BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sanngjarn sigur á Hlíðarenda.

15.07.2014

Blikar mættu Valsmönnum í gærkveldi í 11.umferð PEPSI deildarinnar. Leikurinn fór fram við fínar aðstæður á Hlíðarenda í sannkallaðri sumarblíðu. Bleikir akrar og slegin tún, en ekki var Gunnar heima. Hæg gola af suðaustri, léttskýjað og hiti tæpar 14°C í byrjun en nánast logn með sólarglennum þegar líða tók á. Skyggni u.þ.b. 30 km.  

Blikar búnir að sleikja sárin eftir leikinn gegn KR um daginn en ennþá að sleikja botninn á PEPSI deildinni. Illu heilli. Nú var því að duga eða drepast því hin botnliðin voru mörg hver búin að hala inn stig um helgina. Ekkert elsku mamma með það, heldur blákaldur veruleikinn.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (m)
Gísli Páll Helgason- Finnur Orri Margeirsson (F) - Elfar Freyr Helgason  - Arnór Aðalsteinsson
Höskuldur Gunnlaugsson - Andri Yeoman – Guðjón Pétur Lýðsson - Elvar Páll Sigurðsson
Elfar Árni Aðalsteinsson- Árni Vilhjálmsson

Varamenn:
Arnór Bjarki Hafsteinsson (m)
Jordan L. Halsmann
Ernir Bjarnason
Páll Olgeir Þorsteinsson
Ellert Hreinsson
Guðmundur Friðriksson
Olgeir Sigurgeirsson

Sjúkralisti:
Damir Muminovic
Stefán Gíslason
Tómas Óli Garðarsson

Leikurinn byrjaði býsna fjörlega og innan tíu mínútna voru okkar menn búnir að gera sig líklega tvisvar og búnir að ná ágætum tökum á leiknum. Árni átti ágæta tilraun með bakfallsspyrnu eftir langt innkast og skömmu síðar átti Elvar Páll lúmsk skot nokkuð utan teigs, sem Fjalar mátti hafa sig allan við að blaka yfir markið. Valsmenn ógnuðu lítið fyrstu mínúturnar en áttu þó ágætt færi eftir hornspyrnu, en skölluðu  naumlega  framhjá. Blikar pressuðu heimamenn hátt á vellinum og það gafst ágætlega. Feilsendingar Valsmanna margar og sumar alveg prýðilegar, svo minnti jafnvel á okkar menn á köflum í sumar. Það var eiginlega boðið til veislu af hálfu heimamanna og bara spurning hvort við hefðum kjark til að þiggja veitingarnar. Þeirri spurningu svöruðu okkar menn reyndar ágætlega og áður en 20 mínútur voru liðnar, eða þar um bil, voru Blikar búnir að skora tvívegis. Fyrst skoraði Elfar Árni og svo skoraði Elfar Árni aftur. Fyrst eftir góðan undibúning Árna og svo eftir góðan undirbúning Árna. Aftur. Fyrra markið var sannkallað augnakonfekt. Boltinn barst til Árna vinstramegin við vítateig heimamanna og hann lék á bakvörðinn og sendi svo fasta sendingu fyrir markið. Elfar Árni var mættur við markteigshornið nær, talsvert framan við nærstöngina og hann sendi boltinn innanfótar aftur fyrir sig upp í markvinkilin. Snaggaralega gert og þarna nýtti Elfar vel hvað sendingin var föst. Síðara markið var talsvert frábrugið, en vel gert engu að síður. Árna vann þá tvö návígi af harðfylgi og komst inn fyrir vörn gestanna, en með leikmann Vals á hælunum sendi hann svo boltann til vinstri á Elfar Árna sem skoraði af öryggi fram hjá Fjalari. Staðan skyndilega orðin 0-2 okkur í vil.
Áfram héldu Blikar að þjarma að heimamönnum og Árni átti m.a. gott skot eftir langt útspark en Fjalar sá við honum. En nú fór leikurinn aðeins að jafnas. Okkar menn hægðu af einhverjum sökum aðeins á ferðinni og fóru að gaufa meira við boltann í stað þess að láta boltann ganga og spila af þeirri ákefð sem var til staðar fyrstu 25 mínúturnar. Það var hins vegar einmitt það sem heimamenn þurftu til að koma sér inn í leikinn og þeir náðu ágætum sóknum af og til uns þeir minnkuðu muninn,  með nokkuð slysalegu marki.  Það kom hár bolti inn að vítapunkti með stefnu á markið. Enginn varnarmður Blika náði til boltans og heldur ekki fremsti maður Vals sem var þó nálægt því að setja koll í knött, en eitthvað fipaði þetta Gunnleif og hann náði ekki að handsama boltann sem hrökk fyrir fætur manns í rauðu og sá sendi hann rakleitt í okkar mark. Staðan 1-2 og nú fengu þeir rauðklæduu blóð á tennurnar. Pressuðu stíft og fengu urmul af hornspyrnum. Við vorum í talsverðum vandræðum þarna og þau náðu hámarki þegar Gunnleifur lenti í klafsi úti í teig en eftir mikinn darraðardans náðu Blikar að bægja hættunni frá. Þarna munaði mjóu, en nógu. Skömmu síðar var Elfar Árni tekinn á hælinn af Halldóri Hermanni Jónssyni svo blæddi úr höfði hans. Það mun vera skeina ein. Halldór þessi er einmitt bróðir Þorbergs Inga sem hljóp Laugaveginn að Fjallabaki um helgina á 4:07:46. Geri aðrir betur. Við áttum reyndar okkar fulltrúa í hlaupinu líka og þeir stóðu sig vel og lentu í 2. 10. 12. og 25. sæti. En það var nú ekki þess vegna sem Halldór skeindi sár á höfði Elfars. Það var óviljaverk, en lipurlega gert eins og glöggt mátti sjá í PEPSI mörkunum.
Fleira varð ekki tíðinda í fyrri hálfleik og Blikar því með eins marks forystu í leikhlénu.

