BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kópavogsvöllur: Söknuður og tilhlökkun

31.10.2018

Það var merkileg stund þegar hinn ágæti dómari Sigurður Þröstur Hjartarson flautaði til leiksloka í viðureign Breiðabliks og KA þann 29. september 2018 sem lauk með glæsilegum 4 – 0 sigri okkar manna. Það var á margan hátt ekki aðeins merki um að þessum frábæra knattspyrnuleik var lokið heldur var hljóðið i flautunni merki um tímamót hjá knattspyrnudeild Breiðabliks.  Héðan í frá – allavega í ófyrirsjáanlegri framtíð – fara heimaleikir Breiðabliks ekki fram á náttúrulegu grasi. 

Kópavogsvöllur á sér merkilega sögu. Fyrsti leikurinn á aðalvellinum var 7. júní 1975 og lauk með 11 – 0 sigri Breiðabliks gegn Víkingi frá Ólafsvík. Nánar hér. Síðan hafa verið leiknir þar 468 mótsleikir í meistaraflokki karla.  219 sigrar, 101 jafntefli og 148 töp. Sjá nánar hér. Á þessum tíma hefur Breiðablik leikið 30 ár í efstu deild en 14 ár í þeirri næstefstu.  Þau eru ófá skiptin sem leikmenn og stuðningsmenn Breiðabliks hafa átt þar gæðastundir – og stundum erfiðar líka.  Í minningunni eru þær góðu sem standa upp úr. 

Aðdragandinn að þeirri ákvörðun að skipta yfir í gervigras er nokkuð langur – og kannski ekki það sem lagt var af stað með í upphafi.  Stjórn knattspyrnudeildar Breiðabliks með Orra Hlöðversson í forsvari var með aðrar hugmyndir og lagði mikla vinnu í að finna lausn á aðstöðunni sem var löngu sprungin. Breiðablik er langstærsta knattspyrnufélag landsins með um 1.500 iðkendur.  Þeir eru til sem halda því fram – og það hefur ekki verið hrakið – að Breiðablik sé fjölmennasta knattspyrnufélag í Evrópu hvað iðkendafjölda varðar.  Staðreynd sem er afar merkileg.   Til að Breiðablik gæti áfram sinnt sínu mikilvæga samfélagslega hlutverki vegna fjölgunar iðkenda voru uppi á borðum frá félaginu vandaðar tillögur um gervigrasvöll við hlið Fífunnar en á aðalvellinum skyldi áfram vera náttúrulegt gras.   

Það er mér mjög minnisstætt þegar ég gekk um Fífuna fyrir nokkrum árum með Michel Platini, einum fremsta knattspyrnumanni sögunnar og við fylgdumst með æfingu hjá 5. flokki karla á æfingu en hann var þá forseti UEFA – knattspyrnusambands Evrópu. Það voru á 2. hundrað strákar á æfingunni  Hákon Sverrisson, yfirþjálfari stýrði henni eins og herforingi og var með fjölda aðstoðarþjálfara á smærri völlum.  Það var hrein unum að horfa á hvernig skipulagið og fagmennskan var og Platini horfði á af mikilli aðdáun.  Svo leit hann á mig og tók kurl upp af teppinu og sagði: „Það er frábært að sjá hvernig þið á norðlægum slóðum lagið ykkur að veðurfarinu.  Jarðvarminn er Guðs gjöf“.   En svo brosti hann og sagði:  „Þessi áferð kemur samt aldrei í staðinn fyrir náttúrulegt gras. Alvöru fótbolti verður alltaf spilaður þar“.  Þessi orð frá mínum uppáhaldsknattspyrnumanni alla tíð höfðu mikil áhrif á mig.

Síðan þetta gerðist hefur iðkendafjöldinn hjá Breiðabliki aukist um mörg hundruð þátttakendur og áðurnefndar hugmyndir sem lagðar voru fram áttu að leysa þetta vandamál.  En það varð ekki.  Eftir mikil fundahöld milli félagsins og Kópavogsbæjar varð lendingin að falla frá vellinum við Fífuna og leggja aðalleikvanginn með gervigrasi.   Það er alveg ljóst að margir Breiðabliksmenn – og fjöldi annarra í knattspyrnuhreyfingunni á Íslandi – horfa með eftirsjá af grasinu sem í mörg ár hefur verið einn albesti grasvöllur landsins.  Ég er einn þeirra.

