BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Hálfleikur…..

19.07.2013

„..og áfram skröltir hann þó“ söng Ómar þegar hann hafði hár.Blikarnir skröltu hinsvegar ekki mikið í kvöld gegn Sturm Graz og eru sannarlega enn með í Evrópukeppninni. Bíllinn á veginum og öll hjólin undir. Hvað hét nú aftur lagið hans Ómars..?

Ólafur Helgi og hans menn þreytast seint á að hreyfa til í liðinu og enn voru gerðar breytingar frá síðasta leik. Ellert kom inn í hópinn í stað Jökuls og Reneé kom til baka úr leikbanni í PEPSI deild. Ósvald J. Traustason var ennfremur fjarri góðu gamni  þar sem hann hefur verið lánaður til 1. deildarliðs Leiknis R. út leiktíðina.

Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;

Gunnleifur
Þórður Steinar  – Sverrir Ingi – Renée Troost - Kristinn Jónsson
Tómas Óli  – Finnur Orri (F) – Guðjón Pétur - Andri Yeoman
Elfar Árni - Nichlas

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Árni Vilhjálmsson
Atli Fannar Jónsson
Ellert Hreinsson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Viggó Kristjánsson
Olgeir Sigurgeirsson

Sjúkralisti;  Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson

Leikbann; Ekki nokkur maður

Leikskýrsla: Er því miður ekki kominn á rafrænu formi og ekki væntanleg á KSI.is en hér er samantekt um leikinn frá UEFA, með alls kyns fróðleik og meiri tölfræði en maður hefur lyst á. Flott hjá UEFA. 

Myndaveisla í boði Fótbolta.net

Þrátt fyrir úrhellisrigningu í nær allan dag  voru aðstæður til knattspyrnuiðkunar alveg þokkalegar og vallaraðstæður eins góðar og hægt er að búast við. Það þurfti reyndar að renna eina umferð á vallarmerkingar skömmu fyrir leik því rigningin skolaði af nánast jafnharðan. Loft skýjað og rakamettað, svo ekki sé meira sagt og fánar hengdu haus.  Hiti rétt slefaði í 11°C.

Það var ljóst frá upphafi að Blikar ætluðu ekki að láta andstæðingana komast upp með neinn moðreyk og eftir smá skjálfta og nokkuð fjörlega brjun náðu okkar menn góðum tökum á leik sínum. Múruðu upp í flestar glufur að heita mátti og svo rækilega að gestirnir fengu aðeins eitt umtalsvert marktækifæri í fyrri hálfleik, en skölluðu þá glæsilega framhjá og svo annað hálffæri eftir mistök hjá okkar mönnum. Annars var þetta stál í stál og leikurinn ,,lokaður”. Okkar men óðu svo sem ekki  í færunum heldur en það var í fínu lagi því uppleggið var að fá alls ekki á sig mark, því eins og flestir vita þá gilda útivallarmörk tvöfalt í þessari keppni. Staðan í hálfleik því markalaus.

Í hálfleik gröðkuðu menn í sig sætabrauð, pylsur og hvaðeina og dáðust að treflunum sem Blikaklúbburinn var að selja og voru sérstaklega framleiddir í tilefni dagsins. Þeir seldust náttúrulega upp. Góður rómur var gerður að varnarleik og skipulagi okkar manna og ennfremur voru menn ánægðir með vinnusemina í liðinu. Markið lá kannski ekki í loftinu en það örlaði þó á smá bjartsýni um að það kæmi. Kannski. 1-0 væri fín úrslit.

Seinni  hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri. Andstæðingarnir meira með boltann en við önnum kafnir langtímum saman í múrverkinu. Inn á milli náðum við svo að halda boltanum ágætlega og áttum nokkrar álitlegar sóknir en því miður náðum við ekki að gera okkur mat úr þeim. En okkar menn voru alveg sérleg duglegir að loka öllum svæðum og einkum framan við vítateiginn. Þar var eiginlega “lok lok og læs og allt í stáli, lokað fyrir Páli”, einsog Ómar söng íka þegar hann hafði hár. Leiknum lauk svo með markalausu jafntefli og sennileg verður að telja það sanngjörn úrslit.
Seinni hálfleikur þessarar rimmu fer fram ytra, eftir viku, og þá ræðst hvort Blikar komast í 3ju umferð Evrópudeildarinnar. Kiddi Jóns segir að það sé 50/50 séns og það eiga þeir sannarlega skilið eftir dugnaðinn í kvöld. Möguleikarnir eru fyrir hendi því við erum enn með þessari keppni.

En áður en við æðum til Austurríkis liggur leiðin hinsvegar norður til Akureyrar en þar eigum við stefnumót við Þórsara í PEPSi deildinni á sunndaginn næsta. Það þarf ekki að útlista mikilvægi þess leiks hér fyrir stuðningsmönnum og leikmönnum, nú þegar þeir röndóttu úr Frostaskjólinu eru búnir að tapa 3 stigum í toppbáráttunni og gefa færi á sér (og þó fyrr hefði verið).
Þennan leik þurfum við að vinna og þess vegna þurfa Blikar um allt land að fjölmenn norður og styðja okkar menn.  Það er kappnóg að leggja af stað um hádegið, því leikurinn er ekki fyrr en kl. 18:00. Blikaklúbburinn verður áreiðanlega með eitthvað tilboð í gangi og það verður auglýst hér á þessari síðu og víðar jafnskjótt og það liggur fyrir.


Áfram Breiðablik !

OWK

p.s.
á föstudaginn verður dregið í 3ju umferð Evróðudeildarinnar og þá bætast eftirtalin lið í pottinn skv. UEFA.com; 
VfB Stuttgart (GER), Sevilla FC (ESP), Udinese (ITA), Club Brugge KV (BEL), AS Saint-Étienne (FRA), FC Zürich (SUI), Bursaspor (TUR), Swansea City AFC (ENG), SK Rapid Wien (AUT), FC Metalurh Donetsk (UKR), GD Estoril-Praia (POR), Vitesse (NED), FC Kuban Krasnodar (RUS), Asteras Tripolis FC (GRE), Randers FC (DEN), Motherwell FC (SCO), FK Jablonec (CZE), Hapoel Ramat Gan FC (ISR).

Til baka