BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

“Money talks”

15.03.2020 image

Sú jákvæða niðurstaða sem ársreikningurinn sýnir er ekki sjálfgefin. Rekstur knattspyrnufélaga á Íslandi er áhættusöm og kostar mikla vinnu bæði stjórnar, starfsmanna og sjálfboðaliða.

Nokkur orð frá ritstjórn blikar.is - stuðningsmannasíðu meistaraflokka Breiðabliks í knattspyrnu - um framhaldsaðalfund knattspyrnudeildar Breiðabliks fór fram þann 12. mars 2020. Þar var lagður fram ársreikningur deildarinnar fyrir árið 2019.

Það er ljóst að rekstur deildarinnar hefur vaxið mikið á milli ára. Tekjurnar voru 451 milljónir króna árið 2019 miðað við 322 milljónir árið áður þannig að reksturinn er greinilega alltaf að verða umfangsmeiri og flóknari. Breiðablik er stærsta knattspyrnudeild landsins og víða er horft til þess hvernig reksturinn hennar gangi.

Það er ekki einfalt mál að reka fyrirtæki eins og knattspyrnudeild Breiðabliks er. Taka þarf tillit til margra sjónarmiða og stefnan þarf að vera skýr og oft ekki sjálfgefið hvað gera skuli.  Segja má að í raun gegni Breiðablik tvíþættu hlutverki sem í sjálfu gætu virst þversagnakennd.  Annars vegar að gegna afar mikilvægu uppeldishluverki ungviðisins í Kópavogi í knattspyrnuiðkun.  Breiðablik - sem er stærsta knattspyrnudeild landsins - leggur mikla áherslu á þennan þátt og hefur mikinn metnað á þessu sviði. Það eru eingöngu ráðnir menntaðir yfirþjálfarar til félagsins og fagmennskan er þekkt um allt land - og erlendis reyndar líka. Gildir það bæði um drengi og stúlkur. Lögð er áhersla á að allir fái tækifæri til að þróa hæfileika sína. Það á enginn að vera útundan. Nánar>

Hinsvegar stendur Breiðablik líka fyrir því að halda úti meistarflokkum í fremstu röð þar sem afreksáherslan er rík. Undanfarinn áratug hefur Breiðablik verið nánast ávallt í toppbaráttu í efstu deild  og er reglulegur þátttakandi í Evrópukeppnum. Enda má sjá af lestri ársreikningsins að þátttakan þar er í raun afgerandi hvað varðar afkomu félagsins. Einnig er sláandi hvað félagið nýtur þessa öfluga uppeldisstarfs sem á sér stað. Tugir leikmanna hafa farið erlendis og freistað gæfunnar. Mörgum hefur gengið vel og þeir eru í senn mikilvæg fjárhagsleg stoð hjá félaginu auk þess að vera sendiherrar þess góða starfs sem hér er unnið.

Sú jákvæða niðurstaða sem ársreikningurinn sýnir er ekki sjálfgefin. Rekstur knattspyrnufélaga á Íslandi er áhættusöm og kostar mikla vinnu bæði stjórnar, starfsmanna og sjálfboðaliða.  Fréttir berast af tapi knattspyrnudeilda um allt land og við vonum að viðkomandi nái vopnum sínum. Slæm fjárhagsstaða einstakra félaga skaðar knattspyrnuna á Íslandi almennt.    

Áætlun fyrir þetta ár gerir ráð fyrir svipuðum rekstri og afkomu og var á síðasta ári. En núna eru teikn á lofti. Corona-vírusinn mun hafa mikil áhrif rekstur Breiðabliks eins og hjá öllum öðrum í samfélaginu.  Félagið hefur strax unnið að viðbrögðum um hvernig bregðast við þessari vá sem við öll höfum áhyggjur af. Nánar> Þar sýnir félagið ábyrgð og við þurfum öll að standa saman til að fara í gegnum þetta fár. 

Við óskum stjórn knattspyrnudeildar og framkvæmdastjóra til hamingju með frábært starf á síðasta ári.  Stjórnin var endurkjörinn á síðasta aðalfundi og er það mikið hraustleikamerki. Þar er saman komin mikil þekking á þessu rekstrarumhverfi og þegar við bætist allur sá fjöldi sjálfboðaliða og foreldra sem að félaginu stendur er framtíð knattspyrnunnar hjá Breiðablik björt.  Núna reynir á samstöðu allra til að fara í gegnum þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Ef við gerum það verður 2020 gott ár fyrir Breiðablik.

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!

Uppaldir og aðrir leikmenn Breiðabliks sem hafa spilað erlendis síðustu 40 ár. 

image

Til baka