BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sigmundur fallinn frá

26.01.2014

Einn af okkar elstu og virkustu félögum, Sigmundur Eiríksson, er falinn frá 75 ára að aldri. Sigmundur var fæddur 7. desember 1938. Hann ólst upp á Kársnesbrautinni og átti sæti í fyrsta keppnisliði meistaraflokks Breiðabliks árið 1957. Sigmundur lék samtals 118 leiki með meistaraflokki allt til ársins 1968. Hann spilaði oftast sem útherji og þótti bæði duglegur og ósérhlífinn leikmaður.

Sigmundur var einnig virkur í félagsstarfi knattspyrnudeildarinnar og átti sæti í stjórn deildarinnar í allnokkur ár meðal annars sem gjaldkeri. Simbi var mjög stoltur af félaginu sínu og sýndi því mikla ræktarsemi. Það voru ekki margir leikir í meistaraflokkunum sem hann missti af og var hann fastagestur á Kópavogsvelli á leikjum bæði meistaraflokks karla og kvenna.

Sigmundur var sæmdur ,,HeiðursBlika“ viðurkenningu fyrir framlag sitt til knattspyrnudeildar árið 2010 en áður hafði hann fengið útnefningu sem ,,SilfurBliki“ árið 2002. Einnig var hann í hópi þeirra meistaraflokksmanna sem fengu sérstaka viðurkenningu haustið 2013 fyrir ómetanlegt framlag til Breiðabliks á upphafsárum knattspyrnunnar í Kópavogi og að hafa spilað meira en 100 leiki með meistaraflokki Breiðabliks.

Knattspyrnudeildin sendir fjölskyldu Sigmundur innilegar samúðarkveðjur. Það verður sjónarsviptir að hafa hann ekki á vellinum enda var hann skemmtilegur persónuleiki.

Sigmundar verður jarðsunginn frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði mánudaginn 27. janúar og hefst athöfnin kl. 15.

Til baka