BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Markasúpa í Egilshöll

07.12.2013

Blikar riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni í úrslitum BOSE bikarsins í Egilshöll í dag gegn KR-ingum. Þeir röndóttu unnu öruggan sigur 6:2 eftir að staðan í leikhléi var 4:2. Það var Guðjón Pétur Lýðsson sem gerði bæði mörk Blikaliðsins en hann og Finnur Orri fyrirliði voru að öllum öðrum ólöstuðum bestu menn Blikaliðsins.

Sigur KR-inga var verðskuldaður en full stór miðað við gang leiksins. Við spiluðum á köflum ágætlega úti á vellinum en gáfum síðan Vesturbæingunum ódýr mörk. Það var skarð fyrir skildi að Elfar Freyr Helgason þurfi að yfirgefa völlinn eftir aðeins um 10 mínútna leik vegna meiðsla. Það veikti að sjálfsögðu vörnina. Damir Munivovic kom inn á fyrir Elfar Frey sínum fyrsta leik fyrir Blikaliðið og á örugglega eftir að styrkja liðið með meiri samhæfingu við samherja sína.

Margir ungir leikmenn fengu tækifæri í leiknum með Blikaliðinu á meðan KR tefldi fram flestum af sínum sterkustu leikmönnum. Við hengjum ekkert haus eftir þennan leik heldur setjum þetta inn í reynslubankann. Við vinnum bara KR-inga i þeim mótum sem skipta meira máli.

-AP

Til baka