BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

EXTRA sætt í Grafarvogi

20.07.2016

Blikar gerðu góða ferð í Grafarvoginn í 11.umferð PEPSI deildarinnar í gærkveldi. Þar sem hross Þorgeirs bónda í Gufunesi bitu gras hér í eina tíð, fyrir ekki svo löngu, er nú heimavöllur Fjölnismanna sem nýlega var vatni ausinn og heitir nú EXTRA völlurinn og hross ekki lengur velkomin. Samt sér á vellinum eins og það hefði verið rekið stóð yfir þveran völlinn og vísir kominn að reiðgötu. Allt þetta hefði Geira í Gufunesi þótt undarlegt. Það verður líka að að segjast að áhorfendaaðstaðan á EXTRA vellinum er EXTRA léleg og hefur verið svo um langa hríð, þaklaust og skjóllaust , enda hafa áhorfendur verið eins og niðurrigndur hundaskítur þegar suðaustanátt með tilheyrandi úrkomu hefur látið á sér kræla. Því miður er Fjölnir nú verulegur eftirbátur flestra  annara úrvalsdeildarliða að þessu leyti. Ef það hefði verið rigning og rok hefði maður sennilega setið heima. En hamborgarararnir eru virkilega góðir hjá þeim, svo sumir fengu sér tvo. Og starfsfólkið alveg til fyrirmyndar.
Slatti af Blikum á vellinum í kvöld en hefðu að ósekju mátt vera fleiri. Flestir hinna eldri með kvíðahnút í maganum og samanherptar varir eftir dapurt gengi að undanförnu . Þeir yngri með Pizzur og Borgara. Veit einhver hvað varð af Kópacabana? Það finnst hvorki tangur né tetur af þeim annað en flenniborðinn fagri á Blikavelli. 40 álna langur og fagurgrænn. Allur með hástöfum. KÓPACABANA !
Hiiilmaaar !!!

Sannkallað blíðuveður í kvöld. Skýjað, logn og hiti nálægt meðallagi júlímánaðar, eða um 12°C. Þurrt.

Byrjunarlið Blika:
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Davíð Kristján Ólafsson - Andri Rafn Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Gísli Eyjólfsson - Arnþór Ari Atlason - Daniel Bamberg - Árni Vilhjálmsson
Varamenn:
Alfons Sampsted - Aron Snær Friðriksson (M) - Ellert Hreinsson - Atli Sigurjónsson - Viktor Örn Margeirsson - Ágúst E. Hlynsson - Höskuldur Gunnlaugsson

Sjúkralisti: Guðmundur Atli Steinþórsson
Leikbann: Enginn

Leikurinn fór fjörlega af stað og ágætur hraði í leiknum og innan örfárra mínútna var einn leikmaður búinn að kveinka sér og annar búinn að bjarga á línu. Liðin herjuðu á hvort annað upp hægri vængina og þar skapaðist mest öll hættan fyrsta korterið og nokkur hálffæri litu dagsins ljós áður en Blikar settu fyrsta markið eftir tæplega 20. mínútna leik. Arnór fékk góða sendingu nálægt vítateig gestanna og náði að klobba varnarmann og smeygja sér framhjá honum, kom sér inn í vítateig og gaf á Árna. Hann var aðþrengdur en náði að renna boltanum út á Daníel Bamberg sem þrumaði honum neðstí fjærhornið. Staðan 0-1 Blikum í vil. Gott mark. Og það var skammt stórra högg á milli því aðeins fimm mínútum síðar voru Blikar aftur á ferðinni. Okkar menn unnu botlann á eigin vallarhelmingi og geystust með hann fram völlinn. Arnþór náði að koma boltanum út á kant á Árna sem beið augnablik og hélt boltanum en gaf svo á Gísla sem kom á harðaspretti. Hann reyndi skot en það var blokkerað af tveim varnarmönnum. En Gísli var ekki hættur og elti boltann inn í teig og náði að lyfta honum yfir úthlaupandi markvörð heimamanna og í netið. 0-2 og þetta mark var enn fallegra en það fyrra. Snaggaralega og vel gert hjá Blikum.
Heimamenn voru aðeins vankaðir eftir þetta en náðu sér fljótt og herjuðu enn á okkur hægra megin og litlu munaði þegar boltinn fór af Damir í stöngina og aftur fyrir okkar megin en Fjölnir náði ekki að koma sér í nein opin færi. Fengu nokkrar hornspyrnur en við áttum allskostar við þá þar. Skömmu síðar varð Arnór að yfirgefa völlinn eftir harkalegt samstuð við andstæðing og Alfons kom í hægri bakvörðinn í hans stað. En fleira markvert gerðist ekki í fyrri hálfleik.

