BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Glimrandi Gamlársbolti!

01.01.2019

Frískir fótboltamenn á öllum aldri flyktust í Fífuna og Smárann á gamlársmorgunn og spiluðu knattspyrnu eins og engin væri morgundagurinn.

Meistaraflokkur karla og skyldir aðilar spiluðu léttan innanhúsbolta í Smáranum á meðan eldri flokkur og yngri viðhengi hlupu úr sér lungun í Fífunni. Þetta er líklegast í 27 skiptið sem spilaður er Blikabolti á þessum síðasta degi ársins. Meistaraflokkur karla kom hins vegar í fyrsta skipti saman í fyrra að frumkvæði Ágústar Gylfasonar. Það mæltist vel fyrir og var því ákveðið að halda þessari venju áfram.

Þrátt fyrir að léttleikinn væri í fyrirrúmi þá var stutt í keppnisskapið. Svo fór að lokum að lið atvinnumanna erlendis sigraði í Smáranum og voru þessir ungu knattspyrnumenn vel að sigrinum komnir.

 

Í Fífunni léku sér knattspyrnudrengir á alrinum 21 til 73 ára og mátti oft ekki á milli sjá hvorir voru frískari. Það var Errea umboðið sem gaf sigurliðinu í Fífunni nýju Blikabúningana í verðlaun. Það voru stoltir Blikar sem klæddu sig í nýju treyjuna og skein gleðin úr hverju andliti. Í sigurliðinu mátti meðal annars þekkja gamla landsliðsmanninn Ólaf Björnsson sem reif skóna úr hillunni eftir 10 ára fjarveru.  Enda viðeigandi að halda upp á 60 ára afmælið sitt og þau 15 kíló sem hafa horfið undanfarna mánuði. 

En MVP var samt kosinn næst elsti leikmaðurinn á vellinum Marteinn Sigurgeirsson. Hann er nú 71 árs og skoraði meðal annars sigurmarkið gegn sigurliðinu. Geri aðrir betur! Meira> 

Takk fyrir skemmtilega stund Blikar!

Myndir í boði HVH og BlikarTV hér>

Til baka