BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Seiglusigur á KA

20.02.2016

Blikar unnu tæpan sigur á KA 2:1 í Lengjubikarnum í Fífunni í dag. Atli Sigurjónsson kom Blikum yfir úr vítaspyrnu strax á fjórðu mínútu leiksins en gamli félagi okkar Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði metin í síðari hálfleik fyrir Norðanmenn. Það var síðan markahrókurinn Jonathan Glenn sem tryggði okkur stigin þrjú með góðu marki tólf mínútunum fyrir leikslok. Það brá fyrir ágætum töktum hjá Blikaliðinu en í heildina geta menn vart verið ánægðir með leikinn þar sem við vorum einum manni fleiri nánast allan leikinn. 

KA menn komu með miklum krafti inn í leikinn og greinilegt að liðið verður feykisterkt í 1. deildinni í sumar. En liðið varð fyrir  áfalli þegar Ellert Hreinsson laumaði knettinum inn fyrir vörnina á 4. mínútu inn á Arnþór Atla sem var felldur í dauðfæri. Víti var dæmt og varnarmaður KA rekinn út af. Héldu nú flestir að þeir grænklæddu myndu taka öll völd á vellinum en það reyndist ekki raunin. Þeir gulklæddu þutu um allan völl eins og býflugur og gáfu okkur engan tíma til að spila boltanum. En vorum við oft allt og lengi að láta boltann ganga og einhvern veginn virðist sú taktík sem afmælisbarnið Arnar Grétarsson (44 ára í dag!) lagði upp með ekki almennilega ganga upp.

Það var ekki fyrr en í síðari hálfleik þegar Höskuldur, Arnór og Guðmundur Atli komu inn á og breytt var yfir í 4-4-2 að við fórum að skapa okkur alvöru færi. Ljóst er að innkoma Arnórs og Höskulds styrkir liðið mikið en við sjáum fram á langt keppnistímabil og við verðum að geta treysta á nokkuð stóran hóp leikmanna. Það styttist í Oliver og Gunnlaugur Hlynur geti farið að spila og Sergio ætti að fá leikheimild á næstu dögum.  

Árangur Blika í Lengjubikarnum gegn KA.

Davíð Kristján var öflugur í vinstri bakverðinum og var þetta liklegast hans besti leikur fyrir Blikaliðið. Atli var nokkuð mikið með boltann og virðist vera að komast í gott leikform. Glenn barðist vel og markið átti hann skuldlaust! Svona gera bara alvöru senterar! 

Næsti leikur Blikaliðsins í keppninni er gegn Fjarðabyggð á Reyðarfirði sunnudaginn 6. mars. Nú er bara að tékka hvort nagladekkin séu ekki í lagi og ákveða hvort menn ætla að keyra norður eða suður fyrir!

-AP

Til baka