BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gunnleifur sá um Valsmenn

23.02.2013

Blikar unnu góðan 2:0 sigur á Valsmönnum í Lengjubikar karla í dag. Það voru þeir Ellert Hreinsson og Jökull Elísabetarson sem settu mörk okkar pilta sitt í hvorum hálfleiknum. Maður leiksins var hins vegar Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Blikaliðsins sem kom í veg fyrir að gestirnir skoruðu þrátt fyrir nokkur góð færi.

Leikurinn byrjaði ágætlega fyrir okkar pilta og það kom því ekki á óvart að við náðum forystu með góðu marki Ellerts Hreinssonar. Hann fékk þá góða sendingu inn fyrir vörn Valsmanna og setti boltann í rólegheitum fram hjá markverði Valsmanna. Þetta var fyrsta mark Ellerts eftir að hann kom til okkar aftur úr Garðabænum. Eftir þetta sóttu gestirnir nokkuð í sig veðrið án þess þó að skapa sér nein verulega færi. Smá saman unnu okkar piltar sig inn í leikinn og náðu tökum á miðjunni. Undir lok hálfleiksins kom þó Gunnleifur í veg fyrir mark þegar hann varði mjög vel frá þeim rauðklæddu.

Nokkuð lá á Blikaliðinu í seinni hálfleik. Valsmenn fengu nokkur færi en Gunnleifur var betri en engin og varði 2-3 sinnum frábærlega. Undir lokin voru gestirnir orðnir nokkuð þreyttir á þessari markvörslu og hentu fleiri mönnum fram. En þar með opnaðist vörnin og Jökull Elísabetarson gulltryggði sigur þeirra grænklæddu með ágætu skoti undir lok leiksins.

Eins og í undanförnum leikjum vantaði nokkra lykilmenn eins og Gísla Pál og Guðjón Lýð en breiddin er samt orðin það mikil í liðinu að það kom ekki að mikill sök. Yfirburðarmaður í leiknum var Gunnleifur Gunnleifsson markvörður og sýndi það og sannaði að hann er enn einn besti markvörður landsins.

Til baka