BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Í dimmum dal

17.09.2017
Ekki er laust við að hluti af Davíðssálmi ,,þótt ég gangi í gegnum dimman dal" hafi komið upp í huga pistlahöfundar þegar hann gekk hryggur í bragði af vellinum í Grindavík eftir 4:3 tap gegn heimamönnum. Þriðja tapið í röð hjá liðinu hans og annan leikinn í röð erum við að fá bunka af mörkum á okkur. Það er einnig þyngra en tárum tekur að þrjú mörk dugi ekki einu sinni til að ná í eitt stig!
 
Veðurguðirnir létu heldu betur finna fyrir sér suður með sjó í leiknum. Sunnan belgingur, 11 metrar sekúndu en lofthiti þokklegur. Mæting var því ekkert sérstök. Samt sem áður var slæðingur af Blikum sem hafði gert sér ferð eftir Reykjanesbrautinni.  Heimapiltar hófu leik með strekkinginn í bakið og hófu leikinn með stórsókn. En sem betur uppskáru þeir ekki neitt til að byrja með.
 
Eins og Hollendingar fengu heldur betur að kenna á í úrslitaleiknum á HM gegn V-Þjóðverjum árið 1974 þá er ekkert endilega alltaf gott að skora snemma í leik.  Það sama gerðist hjá Blikum að þessu sinni. Okkar drengir geystust fram eftir þunga sókn þeirra gulklæddu og Aron Bjarnason gerði gott mark á þriðju mínútu eftir góðan undirbúning Martin Lund Pedersen.  En þar með var ballið að mestu leyti búið fyrir okkar drengi í hálfleiknum.  Ekki er eingöngu hægt að kenna rokinu í Grindavík um þau þrjú mörk sem við fengum á okkur í hálfleiknum.  Grindvíkingar komust allt of auðveldlega fram hjá flötum miðjumönnum okkar bæði í fyrsta og þriðja markinu. Síðan voru bakverðir okkar oft úr stöðu þannig að eftirleikurinn var auðveldur hjá Grindvíkingum. Til að bæta gráu ofan á svart þá sveik Suðurnesjagrasið Gulla í öðru markin þannig að hann spólaði á blautum vellinum og skotið frá Andra Rúnari söng í netinu.
 
Blikar komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og pressuðu stíft á mark heimapilta fyrstu mínúturnar. Það skilaði marki á 52. mínútu. Martin Lund var felldur í teignum og vítaspyrna dæmd. Tokic þrumaði knettinum í netið og héldu nú Blikar í stúkunni að stutt væri í jöfnunarmark. En því miður dróg úr sóknarþunga okkar pilta og Grindvíkingar komust meira inn í leikinn. Þrátt fyrir nokkrar skiptingar varamanna Blika inn í leikinn þá virtist alltaf vanta eitthvað sjálfstraust til að klára leikinn. Svo í takt við gengi Blikaliðsins að undanförnu þá varð Elfar Freyr fyrir þá óláni að skalla knöttinn í eigið mark. Engu máli skipti þótt Gísli setti síðan gott mark rétt fyrir leikslok því það var of lítið eftir til að breyta úrslitunum.
 
Á þessum tímapunkti þurfa bæði leikmenn, þjálfari, stjórn og áhangendur að berja sig saman fyrir þessa tvo leiki sem eftir eru. Þrátt fyrir að önnur úrslit hafi okkur verið hagstæð þá erum við samt sem áður enn í fallhættu. Nú er ekki tíminn til að að leita að sökudólgum eða kenna einhverjum um stöðu liðsins. Við þurfum að klára þetta tímabil með sóma og þá er hægt að setjast niður og grafast fyrir um þennan táradal sem liðið hefur verið í meirihluta þessa tímabils.
 
Heimavöllurinn hefur gefið okkur lítið í sumar og nú er það í raun krafa að liðið komi vel undirbúið í leikinn gegn ÍBV á sunnudaginn. Með sigri þar tryggjum við sæti okkar í deildinni og það er í raun hægt að gera þá kröfu að leikmennirnir sýni hvað í þeim býr. Koma svo Blikar!
 
Umfjallanir netmiðla.
 
-AP

Til baka