Það var mál manna að Blikar væru mun frískari en áður í sumar og það hefðu verið góð færi til að klára leikinn með þriðja markinu. Meira sjálfstraust, meiri hraði og barátta og einhern veginn léttara yfir liðinu frá byrjun. Höskuldur sprækur. Helvítis klúður samt að fá þetta mark á sig. Svo voru nokkrir sem sögðust ætla að rúlla þessu golfmóti upp. Verðlaunin verða nú samt ekki afhent fyrr en eftir mót.

Blikar gerðu breytingu í hálfleik. Elfar Árni þurfti að hætta leik eftir að hafa fengið nokkur högg á lærið. Sérstaklega frá leikmanni # 26 hjá Val, sem var einstaklega iðinn við að brjóta og tuddast, líka þegar boltinn var fjarri. Komst þvi miður upp með það. Inná kom Olgeir og fer nú að styttast í 300. leikinn hjá honum. Held að Olli sé fyrsti Blikinn sem nær 300 leikjum. 7-9-13 og allt það en ég þarf örugglega að kaupa mér nýja skyrtu því mér verður vonandi boðið í veislu þegar drengurinn nær þessu.

Blikar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og téður Olgeir var nálægt því að setja mark eftir góðan undirbúnin Árna og Arnórs en það vantaði herslumun. 1-3 eftir 50 mínútur hefði verið góð staða. Skömmu áður fékk Árni gott færi eftir vel útfærða aukaspyrnu þar sem Guðjón renndi Árna, en hann skaut í samherja.En skömmu síðar, hinsvegar, komst Höskuldur í ágætt færi eftir sendingu frá Fjalari, en sami Fjalar varði vel. Svo skallaði Árni naumlega framhjá. Blikar settu nú Ellert inná fyrir Elvar Pál og héldu áfram á góðu róli en með nauma forystu þannig að stuðningmennirnir voru órólegir. Sumir. Guðjón Pétur fékk svo ákjósanlegt skotfæri en ætlaði sennilega að rífa netið og girðinguna því hann hitti boltann afleitlega og boltinn rétt lak útaf vellinum. Skömmu síðar komst Árni einn í gegn en var ranglega dæmdur rangstæður. Aðstoðardómarar í PEPSI deild anno 2014 eru reyndar alveg sér kapítuli. Nenni ekki að röfla um það en vona að stjórnin geri eitthvað í málinu. Þetta er ekki búið að vera boðlegt í sumar. Gærdagurinn var þó með skárra móti. Jordan Halsman kom inn fyrir Árna þegar skammt var til leiksloka. Valsmenn áttu ekki færi fyrr en á lokamínútum leiksins en þá munaði litlu að þeir jöfnuðu metin þegar Bjarni Ólafur fékk boltann algjörlega frír inni í miðjum teig en mokaði honum blessunarlega hátt yfir markið. Þarna vorum við steinsofandi og of uppteknir við að halda valsmönnum frá boltanum í stað þess að ráðast á hann sjálfir. Það þarf að ráðast