BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Góður sigur á Víkingum

23.02.2019

Blikar unnu góðan 2:0 vinnusigur á Víkingum í öðrum leik Lengjubikarsins. Það voru þeir Thomas Mikkelsen og Aron Bjarnason sem gerðu mörkin í sitt hvorum hálfleiknum. Þar með erum við Blikar á toppnum í okkar riðli með fullt hús stiga eftir tvo leiki. Sjá mörkin hér.

Við byrjuðum leikinn ágætlega og höfðum strax frá fyrstu mínútu nokkuð góð tök á gestunum. Þeir lágu nokkuð aftarlega og reyndu að sækja með skyndisóknum. En það skilaði ekki miklu fyrir þá rauð-svört-röndóttu enda vörnin hjá okkur feiknasterk.

Byrjunarliðið í leiknum:

Skýrslur: Úrslit.net og KSI.is

En Blikaliðinu var nokkuð mislagðar fætur fyrir framan Víkingsmarkið enda var Þórður Ingason markvörður Fossvogsliðinu í banastuði í markinu. En hann kom þó engum vörnum við þegar Kwami Quee sendi eitraða sendingu fyrir markið á 20. mínútu. Þar var mættur ofur-Daninn Thomas Mikkelsen sem nánast sópaði boltanu í markið með maganum.

Ofur-Daninn er með ótrúlega tölfræði frá því að hann kom til okkar Blika um mitt sumar í fyrra. Hann hefur spilað 16 leiki með okkur og skorað í þeim 13 mörk. Geri aðrir betur! Hann þurfi reyndar að fara af leikvelli vegna smávægilegra meiðsla skömmu fyrir leikhlé en verður örugglega orðinn klár fyrir næsta leik.

Síðari hálfleikur þróaðist svipað og sá fyrri. Við stjórnuðum leiknum en náðum ekki að koma tuðrunni í netið. Smá kæruleysi var yfir spilamennsku okkar drengja og var okkur næstum þvi refsað skömmu fyrir leikslok. Víkingar komu knettinum í netið en sem betur var dæmd rangstaða.

Það voru síðan varamennirnir Aron Bjarnason og Óskar Jónsson sem negldu síðasta naglann í kistu gestanna á 90. mínútu. Óskar átti þá snilldarsendingu inn í teiginn þar sem Aron lék á markvörðinn og kom knettinum í markið. Staðan orðin 2:0 og stigin þrjú komin í hús.

Sigur Blikaliðsins var sanngjarn en það er aldrei nóg að vera eingöngu með eins marks forystu. Það vantaði meiri grimmd fram á við og vilja til að loka leiknum. Það er ekki nóg að vera betri aðilinn í leiknum, stjórna spilinu og eiga færi. Menn verða að klára þau!

Andri Rafn Yeoman átti snilldarleik á miðjunni en hann er koma til eftir langvarandi meiðsli. Því spilaði hann eingöngu fyrri hálfleikinn. Vörnin stóð einnig fyrir sínu að vanda. Davíð Ingvarsson spilaði í í vinstri bakverðinum annan leikinn í röð og stóð sig vel.

 

Næsti leikur í Lengjubikarnum hjá okkur er gegn Keflvíkingum í Reykjaneshöllinni á sunnudaginn kl.16.00. Tilvalið að skella sér með fjölskylduna í sunnudagsbíltúr, sjá Hljómahöllina og fylgjast með Blikunum í baráttunni!

-AP

Minnum á Herrakvöldið um næstu helgi.

Til baka