BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Seiglusigur á Fylki

13.03.2021 image

Blikar unnu 2:1 seiglusigur á Fylki á rennisléttum Kópavogsvellinum í lokaleik riðlakeppni Lengjubikarsins 2021. Þrátt fyrir frekar lágan lofthita skein sól í heiði og náði að verma þeim rúmlega hundrað áhorfendum sem létu sig hafa að mæta á leikinn. BlikarTV tefldi fram ungu og efnilegu lýsendateymi, þeim Arnar Laufdal Jr. og Frey Snorrasyni, og hafði það sjálfsagt áhrif að margir höfðu það bara notalegt í sófanum heima og nutu leiksins þannig. Þess má geta að sjónvarpsstjórinn sjálfur Heisi Heisson var á myndavélinni!

Yfirburðir okkar drengja voru miklir í fyrri hálfleik og setti Thomas fyrsta mark Blika strax á tólftu mínútu.  Snilldarlega var að markinu staðið, fastar sendingar splundruðu varnarmiðju gestanna og Alexander Helgi sendi svo hárnákvæman bolta á Danann sem gat ekki annað en skorað. En þrátt fyrir töluverða yfirburði í hálfleiknum þá létu fleiri mörk á sér standa. Það kom í bakið á okkur undir lok hálfleiksins þegar Damir varð fyrir því óláni að senda tuðruna í eigið net eftir fasta fyrirgjöf Fylkismanna.

image

Mikil ákefð einkenndi síðari hálfleikinn. Gestirnir pressuðu okkur ofarlega og lentum við stundum í erfiðleikum á miðjusvæðinu. En svo greip einn Fylkismaðurinn til gamla pungkreistubragðsins og fékk að sjálfsögðu að líta rauða spjaldið. Þolandinn, Oliver Sigurjónsson, bar sig samt vel eftir leikinn og kvaðst ætla að eiga fleiri börn í framtíðinni! Gestirnir drógu sig þá aftar á völlinn og freistuðu þess að verja stigið. En Viktor Karl var ekki á þeim buxunum og tryggði Blikunum sigurinn með snyrtilegu marki skömmu fyrir leiklok.

Blikar unnu því alla leikina í riðlakeppninni og mæta KA 8 liða úrslitum á Kópavogsvelli á laugardaginn kemur kl.16:00. Fylkismenn komast einnig áfram í keppninni á betra markahlutfalli en Leiknir.

-AP

Mörk og atvik úr leiknum í boði Blikar TV

Til baka