á alla bolta sem koma fljúgandi inn í teiginn. Þarna skall hurð sannarlega nærri hælum og Bjarni nagar sig örugglega í handarbökin. Skömmu síðar fékk leikmaður #10 hjá Val, sem kom inn á þegar hálftími var eftir,  gult spjald en það hefði hann löngu átt að vera kominn með því hann var búinn að fara í nokkrar groddalega grófar tæklingar og oftar en ekki var Andri Rafn fórnarlambið. Alltaf dæmt en ekki spjaldað fyrr en í restina. Svo er alltaf verið að tala um að Kjartan Henry sé grófur. Ég held að Valsmenn ættu að láta þennan dreng læra einkunnarorð séra Friðriks.  Því hann er nefnilega ágætur í fótbolta. Það er sennilega of seint með Danann #26.

Leiknum lauk með 1-2 sigri okkar og Blikar nær og fjær önduðu léttar. 3 stig í húsi og við enn á lífi og með nefið upp úr. En ekki meir en svo. Við erum enn á hættusvæði og ,,það er stutt í kúkinn“ eins og einn ágætur maður sagði stundum.  Við sitjum nú í 7. sæti með 12 stig þegar mótið er hálfnað. ,,Aðeins“ 3 stig eru í sjötta sætið en líka bara 3 stig í liðið í 11. sæti. Þar viljum við ekki vera. Best að hafa það alveg á hreinu.

Blikar eru vonandi að leita leiða til að styrkja liðið. Við þurfum að styrkja liðið eins og það er nú, að ekki sé nú talað um ef bæði (hvorir tveggja) Tómas Óli og Gísli Páll eru á leið af landi brott, eins og óljósar fréttir herma. Þórður Steinar ku vera mættur til landins og ætla að setjast niður með Blikum og ræða málin. Vonandi er hann í standi sá baráttuhundur. En það þarf meira. Við erum ákaflega þunnir víða. En ætli sé ekki óhætt að treysta þjálfurun fyrir þessu? Ég set traust mitt á þá og tek undir með Guðmundi þegar hann segir að ,,við munum ekki ná í menn bara til að fá einhverja“. Það er hárétt. Við þurfum menn úr efstu skúffunni.

Fjölmargir Blikar mættu á völlinn í gærkveldi, og studdu vel við bakið á liðinu enda hefð fyrir góðri skemmtun hjá okkur Blikum á Hlíðarenda. Hver man ekki leikinn 2011?

En nú er þssi leikur búinn og áfram er baráttan upp á líf og dauða. Næsti leikur okkar manna er gegn FH í PEPSI deildinni n.k. mánudag og hann hefst kl.19:15.
Þetta er okkar heimaleikur og krafan er að þar mæti menn eins og grenjandi ljón til leiks. Bæði leikmenn og stuðningsmenn. Það er komið alveg nóg af yfirgangi þeirra Hafnfirsku.

Vér mætum ok brýnum raustina af kappi, eins ok Snorri sagði. Ok ef til vill nökkurri forsjá. Þat er þó eigi víst.

Áfram Breiðablik !

OWK

Til baka