BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Gjafmildir Blikar í Svíaríki

14.02.2020

Það verður ekki af okkur Blikum tekið að við erum gjafmildir með afbrigðum!  Í æfingaleik gegn sænska úrvalsdeildarliðinu Norrköping gáfum við fjögur mörk sem urðu þess valdandi að við töpuðum leiknum 2:4. Samt sem áður var margt gott í leik okkar stráka. Við þorðum að halda boltanum og spila honum. Oft sáust fín tilþrif sem meðal annars gáfu okkur mörkin tvö. En gjafirnir þrjár á fyrstu tuttugu mínútum leiksins komu í veg fyrir hagstæðari úrslit.

Fyrstu 20-30 mínútur leiksins voru okkur erfiðar. Við fengum á okkur þrjú ódýr mörk og fór um margan Blikann sem voru þó nokkrir mættir í Smárann til að fylgjast með okkar drengjum í útlöndum. Stefndi í stórsigur Svíanna en sem betur tók Gísli sig til undir lok hálfleiksins, átti frábæran sprett og sendi svo knöttinn á Thomas sem setti hann snyrtilega í netið.

Viktor Karl fíflaði svo nokkra varnarmenn heimamanna og setti knöttinn í vinkilinn snemma í síðari hálfleik. Við áttum í fullu tré við Svíana í hálfleiknum og með smá heppni hefðum við jafnað leikinn. En því miður sofnaði vörnin og Svíarnir juku forystuna. Leiknum lauk því með 4:2 sigri gestanna.

Þessi leikur fer í reynslubankann hjá Blikunum. Það var margt gott í spili Blikanna en þessari gjafmildi verður að linna.  Við vinnum ekki leiki ef við þurfum að skora 3-4 mörk í hverjum einasta leik til að komast yfir. Þjálfararnir munu sjálfsagt finna lausn á næstu 6 vikum en það er tíminn sem við höfum fyrir fyrsta leik á Íslandsmóti.

Næsti leikur liðsins er hins vegar gegn Aftureldingu á gervigrasinu í Mosfellsbæ á föstudaginn kl.19.00.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

-AP

Til baka