BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Flottur sigur á FH

06.12.2014

Meistaraflokkur karla átti góðan leik í Fífunni í morgun gegn FH og lagði silfurliðið frá Íslandsmótinu síðasta sumar 4:2.  Það voru þeir Andri Rafn Yeoman og  Ellert Hreinsson sem komu okkar liði yfir 2:0 og þannig var staðan í leikhléi. Strax í byrjun síðari háfleiks bætti Gísli Eyjólfsson þriðja markinu við eftir góðan undirbúnings hins unga og efnilega framherja Sólons Breka Leifssonar. Fljótlega eftir það skoraði Gunnlaugur Birgisson snyrtilegt mark eftir fyrirgjöf Olgeirs Sigurgeirssonar. FH minnkaði muninn með tveimur mörkum undir lok leiksins en sigur Blikaliðsins var í raun aldrei í hættu.

Þrátt fyrir að Hafnfirðingarnir hafi verið ívið meira með boltann þá var sigur þeirra grænklæddu fullkomlega verðskuldaður. Allir leikmennirnir lögðu sig fram og góður varnarleikur, sérstaklega í fyrri hálfleik, kom í veg fyrir að gestirnir ógnuðu markinu að neinu ráði fyrr en undir lokin. Þrátt fyrir þennan góða sigur þá megum við ekki ofmetnast. Þetta var bara æfingaleikur og sterka pósta vantaði í FH-liðið. Svona sigrar gefa okkur nein stig þegar út í alvöruna kemur!

Samt sem áður verður að hrósa hinum fjölmörgu leikmönnum Blikaliðsins sem spiluðu þennan leik. Eins og í undanförnum leikjum fengu flestir leikmenn sem nú æfa með meistaraflokknum að spreyta sig. Addi og Kristó skiptu nánast nýju liði inn á í leikhléi og þeir strákar voru ekki síður að standa sig en hinir sem voru í byrjunarliðiðinu. Erfitt er að taka einn út sérstaklega. En þó verður að hrósa Elfari Frey og Damir fyrir mjög sterkan leik í hjarta varnarinnar í  fyrri hálfleik. Í síðari hálfleik stóðu Kári Ársæls og Viktor Margeirsson vaktina með sóma. Það er gaman að sjá hve Viktori hefur farið fram síðan í fyrra. Oliver átti fínan leik á miðjunni og Andri og Höskuldur eru óþreytandi bæði í vörn og sókn. Í síðari hálfleik sýndu líka Ernir Bjarnason og Gísli fína takta. Einnig verður að minnast á góðan leik hins 16 ára Sólons Breka í sókninni en varnarmenn FH áttu í mestu vandræðum með hann í síðari hálfeik.

Næsti leikur Blikaliðsins er gegn Fjölni í Fífunni á laugardaginn kl.10.30. Eins og sést að þessari lýsingu er það góð skemmtun að sjá Blikaliðið þessa dagana!​

-AP

Til baka