BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deild karla 2019: Breiðablik - Fylkir sunnudagskvöld kl.19:15

28.08.2019

Nítjánda umferð Pepsi MAX deildar karla 2019 verður leikin á laugardag og sunnudag. Við Blikar fáum Fylkismenn í heimsókn á sunnudagskvöld. Flautað verður til leiks kl.19:15-á flóðlýstum Kópavogsvelli.

Eftir glæsilegan 2:4 sigur á Fimleikafélaginu í Hafnarfirði ætla Blikamenn að tryggja sér 3 stig í leiknum og þannig freista þess að eigna sér 2. sætið í deildinni og tryggja að stigamunur í efsta liðið aukist ekki.

Fylkismenn eru með 25 stig ásamt 3 liðum; Val, HK, ÍA, og aðeins 3 stig skilja Fylkismenn frá Stjörnunni og FH sem eru í 3.-4. sæti.

Fyrri leik liðanna á Fylkisvelli í sumar lauk með 4:3 sigri Fylkis í leik sem Blikamenn virtust strax frá fyrstu mínútu vera eitthvað utan við sig.

Klippur úr 4:3 leiknum í boði Visir.is

Framundan er hörku leikur á sunnudaginn þar sem mikið er undir og bæði lið munu láta sverfa til stáls. Það er að losna um takið sem Fylkir hefur haft á okkar mönnum á Kópavogsvelli í gegnum tíðina. Sigur okkar manna á Fylki á Kópavogsvelli í fyrra var kærkominn eftir 5 mögur ár í stigaöflun gegn Árbæjarliðinu á Kóapvogsvelli.

Enda tóku leikmenn gott 3 stiiig !!! klefafagn eftir leik.

Síðasta heimsókn Fylkismanna á Kópavogsvöll var í 8-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppni KSÍ í lok júní í sumar. Jafnt (2:2) var eftir venjulegan leiktíma og fór leikurinn í framlengingu sem Blikar unnu 2:0. Lokaniðurstaðan 4:2 fyrir Breiðablik í leik gegn mjög baráttuglöðum Fylkismönnum þar sem ekkert var gefið eftir. Meira>

Mörkin og atvik úr leiknum í boði BlikarTV

Sagan

Sagan undanfarin ár segir okkur að Fylkismönnum líði vel í Kópavoginum. Liðið hefur tapað einum deildarleik á Kópavogsvelli síðan 2011.

Leikur okkar manna gegn Fylki á Kópavogsvelli á sunnudaginn verður 58. mótsleikur liðanna frá upphafi og 32. viðureign liðanna í efstu deild.

Heilt yfir hafa liðin mæst 57 sinnum í opinberri keppni. Blikar hafa sigrað 28 sinnum, Fylkir 16 sinnum og 13 jafntefli. Nánar>

Efsta deild

Félögin hafa mæst í 31 skipti í efstu deild frá fyrsta leik árið 1996. Blikar hafa unnið 13 leiki, Fylkir 10 leiki. Jafnteflin er 8. Markaskorun er 77 mark sem skiptist þannig að Fylkir hefur skorað 45 mark gegn 44 mörkum Blika.

Það er ótrúlegt hvað heimavöllur er að gera lítið fyrir bæði lið. Tölfræðin segir að Blikar séu líklegri til að ná hagstæðum úrslitum gegn Fylki í Árbænum en á eigin heimavelli í Kópavogi. Nánar>

2:0 sigur okkar manna á Fylki á Kópavogsvelli í fyrra var sá fyrsti í 7 ár:

2018 2-0 / 2016 1-1 / 2015 0-1 / 2014 2-2 / 2013 1-4 / 2012 1-1 / 2011 3-1

Árin frá 2009 til 2011 höfðu Blikar hinsvegar góð tök á Fylkismönnum og unnu alla heimaleiki gegn þeim á Kópavogsvelli nokkuð sannfærandi.

Síðustu 5 heimaleikir í efstu deild

2018  2:0  Frábæri stig ! meira>

2016  1:1  Gallsúrt jafntefli. meira>

2015  0:1  Hrært í basl með dass af dútli. meira>

2014  2:2  Blikar sjálfum sér verstir. meira>

2013  1:4  Skita. meira>

Leikmenn

Tveir leikmenn Fylkis hafa spilað í grænu treyjunni. Arnór Gauti Ragnarsson á 36 mótsleiki og 9 mörk með Breiðabliki en hann skrifaði undir samning við Fylkismenn í febrúar á þessu ár. Markvörður Fylkismanna, Aron Snær Friðriksson, var hjá okkur Blikum árin 2015 og 2016 áður en hann gerði svo samning við Fylkismenn árið 2017.

Hjá Blikum er það Ólafur Íshólm Ólafsson sem hefur leikið með Árbæjarliðinu. Hann á 34 leiki að baki með Fylkismönnum á árunum 2013 til 2016.

Leikmannahópur Blika er mikið breyttur frá síðasta tímabili. Viktor Karl Einarsson kemur frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur til okkar frá Fjölni. Kwame Quee kemur frá Víkingum í Ólafsvík en er svo lánaður til Reykjavíkur Víkinga í júlí-glugganum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur frá KA. GPL10 lék í fyrra með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með Blikum frá fyrsta mótsleik í ár. Thomas kom til okkar í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vals og gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Svo er Gísli Eyjólfsson kominn til baka eftir rúmlega hálfs árs dvöl á láni hjá sænska 1.deildarliðinu Mjallby. Þá er Aron Bjarnason farinn til ungverska úrvalsdeildarliðsins Újpest. Og Blikinn snjalli Kolbeinn Þórðarson hefur samið við belgíska 1. deildarliðið Lommel til þriggja ára. Og rétt fyrir gluggalok kvittaði Alfons Sampsted upp á lánssamning við Breiðablik frá Norrköping út keppnistímabilið 2019. Leikmannahópur Breiðabliks 2019

Dagskrá

Mætum öll á Kópavogsvöll á sunnudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs!

Það verður kaldur í tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kaffi. Sparkvellir verða á sínum stað fyrir krakkana. Veðurspáin fyrir Kópavogsvöll á sunnudaginn er fín.

Búast má við fjölmenni á völlinn þannig að við hvetjum fólk til að mæta tímanlega.

Slepptu röðinni – sæktu Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi Max deildinni ásamt því að fylgja sínu liði. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Flautað verður til leiks á flóðlýstum Kópavogsvelli kl.19:15!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka