BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Pepsi MAX deildin 2019: Valur – Breiðablik á Origo vellinum. Sunnudagskvöld kl.19:15

23.05.2019

Sjötta umferð Pepsi MAX deildar karla verður leikin um helgina. Blikaliðið skellir sér til Reykjavíkur og mætir þar Íslandsmeisturum Vals á fagurgrænum og rennisléttum heimavelli Valsmanna – Origo vellinum.

Það er mikið undir í þessum leik milli Vals og Blika. Valur er Íslandsmeistari síðustu 2ja ára og var af flestum spáð sigri í deildinni i ár. Valsmenn hafa hinsvegar ekki farið vel af stað og eru með 4 stig af 15 mögulegum. Krafan á sunnudag er alveg skýr til lærisveina séra Friðriks. Sigur á Blikum - ekkert annað kemur til greina.

Breiðablik er í 2. sæti með 10 stig af 15 mögulegum. Lukkan hefur verið með okkur í leikjunum gegn HK og KA en liðið lék vel gegn Grindavík og Víkingi.  Dæmið snerist hinsvegar við gegn ÍA og var talsvert áfall að tapa þeim leik. Staðan ef 5 umf 2019.

Í fyrra mættust liðin einnig í 6. umferð á Origo vellinum. Fyrir 6. umf 2018 voru Blikar taplausir og efstir í deildinni með 11 stig eftir 3 sigurleiki og 2 jafntefli. Valsmenn voru þá með 6 stig í 8. sæti eftir 1 sigurleik, 3 jafntefli og 1 tap. Staðan eftir 5 umf 2018.

Ljóst er að framundan er afar spennandi leikur þar sem mikið er undir og bæði liðin munu láta sverfa til stáls.  Það er rík ástæða fyrir okkur Blika að fjölmenna á Origo völlinn og hvetja okkar menn til sigurs. Við töpuðum báðum leikjunum á grátlegan hátt í fyrra - og það kostaði okkur Íslandsmeistaratitil því einungis munaði 2 stigum á Breiðablik og Val þegar upp var staðið í mótslok. Það er kominn tími að borga fyrir sig á sunnudagskvöldið á Origo velllinum.

Sagan

Mótsleikir Vals og Breiðabliks í meistarflokki karla frá upphafi eru 90. Meira>

Fyrsti mótsleikur liðanna var leikur í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ á Melavellinum föstudaginn 13. ágúst 1965. Leikið var gegn B-liði Vals. Leikurinn tapaðist 3 - 1. Næsti mótsleikur liðanna var árið 1968 – og þá aftur gegn B-lið Vals í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ. Leikurinn fór fram á Melavellinum 26. júlí 1968. Blikar unnu leikinn 3-0. Meira um leikina 1965 og 1968. Mikið skorað í fyrstu mótsleikjum liðanna og tónninn gefinn fyrir framhaldið því leikir liðanna eru oft miklir markaleikir. 

Aðeins hallar á Blika í tölfræðinni. Í 90 mótsleikjum frá upphafi hafa Valsmenn sigrað 39 viðureignir, Blikar 32 og jafnteflin eru 19. Nánar> 

Efsta deild 1971-2018

Fyrstu viðureignir liðanna í efstu deild voru árið 1971. Fyrri leikurinn 1971 var heimaleikur Blika og lauk með 2-0 sigri okkar manna. Það voru þeir Guðmundur Þórðarson og Magnús Steinþórsson sem skorðu tvö fyrstu efstu deildar mörk Breiðabliks gegn Valsmönnumþ Hinsvegar tapaðist seinni leikurinn 4-2. Um haustið áttust liðin svo við í 3ja sinn þegar liðin mættust í 8-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ. Blikar unnu bikarleikinn 2-1. Samtals 11 mörk skoruð í þremur innbyrðisleikjum liðanna árið 1971. Nánar um leikina þrjá árið 1971.

Tölfræðin fellur með Val í efstu deild. Í 64 leikjum liðanna í A-deild hefur Valur sigrað 27 leiki, Blikar 23 leiki og jafnteflin eru 14.

