BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Seiglusigur á Val

21.05.2015

Blikaliðið vann gríðarlega mikilvægan 1:0 sigur á Valsmönnum á Kópavogsvelli í Pepsi-deildinn í kvöld. Sigurmarkið setti Höskuldur Gunnlaugsson skömmu fyrir leikslok eftir flotta sókn okkar drengja. Þetta var seiglusigur enda eru Hlíðarendapiltarnir með ágætis lið. Maður leiksins var gamla kempan Gunnleifur Gunnleifsson í markinu sem varði meðal annars tvisvar sinnum frábærlega í fyrri hálfleik. 

Byrjunarliðið var þannig skipað: 

1. Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m) 
3. Oliver Sigurjónsson 
4. Damir Muminovic 
5. Elfar Freyr Helgason 
7. Höskuldur Gunnlaugsson 
8. Arnþór Ari Atlason 
10. Guðjón Pétur Lýðsson 
22. Ellert Hreinsson 
23. Kristinn Jónsson 
30. Andri Rafn Yeoman 
31. Guðmundur Friðriksson 

Leikskýrsla.

Arnór er enn á meiðslalista en verður að öllum líkindum með í næsta leik. Atli Sigurjónsson og Davíð Kristján Ólafsson skiptu við Andra Rafn og Höskuld  í síðari hálfleik. Svo kom Olgeir inn á fyrir Guðjón Pétur í blálokin.

StuðBlikaKópacabana stuðningssveitin var loksins mætt á nýjan leik og stóð sig með miklum sóma í stúkunni. Drengirnir létu vel í sér heyra allan tíma og skiptir svona stuðningur gríðarlega miklu máli! Áfram svona drengir!

Fyrri hálfleikur var frekar bragðdaufur. Liðin þreifuðu fyrir sér en sköpuðu sér ekki afgerandi færi. Að vísu varði Gulli tvisvar mjög vel og var öryggið uppmálað í öllum leiknum. Guðjón Pétur setti síðan aukaspyrnu rétt yfir marksúluna.

Síðari hálfleikur byrjaði á svipaðan hátt. Liðin skiptust á að sækja en gestirnir voru ívið sterkari framan af. En svo komu okkar drengir sterkir inn í lokin. Boltinn fór að rúlla betur og uppspilið fyrir markið var einkar glæsilegt. Boltanum var spilað vel á milli manna, Arnór renndi knettinum á Kidda sem átti hárnákvæma sendingu á Höskuld sem setti markið vel með þéttingsfastri innanfótarspyrnu. Þrátt fyrir krampakenndar tilraunir Valsmanna að reyna að jafna i lokin þá hélt Blikavörnin með Gulla sem besta mann.

Þessi sigur á eftir að reynast okkur dýrmætur. Við hoppuðum upp mörg sæti á töflunni og þetta gefur okkur fínt sjálfstraust fyrir útleik uppi á Skaga í næstu viku.

-AP

Til baka