En málið er ekki einfalt.  Mörg skynsemisrök mæla með því að þessi leið skuli hafa verið farin. Hægt verður að nýta völlinn mun betur til æfinga og keppni.  Meistaraflokkarnir í það minnsta munu ekki þurfa að æfa á aðalvellinum á strigaskóm – eins var stundum raunin hér í gamla daga. Það var hreint með ólíkindum að láta bjóða sér slíkt.   Við munum aldrei aftur lenda með hnút í maganum hvort hægt verður að hefja leiktímabilið á okkar velli líkt og sjá má hér og hér.  Ég man eftir því að hafa spilað fyrsta heimaleik okkar á Melavellinum gamla 1981 gegn Fram vegna þess að Kópavogsvöllur var ekki tilbúinn. 1991 þurftum við að leika alla okkar heimaleiki nema 3 síðustu á Sandgrasvellinum svokallaða  þar sem sumarið fór í viðhald á „Wembley“ eins og við kölluðum völlinn oft.    Flóðljósin bjóða upp á kvöldleiki þar sem andrúmsloft er öðruvísi og oft betra.   Við fáum meiri æfingatíma en áður á löngum vetrum og svo má áfram telja.  Mótrökin gegn þessari ráðstöfun eru kannski mest tilfinningalegs eðlis.  Fótbolti á gervigrasi er á margan hátt allt önnur íþrótt – áferðin önnur og boltinn hagar sér eðli málsins samkvæmt öðruvísi. „Fótbolti á sterum“ segja sumir þó ég sé ekki sammála því.   Það er ekki auðvelt fyrir okkur gamla knattspyrnuhunda að koma með mótrök eins og þau að lyktin af gróandanum í grasinu og mýktin í ásýnd leiksins hafi mikið að segja með gæði knattspyrnunnar – nokkuð sem Breiðablik hefur löngum verið þekkt fyrir.  Hér voru í gangi átök milli heilans og hjartans eins og einn vinur minn sagði.  Meiri hluti kjörinna fulltrúa í Kópavogi og embættismenn lögðu á borðið skynsemisrök úr excel sem sýna að það er hagkvæmara fyrir bæjarfélagið að þessi lausn verði farin.  Breiðablik náði þó ýmsu fram í samningaviðræðum við bæinn og niðurstaðan er þessi.  

Það borgar sig aldrei að dvelja við fortíðina og reyna að breyta því sem ekki verður breytt.  Það eru gömul sannindi og ný.  Á meðan við kveðjum grasið á Wembley með söknuði þá eigum við að horfa með tilhlökkun á nýjan völl með nýju hlutverki.  Framkvæmdir eru þegar hafnar eins og sjá má af myndum sem teknar voru í byrjun október.  Meistaraflokkar Breiðabliks (og aðrir flokkar á góðum degi) munu strax vorið 2019 taka hinum nýja velli fagnandi og áfram veita okkur stuðningsmönnum ánægjustundir.  Framtíðin hjá Breiðabliki er björt – sennilega hefur félagið aldrei staðið styrkari fótum og samheldnin aldrei verið meiri.  Við berum líka mikla ábyrgð í íslensku knattspyrnusamfélagi sem öflugasta félag landsins og munum  bera þann Breiðablikskyndil áfram með stolti.

Það var afskaplega vel til fundið hjá Breiðabliki að afhenda Ólafi Björnssyni að gjöf grasþöku sem var tekin af einu vítateigshorni vallarins eftir leikinn gegn KA.  Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri og Gunnleifur Gunnleifsson fyrirliði okkar færðu honum þessa táknrænu gjöf á sextugsafmæli Óla þann 7 október sl.  Viðbrögð Óla náðust á myndband sem sjá má hér. Grasþakan mun lifa áfram á fallegu heimili þeirra hjóna áfram – enda Kolla eiginkona Óla með einstaklega græna fingur.  Óli var lengi fyrirliðinn minn í meistaraflokki, urðum saman Íslandsmeistarar í yngri flokkum og er reyndar æskuvinur.  Hann var frábær varnarmaður og lék nokkra landsleiki. Sjá leikjaferil hér. En fyrst og fremst er Óli einn okkar albesti félagi, einn þeirra sem mynda sálina í félaginu.  Það er einfaldlega þannig að félagið okkar byggir sínar stoðir fyrst og fremst á fólki en ekki mannvirkjum.     

Á meðan við kveðjum grasið sem var okkur svo kært tökum við hinum nýja velli fagnandi.  Það eru bjartir tímar framundan hjá Breiðabliki.

 

Hákon Gunnarsson

Til baka