann þó hann hafi ekki verið áberandi í innkomu sinni gegn HK.  Damir, Elfar og Viktor fengu allir gul spjöld gegn HK og það gætu komið leikbönn hjá varnarmönnum okkar ef þetta heldur áfram. Damir er sennilega að fara í bann í næsta leik.  Næsti leikur í Pepsi deildinni er á sunnudaginn, gegn Grindavík sem fengið hefur á sig fæst mörk allra í sumar og það er mikil áskorun. 

En það er fleira framundan.   Næstu 2 vikur er fyrsta þátttaka  Breiðabliks í Evrópukeppni síðan 2016 .  Það var svo sannarlega kominn tími á það.  Andstæðingurinn er Vaduz frá Liechtenstein. Við fyrstu sýn má ætla að hér séu á ferðinni andstæðingur sem Breiðablik ætti að ráða við.  En allt vanmat og að gefa sér góð úrslit fyrirfram er auðvitað stórhættulegt. Liechtenstein er mjög undarlegt smáríki í Ölpunum.  Þetta er furstadæmi sem liggur  milli Sviss og Austurríkis og er með sama íbúafjölda og Kópavogur, 37.000 manns.   Þetta er skattaparadís útvalinna og íbúarnir ekki verið þekktir fyrir knattspyrnuiðkun.  En við getum alveg rifjað upp að það er ekki lengra síðan en áratugur að Liechtenstein sigraði Ísland 3-0 á Rínarleikvanginum í Vaduz – og  Ísland var með Eið Smára innanborðs þá.  Vanmat er því bannorð hér og það verður spennandi að sjá hvernig okkur gengur í alþjóðakeppni eftir stutt hlé.

Ég man í landafræðinni í Víghólaskóla í gamla daga kenndi Guðmundur Oddsson okkur að þetta ríki lifði á frímerkjaútgáfu og bankastarfsemi!  Ég veit ekki alveg með frímerkjaútgáfuna en fjármálastarfsemin er heimsfræg fyrir sérhannað regluverk sem vekja margar spurningar hjá bankaeftirlitsmönnum víða.  Guðmundur sem eitt sinn var formaður knattspyrnudeildarinnar var eftirminnilegur kennari var einmitt á leiknum í gær.  Svipurinn á honum var þannig eftir leikinn að ég ákvað að vera ekkert að ræða við hann eftir lokaflautið.  Hann var ekkert einn um að hugsa sitt eftir þennan leik.

Það má líta á þetta sorglega tap sem brotlendingu. En það er líka hægt að horfa á þetta sem slys.  Við kjósum að gera það hér. Strákarnir hafa alla burði til að rífa sig upp úr þessu áfalli sem þetta vissulega var.  Nú er að þétta raðirnar og standa saman í þeim erfiðu verkefnum sem blasa við.  Við erum enn í baráttu í 3 keppnum og eigum að hafa alla burði til að eiga gott keppnistímabil.  En þá þarf að stilla saman strengi, horfa gagnrýnið á það sem miður fór og læra af því.   Marteinn Lúther sagði eitt sinn:  „Þó ég viti að heimurinn farist á morgun, þá set ég eplatréið mitt niður í dag“.   Þetta var vissulega enginn heimsendir – en verulega mikið áfall sem þarf að vinna sig út úr á skömmum tíma.  Strákarnir geta gert það með sinni frammstöðu inni á vellinum.  Það er vel gerlegt og við skulum fjölmenna á Kópavogsvöllinn á fimmtudaginn gegn Vaduz  og svo aftur sunnudaginn 21. júlí á móti Grindavík og styðja við bakið á þeim, þeir þurfa á því að halda.

HG

Umfjallanir miðla

Myndaveisla frá BlikarTV í boði Helga Viðars.

Til baka