Efsta deild 2005-2019

Blikar leiða tölfræðina frá því að bæði lið komu síðast upp úr næst efstu deild - Valur árið 2005 og Blikar árið 2006. Í 26 viðureignum liðanna frá 2005 leiða Blikar með 12 sigra gegn 8 og jafnteflin eru 6.

Í 13 efstu deildar leikjum liðanna á heimavelli Vals 2005-2018 hafa Blikar unnið 6, tapað 4 og 3 jafntefli. Liðin skora 60 mörk í þessum 13 leikjum; Blikar 36, Valur 24.

Síðustu 5 á heimavelli Vals

Blikar leggja Valsmenn 2014, 2015 og 2016 en tapa með minnsta mun 2017 og 2018. 

2018: 2:1 – Aron Bjarna á 13´. Patrick Pedersen 62’. Ólafur Karl 88’.

2017: 1:0 - Kristinn Ingi með sigurmark Vals á 80’.

2016: 0:3 - Árni Vill(2) og Gísli Eyjólfs skorðuðu öll mörk leiksins

2015: 0:1 - Jonathan Glenn með sigurmark Blika á 38’.

2014: 1:2 - Elfar Árni Aðalsteinsson skoraði bæði mörk Blika.

Leikmenn

Breiðablikliðið er talsvert breytt síðan í fyrra og brotthvarf afar sterkra leikmanna frá síðasta ári er mikið. Willum Willumsson, Gísli Eyjólfsson, Davíð Ólafsson og Oliver Sigurjónsson eru allir farnir erlendis í atvinnumennsku og það er ekki einfalt að endurskipuleggja liðið þegar það blasir við. Til viðbótar hafa komið meiðsli sem trufla Ágúst þjálfara í að slípa saman leikskipulag þannig að við stöndum undir nafni sem topplið í efstu deild.

Tveir núverandi leikmanna Blika urðu Íslandsmeistarar með Valsmönnum síðustu 2 ár. Guðjón Pétur Lýðsson á að baki 112 meistaraflokksleiki og 27 mörk með Valsmönnum og Arnar Sveinn Geirsson 86 meistaraflokksleiki og 7 mörk.

Leikmannahópur Blika 2019: Í desember var Ólafur Íshólm lánaður til Fram. Gísli Eyjólfsson var lánaður til Mjallby til loka árs 2019. Í janúar gerðu Breiðablik og HK samkomulagi um vistaskipti Arnþórs Ara Atlasonar til nágranna okkar í efri byggðum Kópavogs. Aron Kári Aðalsteinsson mun einnig spila með HK í sumar sem lánsmaður en Aron ætlar í nám til Bandaríkjanna seinnipartinn í sumar. Í janúar var Andri Fannar Baldursson lánaður til Bologna. Í febrúar var Arnór Gauti Ragnarsson seldur til Fylkismana. Um miðjan febrúar skrifuðu svo tveir leikmenn undir samninga við erlend lið: Willum Þór Willumsson gerði samning hjá BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi og Davíð Kristján Ólafsson skrifaði undir samning við norska liðið Álasund.

Blikar fá til sín Viktor Karl Einarsson sem kemur heim frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur frá Fjölnismönnum. Kwame Quee lék síðast með Ólafsvíkur Víkingum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur til okkar frá KA en hann lék áður með Íslandsmeisturum Vals. Einnig er Thomas Mikkelsen með frá fyrsta mótsleik í ár en hann kom til liðs við okkur í júlí-glugganum 2018. Svo rétt fyrir mót ganga þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson, sem kemur til okkar frá Íslandsmeisturum Vlas, gerir tveggja ára samning við Breiðablik.

Dagskrá

Mætum öll á Origo völlinn á sunnudagskvöld og hvetjum okkar menn til sigurs í toppbaráttunni.

Búast má við fjölmenni á völlinn kvöld þannig að við hvetjum fólk til að mæta tímanlega.

Slepptu röðinni – sæktu Stubb! Stubbur auðveldar stuðningsmönnum að kaupa miða á leiki í Pepsi Max og Inkasso deildunum, ásamt því að fylgja sínu liði. Smelltu hér til að ná í appið í dag.

Flautað verður til leiks kl.19:15!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka