BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Farsakennt jafntefli gegn Valsmönnum

20.08.2019

Formáli

Blikar fengu Valsmenn í heimsókn í 17. umferð  Pepsi Max deildarinnar í kvöld. Bæði lið töpuðu síðasta leik. Blikar enn að jafna sig eftir vonbrigðin í Víkinni, og  Valsmenn sömuleiðis fúlir eftir tap gegn FH í skrautlegum leik.
Veður var eins og svo oft í sumar hið besta, hæg breytileg átt og síðan suðaustan kaldi en heiðskírt og hiti um 15 gráður sem telst þokkalega hlýtt á ágústkvöldi. Allgóð mæting á völlinn í kvöld eða rétt liðlega 1300 manns. Allt var semsagt í allra besta lagi að flestra mati. Og það þrátt fyrir að við værum með tvo menn í leikbanni, þá Elfar Frey og Thomas.

Blikar léku með sorgarbönd í kvöld og minntust með því ungs félaga, Hákonar Gunnlaugssonar, sem féll frá langt um aldur fram á dögunum. Áhorfendur, leikmenn og dómarar heiðruðu minningu hans jafnframt með einnar mínútu lófaklappi áður en flautað var til leiks.

Eins og áður er getið voru breytingar á byrjunarliði sjálfgefnar vegna leikbanna og kom Brynjólfur inn fyrir Thomas og Viktor Örn kom inn í vörnina í stað Elfars Freys. Andri Rafn kom svo inn í stað Viktors Karls, sem nota bene var ekki í leikbanni.

Ksí.is leikskýrsla       Úrslit.net     

Leikhús fáránlekans
Blikar fengu fyrsta færi leiksins þegar Höskuldur var allt í einu sloppinn í gegn en Valsmenn náðu að bægja hættunni frá. Höskuldur þjarmaði að Hannesi en virtist ekki átta sig á því að hann hélt ekki boltanum. Hálffæri. Næstu mínútur var þetta sitt á hvað en lítið um færi en þegar korter var liðið kom fyrsta áfallið. Blikar voru í sókn en fyrirgjöf Alfons sigldi yfir vörn gestanna og enginn Bliki mættur á fjær frekar en fyrri daginn. Valsmenn náðu boltanum og léku út úr vörninni og svo kom sending inn að miðjuhringnum en þar urðu Damir á stór mistök þegar hann seldi sig illa. Og það var ekki að sökum að spyrja, Valsmenn geystust inn í vítateig og kláruðu með marki. Blikar gerðu illa í bólið þarna, en að sama skapi vel klárað hjá Valsmönnum. En þrautunum lauk ekki þarna. Aðeins fimm mínútum síðar versnaði það enn þegar Guðjóni Pétri urðu á þau sjaldséðu og óskiljanlegu mistök að senda boltann rakleitt á Valsmann á eigin vallarhelmingi. Sá var ekki að tvínóna við hlutina keyrði á vörnina og fékk svo samherja í hlaup inn í teig og boltinn lá í netinu. Tuttugu mínútur liðnar og Blikar lenti 0-2 undir eftir tvenn herfileg mistök. Útlitið vægast sagt kolsvart. Og til að bæta svörtu oná svart þá varð Alexander Helgi að yfirgefa völlinn eftir hálftíma leik. Ekki vitum við hvað kom fyrir hann en vonum að hann nái sér fljótt.

Glætan
Viktor Karl kom inná og kom á vænginn, en Gísli færði sig af kantinum í stöðu framliggjandi miðjumanns og Andri Rafn tók stöðu Alexanders. Við þetta var eins og kæmi annar taktur í Blika og þeir fóru loksins að tengja saman sendingar í alvöru sóknir og færðu sig framar á völlinn. Blikar minnkuðu svo muninnn á 38. mínútu. Alfons braust upp kantinn og fór  langleiðina upp að endamörkum. Sendi svo boltann boltann á Gísla sem skaut í fyrsta (fyrsta skot Blika í leiknum) boltinn fór í varnarmann Vals og þaðan í annan Valsara og datt svo fyrir framan Brynjólf sem sneri baki í markið. Hann var fljótur að átta sig, snéri sér á fimmeyringi og hamraði boltann upp í þaknetið. Vel gert og staðan1-2. Þarna var komin líflína fyrir okkar menn og þeir nýttu hana vel. Aðeins þrem mínútum síðar fengu Blikar hornspyrnu eftir að Höskuldur átti skot sem fór í varnarmann gestann og afturfyrir. Guðjón Pétur tók spyrnuna og sneri boltann inn að markinu þar sem Brynjólfur þjarmaði að Hannes þannig að hann náði ekki að grípa, heldur kýldi boltann út í teiginn. Herrar mínir og frúr, þar var Andri Rafn einn og óvaldaður og hann setti á fulla ferð og negldi boltann með ofanverðri útristinni, einsog Valdi eldri hefði sagt, í markvinkilinn. Algerlega óverjandi fyrir landsliðsmarkvörðinn. Blikar búnir að jafna leikinn og ekki kominn hálfleikur. Hver hefði trúað því eftir þessa hörmungarbyrjun? Ja hérna.
Stundum er sagt um leiki að þeir ,, hafi verið leikir tveggja hálfleikja“ og stundum höfum við Blikar verið í svoleiðis kaflaskiptum leikjum. En það er sjaldgæfara að hálfleikir séu ,,tveggja hálfleika“, eins og þarna var raunin.

