BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sætur og sanngjarn Blikasigur á Íslands og Bikarmeirsturum KR!

21.06.2012

Það var mikil Blikahátíð á Kópavogsvelli í gær, inni á vellinum, uppi í stúku og fyrir leik þar sem boðið var upp á fjölskylduskemmtun. Fleiri hundruð grillaðar pylsur og Pepsi voru í boði Varðar trygginga og hoppukastalar og gasblöðrur fyrir þau yngstu. Það voru tæplega 1400 manns sem mættu á völlinn, kærkomin breyting frá síðasta leik á móti Grindavík þar sem að rétt rúmlega 500 manns létu sjá sig.

Einhverjir sögðu fyrir leik að þessi mikla of flotta stemmning fyrir leik væri til þess fallið að jinxa leikinn. Týpísk Blikaminnimáttarkennd sem má alveg fara að sópa undir þessa frægu mottu! Breiðbliksliðið var að minnsta kosti ekki með þá hugsun inni á vellinum eða í varamannaskýlinu. Liðið byrjaði af krafti frá fyrstu mínútu og strákarnir létu finna fyrir sér.

Blikar gerðu eina breytingu á liðinu frá því í síðasta leik, Tómas Óli kom inn í liðið fyrir Árna Vilhjálmsson. Einhverjir Blikar kölluðu eftir því að Guðmundur Pétursson myndi byrja eftir sprækar innkomur í síðustu leikjum en besti þjálfari á Íslandi Ólafur Helgi Kristjánsson er sennilega betur til þess fallinn að velja byrjunarliðið. Úrslit í síðustu leikjum hafa svo sannarlega sýnt okkur það svo ekki sé talað um árangur síðustu ára.

Völlurinn var mjög blautur eftir vökvun frá vallarstarfsmönnum og alvöru úrhelli af himnum ofan. Spennustigið var nokkuð hátt í leiknum og maður fann það á þeim grænu að þá langaði virkilega til að vinna þennan leik. Sami bragur var ekki á KR liðinu sem var á eftir í alla bolta og náðu þeir illa að halda boltanum innan liðsins. Einföldustu hlutir eins og aukaspyrnur náðu meira að segja að flækjast fyrir þeim.Svo ekki sé talað það að standa í lappirnar, leiðinlegt að sjá unga og hrausta menn liggjandi í grasinu í tíma og ótíma. Góður dómari leiksins Magnús Þórisson féll sem betur fer ekki í gryfju KR inga skipaði þeim umsvifalaust á lappir þegar þeir létu sig detta.

Leikurinn var skemmtilegur og klárlega sá skemmtilegasti það sem af er sumri hjá þeim grænu, stemmningin í stúkunni var líka eftir því. Menn létu vel í sér heyra og flestir tóku vel undir, skipti ekki máli þó að engin lúðrasveit væri á svæðinu.

KR skoraði gegn gangi leiksins þegar rúmar 15 mínútur voru erftir og ég viðurkenni það að fór um mann gamalkunnur hrollur. Voru Blikar að missa þetta frá sér þrátt fyrir að vera miklu betra liðið? Besti maður vallarins Kristinn Jónsson var ekki á þeim buxunum að láta KR mæta á Kópavogsvöll, geta ekki neitt en samt ganga burtu með 3 stig. Óli þjálfari virtist heldur ekki vera á því en stuttu fyrir mark KR kom rauða þruman Guðmundur Pétursson inn fyrir aðra rauða þrumu Tómas Óla sem hafði átt frábæran leik eins og nánast allt Blikaliðið. Gummi Pé var sammála Kidda Jóns, hann fékk boltann inn á teig með 2 varnarmenn KR í bakinu. Gummi náði að snúa sér og skaut góðu skoti efst í markohornið en Hannes í markinu varði vel. KR ingarnir héldu að hættan væri frá en gleymdu að gera ráð fyrir besta vinstribakverðinum í deildinni Kidda Jóns, hann var mættur í frákastið á fjærstönginni og setti boltann af öryggi í netið. Staðan orðinn 1-1 sem var mikið meira en sanngjarnt, Blikar voru ekki hættir.

Skömmu síðar fékk Sverrir algjört dauðfæri inn í teig þegar að boltinn barst til hans en skallinn fór naumlega yfir. Stemmningin í stúkunni var eins og hún gerist best og ástæðan var einföld, Blikaliðið spilaði ótrúlega skemmtilegan bolta og sýndi baráttu sem skilaði sér beint í æð á þeim 1400 sem mættu þetta á völlinn kvöld.

Þegar 4 mínútur voru eftir þá pressaði sprækur Guðmundur pétursson KR vörnina sem náði ekki að koma frá háum bolta úti á vinstri kantinum. Bingó, aukaspyrna á hættulegum stað og risavaxinn og brjálaður Sverrir Ingi inni í teig sem rétt áður hafði misnotað dauðfæri í teignum. Undirritaður hafði það mikla trú á að Sverrir myndi setja hann að ég öskraði inn á völlinn eins hátt og ég gat „Sverrir troddu honum inn“ og sagði svo við mína sessunauta „hafið augun á Sverri“. Það var eins og við manninn mælt, Kristinn Jónsson kom með eitraðan bolta inn á teig og það var enginn annar að fara taka þennan bolta. Sverrir var sem kóngur í ríki sínu inni á teignum og skallaði boltann af öryggi í netið. Stúkan gjörsamlega trylltist og ekki voru fagnaðarlætin minni inni á vellinum. KR ingar voru að sama skapi niðurlútir en vissu að þeir áttu ekkert skilið úr þessum leik.

Leikurinn fjaraði út og sanngjarn og sætur sigur Blika var staðreynd. Yfirburðirnir voru miklir hjá þeim grænu í þessum leik, og þeir halda áfram á sömu braut. Liðið búið að vinna síðustu leiki og þjálfarateymið að vinna gríðarlega góða vinnu sem er að skila sér inni á vellinum.

Næsti leikur er í Borgunarbikarnum í Frostaskjóli á þriðjudaginn næsta á móti KR. Þeir mæta væntanlega brjálaðir í þann leik en það gera þeir grænu líka og ég geri ráð fyrir þér og allri þinni fjölskyldu á þann leik. Blikar fá helminginn af innkomunni í bikarleiknum þannig að menn þurfa ekkert að vera fá samviskubit yfir því að borga sig inn í Frostaskjólið. Mætum græn og glöð og styðjum við bakið á okkar mönnum, það skiptir máli!

KIG

Til baka