BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Kári í aðalhlutverki!

11.03.2019

Blikar urðu að sætta sig við eitt stig í miklum rokleik á Ásvöllum gegn Haukum í dag. Lokastaðan var 1:1 eftir að heimamenn komust yfir úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Þrátt fyrir þunga sókn meirihluta seinni hálfleiks tókst okkur ekki að skora nema einu sinni. Þar var að verki Aron Bjarnason með laglegu marki á 72. mínútu.

Leikskýrsla KSÍ

Drengirnir hans séra Friðrik létu heldur betur kappið bera fegurðina ofurliðið þegar þeir neituðu að færa leikinn inn í Fífuna. Í staðin fyrir góða flotta knattspyrnu þá fengu áhorfendur háloftaspyrnu og ruglfótbolta. Það er ekki hægt að spila alvöru knattspyrnu við svona aðstæður.

Eins og við mátti búast var töluvert um pústra og brot, bæði viljandi og óviljandi, og undir lok leiksins munaði litlu að syði upp úr á milli leikmanna. Það má að mestu leyti skrifast á aðstæður en einnig að dómaratríóið var ekki að hafa nógu góð tök á leiknum.

Þegar upp var staðið voru 10 gul spjöld komin á loft og þar að auki þurfti dómarinn að bæta einu aukaspjaldi á Elfar Frey. Hann fékk því rautt og missir því líklegast af FH leiknum á laugardaginn.

Sá leikur verður úrslitaleikur um efsta sætið í riðlinum. Leikurinn mun fara fram við bestu aðstæður í Fífunni á laugardaginn kl.12.00. Okkur hefur gengið vel með FHinga undanfarin ár og vonandi verður engin breyting þar á.

Myndir: Fótbolti.net - Hulda Margrét

-AP

Tíðindamaður @blikar_is var á leiknum:

Til baka