BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Molar úr Mosfellsbænum

22.02.2020 image

Blikar unnu nokkuð öruggan 1:3 sigur á félögum okkar í ungmennafélagshreyfingunni í Mosó. Leikurinn var annar leikur okkar í Lengjubikarnum 2020. Við sýndum lítinn drengskap í fyrri hálfleik, völtuðum yfir áttavilta Mosfellinga þannig að þeir vissu varla hvort þeir væru að koma eða fara. Á fyrstu tuttugu mínútum leiksins settum við þrjú kvikindi, Höskuldur með tvö skallamörk og sjóðheitur Viktor Karl með eitt, og þar með var leiknum í raun lokið.

Sjá mörkin úr leiknum í boði BlikarTV hér.

Við gíruðum okkur niður í síðari hálfleik og heimamenn settu eitt mark á okkur. Það var í raun algjör óþarfi þvi við vorum miklu meira með boltann. Bæði tónuðum við niður hraðann í leiknum og svo voru menn ekki alltaf að taka réttar ákvarðanir á síðasta vallarhelmingnum. En sigurinn var aldrei í hættu og við trjónum á toppnum á riðlinum eftir tvo sigra.

Fyrri hálfleikur var ljómandi góður í kuldanum í Mosfellsbænum í gær. Davíð Ingvars var í áætlunarferðum upp kantinn vinstra megin og Guðjón Pétur var sem kóngur í ríki í sínu á miðjunni. Viktor Karl skorar nú í hverjum leik og vonandi verður hann svona heitur í sumar. Kristinn Steindórsson var í byrjunarliðinu i fyrsta sinn og sýndi oft lipra takta. Hann þarf bara að komast í betra leikform þá getur hann orðið í lykilhlutverki hjá okkur enn á ný. Thomas og Brynjólfur léku ekki með vegna smávægilegra meiðsla. Thomas snéri sig á ökkla í Svíþjóð og Brynjólfur er að ná sér eftir meiðsli og veikindi. Binni verður örugglega með í næsta leik og vonandi Thomas líka. Elfar Freyr er á batavegi en það er eitthvað lengra í hann. Og það styttist í að félagaskipti Olivers Sigurjónssonar frá Noregi gangi í gegn.

Næsti leikur Blikaliðsins er áhugaverður leikur gegn Skagamönnum á Kópavogsvelli föstudag kl.19.00. Eins og flestir muna þá mættust stálin stinn síðast þegar þessi lið mættust. Það verður ekkert gefið eftir!

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka