BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Íslensk Knattspyrna 2016

14.12.2016

Bókaútgáfan Tindur hefur gefið út bókina Íslensk knattspyrna 2016 eftir Víði Sigurðsson en þetta er 36. árið í röð sem árbók knattspyrnunnar á Íslandi kemur út.

Bókin er 272 blaðsíður og myndirnar í henni eru 380 talsins. Þar eru m.a. liðsmyndir af sigurvegurum í öllum deildum og flokkum, öllum liðum sem fóru upp um deild í meistaraflokkum karla og kvenna, og svo af miklum fjölda annara liða og einstaklinga.

Í bókinni eru viðtöl við Aron Einar Gunnarsson, Dagnýju Brynjarsdóttur, Atla Viðar Björnsson, Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur og Klöru Bjartmarz. Þar er einnig að finna ítarlega umfjöllun um EM 2016 í Frakklandi, frásagnir af öllum landsleikjum í öllum aldursflokkum, fjallað ítarlega um allar deildir Íslandsmótsins og gangur þess rakinn frá umferð til umferðar í efri deildunum, umfjöllun um alla Evrópuleiki íslensku liðanna, bikarkeppnina, deildabikarinn, nákvæmt yfirlit yfir atvinnumennina erlendis og hvað þeir gerðu á árinu, og margt fleira.

Þá er í bókinni afar nákvæm tölfræði um alla leikmenn í efstu deildum karla og kvenna, liðsskipanir allra liða í öllum deildum meistaraflokks koma fram ásamt leikja- og markafjölda, öll úrslit og lokastöður í öllum yngri flokkum á Íslandsmótinu. Þar má finna hverjir hafa spilað mest og skorað mest í öllum deildum, hvaða íslensku knattspyrnumenn hafa spilað flesta leiki á ferlinum, hvaða Íslendingar hafa spilað í Meistaradeild Evrópu, og ótalmargt fleira.

Í bókinni er m.a. ítarlega fjallað um hvaða leikmenn áttu flestar stoðsendingar í efstu deildum karla og kvenna á árinu en efstu leikmenn í báðum deildum voru verðlaunaðir af Bókaútgáfunni Tindi í útgáfuhófi vegna bókarinnar.

Til baka