Mikið tvístigið í hálfleik og skeggrætt. Árni Vill mættur frískur til leiks frá Noregi og menn höfðu á orði að hann væri snarpari og öflugri en áður en hann helt í víking og nú væri barnafitan alveg horfin. En aðalmálið væri að halda hreinu. Menn voru samt mátulega trúaðir á það eftir markasúpu síðustu daga. En það sakaði ekki að vona.

Blikar hófu síðari hálfleikinn af krafti og ógnuðu marki heimamanna í tvígang áður en gestgjafarnir kæmust nokkuð áleiðis. En svo dundi ógæfan yfir og Blikar fengu dæmda á sig vítaspyrnu fyrir smotterísbrot sem sjaldnast er dæmt á og eiginlega alltaf geðþóttaákvörðun dómara hverju sinni, því álíka og var dæmt á þarna sést í flestum hornspyrnum sem teknar eru í boltanum. Ég man hinsvegar varla eftir að það hafi verið dæmt á þetta fyrr.  Nú virtust bölbænir þeirra svartsýnustu ætla að rætast. En Gunnleifur var ekki á þeim buxunum og varði þokkalega spyrnu glæsilega og Blikar önduðu léttar. Mun léttar. Og eftir þetta náðu heimamenn varla að ógna marki okkar. Það varð reyndar í tví- eða þrígang dálítið havarí inni í vítateig okkar eftir föst leikatriði en Blikar náðu alltaf að koma tuðrunni frá. Voru hinsvegar ekki góðir í að halda boltanum og fyrir vikið lágu okkar menn dálítið aftarlega. Óþægilega aftarlega myndi maður segja. En af og til náðust góð skyndiupphlaup  sem runnu einatt út í sandinn vegna ónákvæmra sendinga. Ellert kom inn fyrir Bamberg og Blikar héldu bara sjó og voru ekki mikið að sperrast fram á við ef undan eru skilin nokkur skyndiupphlaup. Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka náðu Blikar einu slíku og það fór sömu leið og hin fyrri, slök sending beint í lappir heimamanna sem lögðu af stað á eigin vallarhelmingi. En nú gerði Árni leifturárás á leikmann Fjölnis sem var lagður af stað með boltann og hirti af honum knöttinn með skriðtæklingu. Stóð svo upp og renndi boltanum inn fyrir vörnina þar sem Andri Rafn kom á ferðinni og renndi boltanum fram hjá markverði Fjölnis og í stöngina og inn. Staðan 0-3 og þar með var dagskránni eiginlega lokið. Andri enn og aftur að skora í sama markið. Eftir þetta gerðis fátt markvert utan að Höskuldur kom inn í stað Arnþórs eftir talsverða fjarveru. Vonandi nær hann fleiri leikjum í síðari umferðinni. En Blikar sigldu 3 stigum í hús og hefðu reyndar með smá yfirvegun getað bætt við marki eða mörkum því þeir fengu til þess ágæt færi. En 0-3 er ekki til að kvarta yfir gegn Fjölni sem hefur spilað afar vel í sumar og skorað flest mörk allra liða.

Þar með náðum við 19. stiginu í hús og erum nú „aðeins“ 3 stigum á eftir efsta liðinu þegar mótið er hálfnað. Við hefðum auðvitað viljað vera með fleiri stig en það er bót í máli að það er stutt í toppinn. PEPSI deildartitillin 2016 er í dauðafæri og við getum vel náð í fleiri stig í síðari helmingnum.  En til þess að það takist þarf að liðið að ná meiri stöðugleika en það hefur sýnt í sumar. Leikurinn í gær var góð byrjun í þeim leiðangri. Meira svona.

Næsti leikur Blika er útileikur gegn Víkingi Ólafsvík n.k .sunnudag og hefst kl. 19:15.
Þar eigum við sannarlega harma að hefna frá fyrri umferðinni.
Við mætum.

Áfram Breiðablik!
OWK

Umfjöllun netmiðla

Til baka