BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Skagamenn lítil fyrirstaða

17.01.2015

Blikahraðlestin undir stjórn Arnars Grétarsson og Kristófers Sigurgeirssonar heldur áfram á fullri ferð. Nú voru það gulir og (ekki svo) glaðir Skagamenn sem urðu fyrir lestinni og urðu að játa sig sigraða 3:0. Það voru þeir Ellert Hreinsson, Arnþór Ari Atlason og Davíð Kristján Ólafsson sem settu mörk okkar í leiknum.

Fyrri hálfleikur var nú reyndar frekar tíðindalítill og hvorugt liðið náði að skapa sér nein verulega hættuleg færi. Þó voru Blikar mun sterkari en það var þó ekki fyrr en undir lok hálfleiksins að Andri Rafn tætti vörn Skagamann í sig og renndi snyrtilega inn á Ellert sem gat ekki annað en klárað færið fram hjá reyndar góðum Árna Snæ markverði gestanna.

Í síðari háfleik tókum við öll völd á vellinum. Olgeir var tæklaður illa niður innan teigs strax á 5. mínútu. En Arnóri fyrirliði lét Árna Snæ markvörð Skagamanna verja vítaspyrnuna. En það kom ekki að sök þvi við sóttum linnulaust og fljótlega bætti Arnþór Ari við öðru marki eftir góðan undirbúning Gunnlaugs Hlyns Birgissonar.

Fallegasta markið setti síðan Davíð Kristján með hnitmiðuðu skoti með hægri (!) úr frekar þröngri stöðu beint upp í vinkilinn.  Þriggja marka og síst of stór sigur á nýliðunum í deildinni og við erum nánast öruggir að komast upp úr riðlinum á þessu fotbolti.net móti.

Það sannaðist enn og aftur að maður kemur í manns stað í þessu Blikaliði. Oliver, Ósvald Jarl, Höskuldur og Árni Vill voru allir á úrtaksæfingum fyrir U-21 árs liðið og gátu því ekki spilað þennan leik. Guðjón Pétur og Kiddi Jóns eiga við smávægileg meiðsli að stríða og gátu ekki heldur verið með. Kári Ársæls og Gummi Friðriks komu inn í vörnina í byrjunarliði og áttu báðir mjög góðan leik. Kári steig ekki feilspor í vörninni og Gummi skilaði vinstri bakvarðarstöðunni með miklum sóma.

Sérstaklega var gaman að sjá hver Arnór og Gummi bakverðir ógnuðu vel í sóknarleiknum með hraða sínum og krafti. Einnig er vert að geta að Gunnlaugur Hlynur tók öll völd á miðjunni þegar hann kom inn á í síðari hálfleik. Ekki má gleyma að Arnór Brynjarsson úr 2. flokki kom inn á sínum fyrsta meistaraflokks leik og stóð vel fyrir sínu. 

Það verður því töluverður hausverkur fyrir þjálfarana að velja liðið fyrir næsta leik sem verður gegn Þrótti á þriðjudaginn kl.18.30 í Egilshöll.

Nánar á BlikarTV

-AP

Til baka