BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Óskar Hrafn tjáir sig um Blikana

25.01.2020 image

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari er brattur í upphafi nýs árs og segist vera mjög ánægður með þessa fyrstu mánuði hjá nýju félagi.

Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari er brattur í upphafi nýs árs og segist vera mjög ánægður með þessa fyrstu mánuði hjá nýju félagi. Þetta kemur fram í nýju viðtali sem blikar.is átti við hann fyrir nokkrum dögum.

Blikar.is brydda upp á nýjung en það er útvarpsviðtal og hvetjum við alla knattspyrnuáhugamenn að hlusta á þetta áhugaverða viðtal.

Meðal þess sem Óskar Hrafn tjáir sig um er koma Olivers Sigurjónssonar og Höskuldar Gunnlaugssonar til Breiðablik. Hann upplýsir um æfingaferð til Svíþjóðar um miðjan febrúar og af hverju ekki verður farin nein æfingaferð til Spánar í vor eins og undanfarin ár.

Í viðtalinu kemur fram að fjölskylda Óskars er flutt til Danmerkur en hann telur að það muni ekki trufla störf hans hjá Blikaliðinu. ,,Ætli ég verði ekki bara meira á Blikasvæðinu fyrir vikið,“ segir hann sposkur.

Ákvörðun Gunnleifs Gunleifssonar að gefa aðalmarkvarðarstöðuna eftir til Antons Ara Einarsson er rædd. Óskar Hrafn ræðir um æfingaálagið á liðinu og almennt um stöðu íslenskrar knattspyrnu í samanburði við nágrannalöndin.

Óskar tjáir sig um hugmyndir að fjölga liðum í deildinni. Hann er á móti henni og segir að frekar ætti að fækka liðum í deildinni. Annar möguleiki væri að taka upp úrslitakeppni.

image

Óskar Hrafn Þorvaldsson aðalþjálfari og Halldór Árnason aðstoðarþjálfari á kynningafundi Blikaklúbbsins í vetur. 

Þjálfarinn tjáir sig líka um það leikkerfi sem hann er að innleiða hjá Blikaliðinu. ,,Menn verða að þora að taka áhættu,“ segir hann. ,,Við lofum sóknarleik en það þýðir að liðið getur líka misstigið sig.“

Óskar Hrafn útilokar ekki að Blikaliðið muni bæta við sig sterkum leikmönnum. Hann segir að það geti margt gerst fram að móti þannig að hann muni halda öllum möguleikum opnum.

Þjálfarinn tjáir sig líka um yngri leikmenn og þann mikla fjölda leikmanna sem hafa farið frá Blikunum í atvinnumennsku. Hann tjáir sig líka um hvort ungir leikmenn séu að fara of snemma út.

Svo svarar hann spurningunni hvort titillinn ,,Þjálfari ársins“ setjji aukna pressu á hann í nýju starfi hjá Blikunum. Sjá einnig Óskar Hrafn Þorvaldsson ráðinn þjálfari meistarflokks karla.

En ,,sjón“ er sögu ríkari. Hvetjum alla til að hlusta á þetta viðtal sem er liðlega 30 mínútna langt.

-AP

image

Óskar Hrafn Þorvaldsson og tíðindamaður blikar.is, Andrés Pétursson, í upphafi viðtalsins.

Til baka