BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hvernig tækla Blikar stöðuna í skugga COVID-19

17.03.2020 image

Blikamiðlarnir öflugu, BlikarTV og blikar.is, sameinuðu krafta sína í dag til að taka púlsinn á félaginu okkar vegna stöðunnar sem komin er upp vegna COVID-19 veirunnar.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdastjóri Breiðabliks, Vilhjálmur Kári Haraldsson, verkefnastjóri hjá knattspyrnudeild, og Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari meistaraflokks karla ræddu við okkur og sögðu ýmislegt áhugavert. Þeir eru allir sammála að mjög ólíklegt sé að Íslandsmótið í knattspyrnu hefjist á réttum tíma. Ástandið vegna COVID-19 veirunnar sé svo ótryggt að staðan geti breyst frá einum degi til annars.

Eysteinn sagði okkur frá þeim ráðstöfunum sem þjálfara Breiðabliks og aðrir starfsmenn félagsins hafa hrint í framkvæmd til að iðkendur okkar hreyfi sig þrátt fyrir að allar æfingar yngri flokka hafi verið felldar niður í að minnsta kosti eina viku.

Hann tjáði okkur einnig að mörg lið á Íslandi hafi snúið sér til Breiðabliks til að fá ráð varðandi skipulagningu slíkrar hreyfingar.

Í lokin fór Heisi í heimsókn til Vilhjálms Haraldssonar, þjálfara yngri flokka Breiðabliks og meistaraflokks kvenna hjá Augnablik, og fékk hjá honum upplýsingar um þær æfingar sem knattspyrnudeildin hefur verið að setja á netið og til iðkenda í yngri flokkum Breiðabliks.

En við hvetjum alla til að hlusta á þetta fríska innlegg þeirra Heisa sjónvarpsstjóra og hans hundtrygga aðstoðarmanns Andrésar Péturssonar! Njótið!

-AP

Til baka