BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Öruggur sigur á Grindvíkingum!

26.01.2019

Blikar lögðu Grindavík 5:0 að velli í síðasta leik í riðlinum á fobolti.net mótinu 2019. Eins og tölurnar gefa til kynna vorum við miklu sterkari í leiknum og spilum því til úrslita á mótinu gegn Stjörnunni eða Skagamönnum eftir viku.

Leikskýrsla KSÍ

Leikurinn gegn Grindavík byrjaði á margan hátt svipað og HK-leikurinn. Aron Bjarnason kom okkur yfir snemma leiks með gullfallegu marki beint upp í vinkilinn. Þrátt fyrir nokkur ágæt tækifæri tókst okkur ekki að bæta við fleiri mörkum. Staðan því 1:0 í leikhléi líkt og í HK leiknum.

Það var því smá beygur í áhangendum Blika í leikhléi. Tölfræðin var ekki beint með okkur því Suðurnesjapiltarnir hafa gert okkur skráveifu í þessum vormótum undanfarin ár. Okkur hafði ekki tekist að sigra Grindavík undanfarin fjögur ár.

En framherjinn ungi og efnilegi Brynjólfur Willumsson róaði taugar Blika með tveimur mjög góðum mörkum í byrjun seinni hálfleiksins. Eftir það var einungis eitt lið á vellinum. Blikar léku við hvurn sinn fingur og eftir þessa góðu byrjun var þetta einungis spurning hve stór sigur Blika yrði. Í fjórða markinu sýndi Brynjólfur mikinn þroska þegar hann tíaði upp færi fyrir Kwame Quee. Margir aðrir eldri og reyndari framherjar hefðu reynt skot en Brynjólfur lagði knöttinn snyrtilega fyrir nýliðann okkar sem gat ekki annað en skorað sitt fyrsta mark fyrir Breiðablik.

Viktor Karl kom inn á leikhléi og sýndi og sannaði enn á ný hve góður leikmaður hann er. Hann og Alexander Helgi réðu lögum og lofum á miðjunni og Viktor Karl kórónaði síðan góðan leik sinn með frábæru marki af um 30 metra færi undir lok leiksins. Lokatölur því 5:0 fyrir Blika og var það síst of stór sigur.

Erfitt er að gera upp á milli leikmanna í þessum leik. Aron Bjarnason var mjög frískur í fyrri hálfleik. Alexander Helgi og Viktor Karl voru mjög góðir eftir að þeir komu inn á eftir leikhléið. Kwame Quee sýndi lipra takta og verður greinilega betri eftir því sem hann kynnist liðsfélögum sínum betur. 

Blikaliðið er því komið í úrslit á mótinu enn eitt árið. Andstæðingar okkar verða annað hvort Skagamenn eða Stjörnumenn. En eitt er þó öruggt. Við ætlum okkur sigur enda tími til kominn að þessi titill komi í Kópavoginn á nýjan leik!

-AP

 

 

Leikurinn í heild

Öll mörkin

Fögn leikmanna

 

Til baka