BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Létt í Laugardalnum

20.02.2021 image

Blikar unnu öruggan 0:5 sigur á Þrótti í Lengjubikarnum á Eimskipsvellinum. Blikar settu í fluggírinn í bæði fyrri og seinni hálfleikinn og kláruðu leikinn með stuttu millibili í hvorum hálfleik fyrir sig. Heimadrengirnir börðust vel en gæðin voru bara svo miklu meiri hjá Blikaliðinu. Það voru þeir Thomas Mikkelsen og Gísli Eyjólfsson sem settu sitt markið hvor í fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik kláruðu Brynjólfur Willumsson, Róbert Orri Þorkelsson og Damir Muminovic síðan leikinn með fínum mörkum.

Færanýting Blika í fyrri hálfleik var nokkuð góð. Snilldarsendingar frá Benedikt Warén i markinu hjá Thomasi og frá Davíð Ingvars í marki Gísli voru sannkallað augnakonfekt. Einnig verður að hrósa bæði Thomasi og Gísla að klára færin vel. Í síðari hálfleik var einnig gaman að sjá varnarjaxlana Róbert Orra og Damír skeiða fram í sóknina og koma tuðrunni í markið. Bæði mörkin komu eftir mjög gott samspil Blika út á vellinum sem splundraði vörn þeirra röndóttu. Svo má ekki gleyma markinu hjá Binna. Hann var varla kominn inn á síðari hálfleik þegar knötturinn lá í netinu. Brynjólfur virðist sannarlega vera búinn að reima á sig markaskóna á þessu tímabili.

image

Að vanda keyrði Blikaliðið á stórum hópi í leiknum. Allir útileikmenn liðsins fengu að spreyta sig og stóðu sig með sóma. Þrátt fyrir að búið sé að lána sterka leikmenn eins og Ólaf Guðmundsson og Karl Friðleif Gunnarsson í burtu og enn hafi stórar kanónur eins og Finnur Orri Margeirsson og Davíð Örn Atlason ekki enn spilað leik þá eru gæðin mjög mikil hjá Blikaliðinu. Svo má ekki heldur gleyma að Elfar Freyr, Oliver og Alexander voru fjarverandi vegna meiðsla í þessum leik. Breiddin í leikmannahópnum lofar því mjög góðu fyrir baráttuna á þessu keppnistímabili.  

Næsti leikur Blikaliðsins verður gegn baráttuglöðum Eyjamönnum á Kópavogsvelli sunnudaginn 28. febrúar kl.14.00. Hver veit nema Víðir muni leyfa okkur að mæta á völlinn þá!

-AP

image

Til baka