BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Páll Bjarnason látinn

11.12.2018

Páll Bjarnason fyrrum formaður knattspyrnudeildar er látinn 91 árs að aldri. Páll var formaður knattspyrnudeildar þegar Breiðablik tryggði sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti árið 1971. Páll var mikill félagsmálamaður og átti sæti í ýmsum ráðum og nefndum á vegum Kópavogsbæjar einkum varðandi íþrótta- og æskulýðsmál. Hann var einnig virkur á vettvangi KSÍ og átti sæti í stjórn þess í nokkur ár. Fyrir alla þessa vinnu veitti KSÍ honum gullmerki hreyfingarinnar árið 2010. Einnig sæmdi Breiðablik hann gullmerki félagsins árið 2003.

Páll var heiðursmaður í orðsins fyllstu merkingu. Hann bar hag Breiðabliks ætið fyrir brjósti og fylgdist vel með starfi félagsins alla tíð. Fjölskyldan öll tók virkan þátt í starfi félagsins og átti sonur hans Gunnar Steinn meðal annars sæti í aðalstjórn félagsins þegar mesta uppbyggingin átti sér stað í Kópavogsdalnum. Synir Gunnars Steins þeir Gylfi Steinn og Magnús Páll hafa einnig verið virkir innan félagsins, Gylfi Steinn sem aðalhönnuður heimasíðunnar blikar.is og Magnús Páll sem mikill markaskorari í meistaraflokki félagsins.

Páll mætti vel á völlinn alla tíð og þrátt fyrir þverrandi heilsu síðustu árin þá voru þeir ekki margir leikirnir sem Páll missti af. Jarðarförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna. Við Blikar hugsum með hlýju til Páls Bjarnasonar og sendum fjölskyldu hans samúðarkveðju. 

Páll var formaður knattspyrnudeildar þegar Breiðablik tryggði sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti árið 1971. 

Til baka