"Markahrókurinn" Andri Rafn Yeoman skorar gjarnan gegn Val. Markið hans í gærkvöld var það þriðja gegn Val á ferlinum. Fyrsta markið hans gegn Val skilaði okkur stigi í 1:1 jafntefli árið 2012. Mark númer tvö skilaði okkur 0:1 sigri á Valsvelli í maí á þessu ári. Mynd: HVH

Hlé
Það var skrýtin stemmning í Blikakaffinu eftir vægast sagt reyfarakenndan hálfleik tveggja hálfleikja. Menn voru náttúrulega ánægðir að við skyldum hafa náð að jafna leikinn, en um leið arfafúlir yfir því að lenda 0-2 undir. Og svo sáu menn endursýningu á mörkunum í hálfleik og það léttist ekki beint lundin við að horfa á gjafirnar sem við gáfum Valsmönnum. Blikaklúbbskaffið toppaði sjálft sig, aftur. Pylsur og kjötbollur í bland við ferska ávexti er hnossgæti.

Enn var barist
Síðari hálfleikur var öllu tíðindaminni en sá fyrri og fyrsta korterið gerðist harla fátt. Blikar með undirtökin og pressuðu gestina en náðu svo sem ekki að skapa sér alvöru færi. En á 60. mínútu fengu okkar menn horn. Hornspyrnan virtist hálf misheppnuð í fyrstu en heppnaðist svo bara svona ljómandi vel þegar upp var staðið og boltinn lá í netinu hjá Valsmönnum. Guðjón spyrnti og boltinn þvældist undir einn Valsmann og framhjá öðrum, Viktor Örn náði að krafsa honum í átt að marki og loks var það Brynjólfur sem setti tána í tuðruna og kom henni yfir línuna. Fallegt. Blikar komnir yfir í leiknum, 3-2.
Næstu tíu mínútur var bara eitt lið á vellinum og Blikar herjuðu á gestina án afláts en inn vildi boltinn ekki. Blikar fengu fríspörk, hornspyrnur og færi en allt kom fyrir ekki. Viktor Karl fékk sennilega besta færið en nú varði Hannes. Og þegar við nýtum ekki færin okkar þá er það segin saga að hættan er á næsta leyti. Sú varð og raunin því Valsmenn jöfnuði alveg upp úr þurru og engu. Þeir verða ekki sakaðir um að nýta ekki færin sín. Valsmenn voru að dóla með boltann úti á kanti og sendu hann að lokum fyrir. Þar voru 3 Valsmenn ódekkaðir og einn þeirra skallaði bara boltann í netið. Blikar alveg sofandi og 3 Valsmenn fríir inni í teig. Hvernig er það hægt?

Mörkin og klippur úr leiknum í boði BlikarTV

Sögulok og síbrotamenn
Það sem eftir lifði leiks gerðist næsta fátt. Blikar með undirtökin en náðu ekki að skapa afgerandi færi. Hjá gestunum var ekkert að frétta, en samt var alltaf hætta á að þeir settu eitt mark eða svo. Þeir þurftu ekki mikið til.
Mikið var um pústra og leiðindi síðustu mínúturnar og enn og aftur komust nr.7 og 21. hjá Val upp með  fólskubrot og leiðindi, rétt eins og í fyrri leiknum. Nr. 21 fékk að vísu gult spjald en að síbrotamaður nr. 7 skuli hafa sloppið er ráðgáta. Sennilega er það samt vegna þess að hann er alltaf grófur og rífandi kjaft við dómarann, gæti orðið vesen ef það væri alltaf dæmt á hann. Þvílíkt rugl.
Sjálfir kræktu Blikar í tvö gul spjöld áður en flautað var til leiksloka.

Jafntefli niðurstaðan og Blikar sitja enn í 2. sæti deildarinnar með 30 stig og má það furðu sæta eftir rýra uppskeru í undanförnum leikjum. En það er orðið mjög stutt í næsta lið, aðeins tvö stig skilja okkur frá FH og þrjú stig eru í Stjörnuna. Nú þarf að æfa einbeitinguna og búa sig undir það að mæta til leiks með takkana á lofti. Það er kominn tími á það.

Brynjólfur Darri Willumsson var maður leiksins á Kópavogsvelli í gærkvöld. Mynd: HVH

Næsti leikur Blika er einmitt gegn FH í Kaplakrika n.k. sunnudag kl. 18:15.
Það er að duga eða drepast fyrir okkar menn. Nú snýst þetta bara um að tryggja sér Evrrópusæti.

Umfjallanir netmiðla.

Áfram Breiðablik !
OWK

Til baka