BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Mjólkurbikarinn 2019. Magni - Breiðablik kl.16:00 1. maí

29.04.2019

Næsti leikur meistaraflokks karla er í Boganum á Akureyri í 32-liða úrslitum Mjólkurbikarsins 2019.

Andstæðingar okkar eru Magnamenn sem hafa löngum verið þekktir fyrir mikla baráttu og keppnisskap. Flautað verður til leiks kl. 16:00. Þór TV, í samvinnu við BlikarTV og Magnamenn, mun streyma leiknum á sinni youtube rás. Meira>

Magnamenn, sem voru nýliðar í Inkasso-deildinni í fyrra, héldu sæti sínu á kostnað ÍR og Selfoss en aðeins munaði einu stigi á tíunda og ellefta sæti þegar talið var upp úr pokanum fræga. Með otrúlegu harðfylgi náðu Magnamenn 6 stigum í tveimur síðustu leikjunum, gegn Fram í 21. umferð, og með 2:3 sigri á ÍR í úrslitaleik í lokaumferðinni um áframhaldandi sæti í Inkasso-deildinni 2019.

Forn fróðleikur

Þrátt fyrir að þessi tvö lið hafi ekki mæst mjög oft á knattspyrnuvellinum þá eru Ásatrúartengslin sem binda liðin saman. Magni (og bróðir hans Móði) voru synir Þórs þrumuguðs og Sifjar konu hans. Þeim til heiðurs voru einnig gígarnir tveir sem mynduðust á Fimmvörðuhálsi eftir eldgosið árið 2010 skýrðir Magni og Móði. Breiðablik var hins vegar, eins og allir Blikar vita, heimili Baldurs. Baldur var sonur Óðins og Friggjar og sá þeirra sem þau elskuðu hvað mest. Hann var mjög fagur sýnum og jafnvel það fagur að það lýsti af honum hvert sem hann fór. Hann var jafnframt friðsamur og vitrastur ásanna. Þetta er mikilvægt fyrir okkur Blika að vita!

Sagan

Breiðablik og Magni eiga að baki aðeins 3 mótsleiki. Síðast mættust liðin í mótsleik í Lengjubikarnum í febrúar 2018. Nánar um leikinn>

1979: Einn af hápunkti knattspyrnunnar í sögu þessa tæplega 400 manna byggðalags á Grenivík hlýtur að hafa verið árið 1979 þegar þeir lögðu okkur Blika 1:2 á Kópavogsvelli í næst-efstu deild. Meira>

Þá sannaðist að aldrei má vanmeta neinn andstæðing. Magnamenn vörðust eins og engin væri morgundagurinn. Þeir komust yfir 1:0 með marki úr vítaspyrnu en Sigurður Grétarsson jafnaði leikinn úr annarri vítaspyrnu í síðari hálfleik. Kættust nú grænklæddir í stúkunni og ekki síður þegar við fengum aðra vítaspyrnu skömmu síðar. En þá gerði Einar Kristjánsson markvörður Magna, sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Sigurðar. Þess má geta að þetta var fyrsta vítaspyrna sem Siggi Grétars misnotaði í keppnisleik á ferlinum!

Til að bæta gráu ofan á svart skoruðu Norðanmenn svo sigurmarkið eftir skyndisókn. Þrátt fyrir þessi úrslit fóru Blikar upp í efstu deild þetta árið en Grenvíkingar féllu um deild.

Þess má einnig geta að Blikar unnu alla leiki sína á útivelli þetta keppnistímabilið en töpuðu nokkrum stigum óvænt á heimavelli. Blikar unnu svo sannfærandi 1:8 sigur í leikinn fyrir norðan. Meira>

32-liða úrslit Blika síðustu 5 ár

2018: Þolinmæðissigur á Leiknismönnum. Meira> 
2017: Úr leik í bikarnum !!!  Meira>
2016: Krían skotin niður. Meira> 
2015: Höktum áfram í 16-liða úrslit. Meira> 
2014: Halsmann hetja Blika gegn HK. Meira>

Leikmannahópurinn 2019

Leikmannahópur Blika hefur breyst töluvert milli ára. Í desember var Ólafur Íshólm lánaður til Fram. Gísli Eyjólfsson var lánaður til Mjallby til loka árs 2019. Í janúar gerðu Breiðablik og HK samkomulagi um vistaskipti Arnþórs Ara Atlasonar. Aron Kári Aðalsteinsson mun einnig spila með HK í sumar sem lánsmaður en Aron stefnir á nám í Bandaríkjunum seinnipartinn í sumar. Í janúar var Andri Fannar Baldursson lánaður til Bologna. Í febrúar var Arnór Gauti Ragnarsson seldur til Fylkismana. Um miðjan febrúar skrifuðu svo tveir leikmenn undir samninga við erlend lið: Willum Þór Willumsson gerði samning hjá BATE Borisov í Hvíta-Rússlandi og Davíð Kristján Ólafsson skrifaði undir samning við norska liðið Álasund. Við fáum til okkar Viktor Karl Einarsson sem kemur heim frá Varnamo í Svíðþjóð þar sem hann var á láni frá AZ Alkmaar. Þórir Guðjónsson kemur frá Fjölnismönnum. Kwame Quee lék síðast með Ólafsvíkur Víkingum. Guðjón Pétur Lýðsson kemur til okkar frá KA en hann lék með Íslandsmeisturum Vals í fyrra. Einnig er Thomas Mikkelsen með frá fyrsta leik núna en hann kom til liðs við okkur í júlí-glugganum í fyrra. Rétt fyrir mót ganga þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson til liðs við Breiðablik. Höskuldur kemur á láni til okkar út keppnistímabilið frá Halmstads BK. Arnar Sveinn Geirsson gerir tveggja ára samning við Breiðablik. Leikmenn 2019

Leikurinn

Leikurinn fer fram í Boganum á Akureyri á miðvikudaginn, frídegi verkalýðsins. Flautað verður til leiks kl. 16:00

ÞórTV, í samvinnu við BlikarTV og Maganamenn, mun streyma leiknum á youtube rás Þór TV. Meira>

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!

 

Til baka