BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

,,Kjúklingarnir” sáu um Fram

06.02.2016

Blikar unnu Fram 0:3 í æfingaleik í Egilsshöll í dag. Guðmundur Atli fór mikinn í framlinunni og skoraði 2 mörk og lagði upp eitt fyrir Ósvald Traustason. Ungur aldur Blikaliðsins var þó það sem mesta athygli vakti en hvorki fleiri né færri en átta leikmenn, þarf af fjórir úr 3.flokki, fengu sína eldskírn með meistaraflokki. Það skal þó tekið fram að Framarar tefldu ekki heldur fram sínu sterkasta liði. 

Þeir bláklæddu hófu leikinn með töluverðri pressu en smám saman náðu Blikar völdum á miðjunni.  Ungur leikmaður úr 2. flokki Skúli E. Kristjánsson Sigurz spilaði í hafsentinum ásamt Ósvaldi og áttu þeir báðir afbragðsleik.  Einnig átti hinn bráefnilegi Aron Kári Aðalsteinsson fínan leik í sínum fyrsta meistaraflokksleik. Blikar náðu forystunni um miðjan hálfleikinn með skallamarki frá Ósa.  

Síðari hálfleikur var á margan hátt keimlíkur. Óskar og Gísli réðu miðjuspilinu og Guðmundur Atli hrökk í gang eftir að hafa skorað úr vítaspyrnu sem var dæmd þegar Sólon Breki var felldur í vítateignum. Guðmundur skoraði síðan gullfallegt mark og var óheppinn að skora ekki fleiri mörk.

Sænski varnarmaðurinn Pontus Nordenberg spilaði í vinstri bakverðinum og stóð sig vel. Hann er sterkur og fljótur og skilar boltanum vel frá sér.

Undir lok leiksins komu fjórir ungir og efnilegir leikmenn úr 3. flokki inn á og stóðu sig vel þær mínútur sem fengu. Þetta voru þeir Arnór Borg Guðjohnsen,  Ísak Gunnlaugsson, Brynjólfur Willumsson og Gabríel Þór Stefánsson. Nokkru áður hafði Bjartur Þór Helgason úr 2. flokki komið inn á ógnaði vel á kantinum.

Það vantar svo sannarlega ekki efniviðinn í Blikaliðið. 

Svipmyndir úr leiknum í boði BlikarTV.

Næsti leikur Blikaliðsins er gegn Fylki í Lengjubikarnum í Fífunni á laugardaginn kl.11.15.

-AP

Til baka