BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Íslandsmeistaratitill og Evrópukeppni niðurstaðan hjá Breiðabliki

31.10.2020 image

Blikar eru sáttir með árangurinn að loknu sögulegu keppnistímabili 2020

Knattspyrnusamband Íslands hefur tekið ákvörðun um að Íslandsmótum í knattspyrnu sé lokið árið 2020.  Þetta er eðlileg niðurstaða eftir að sóttvarnarlæknir ráðlagði harðari aðgerðir í sóttvörnum næstu vikur á þessum undarlegu tímum og stjórnvöld ákváðu að fara að þeim ráðum.

Þetta hefur það í för með sér að Breiðablik endar í 4. sæti Pepsi MAX deildar karla þetta árið. Þar sem Mjólkurbikarkeppninni er einnig aflýst árið 2020 þýðir þessi niðurstaða að Breiðablik tekur þátt í Evrópukeppni árið 2021.   Tæpt var það vissulega en reglugerð KSÍ tekur af allan vafa um þetta.  Auðvitað sýnist sitt hverjum um þessa ákvörðun KSÍ – en flestum þykir hún eðlileg í ljósi ástandsins. 

Það er stefna Breiðabliks að vera ávallt í toppbaráttu í efstu deild og taka þátt í Evrópukeppni á hverju ári. Það markmið hefur náðst og við hjá blikar.is óskum strákunum, þjálfurum og öðrum Blikum innilega til hamingju með árangurinn.  Liðið spilaði á köflum frábæra knattspyrnu en slæmur kafli í júlímánuði kom í veg fyrir að við gátum gert alvöru atlögu að titilinum þetta árið.  Við erum með frábæran leikmannahóp og breiðan sem er líklegur til frekari afreka á næsta leiktímabili.

Breiðablik Íslandsmeistari í Pepsi MAX deild kvenna

Stóru tíðindin eru auðvitað þau að Breiðablik varð Íslandsmeistari í Pepsi MAX deild kvenna.  Sá titill var afar verðskuldaður en það er ljóst að Breiðablik var besta lið deildarinnar þetta árið.  Sigur liðsins gegn Val á Hlíðarenda var það sem tryggði okkur þennan titil sem við misstum til erkifjendanna á síðasta ári.  Breiðablik spilar gríðarlega vel um þessar mundir og það er góð blanda reynslumikilla leikmanna auk afar efnilegra ungra leikmanna sem hafa rækilega stimplað sig inn í kvennaknattspyrnuna hérlendis.  Sumar þeirra gegna orðið lykilhlutverki í landsliði Íslands sem er líklegt að nái að tryggja sér sæti í Evrópukeppni landsliða sem fer fram á næsta ári ef Guð lofar. Blikaliðið átti möguleika á að vinna tvöfalt í ár en við áttum eftir undanúrslitaleik við Selfoss í Mjólkurbikarkeppninni. Sigur í þeim leik hefði skilað okkur í úrslitaleik gegn KR eða Þór/KA, en bikarkeppnin var auðvitað blásin af vegna Covid 19 sömuleiðis.

image

Þetta knattspyrnuár fer auðvitað í sögubækurnar - en það kemur ekki til af góðu.  Við vonum öll að næsta leiktímabil verði meira hefðbundnara en þetta sem nú er að líða.

Blikar.is – opinber stuðningsmannasíða meistaraflokka Breiðabliks í knattspyrnu - þakkar öllum þeim sem lesið hafa skrif okkar í ár og fylgst með á heimasíðunni sem er í öflugri þróun. Fjöldi þeirra sem heimsækja okkur fer vaxandi og við finnum fyrir því að oft er vitnað í síðuna á öðrum miðlum.

Áfram Breiðablik, alltaf, alls staðar!

M A R K A S Y R P A  2 0 2 0:

Til baka