BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Evrópa ! - Breiðablik er mætt til leiks á ný

20.09.2018

Það var stór dagur í sögu Fylkis þegar Breiðablik mætti félaginu í 20. umferð Pepsi deildarinnar miðvikudaginn 20. september.  Fyrsti leikur liðsins í nýjum flóðljósum sem skartað var á glænýjum gervisgraslögðum heimavelli þeirra í Elliðaárdalnum.    Haustlægðirnar eru mættar upp að ströndum Íslands og það var stinningskaldi í póstnúmeri 110 – napur vindur en aðstæður samt sem áður nokkuð góðar til knattspyrnuiðkunar.  Ég þurfti reyndar að íhuga vel í þetta sinn hvernig klæðnaður minn væri þegar ég lagði af stað á völlinn. Ástæðan er sú að eitt sinn þegar ég var á leið upp í Árbæ að horfa á leik þessara liða var töluverð rigning og mér fannst tilvalið að fara í kayak anorakinn (þetta eru einu 2 orðin úr grænlensku sem hafa náð að festa sig í sessi í öðrum tungumálum)  til að verjast bleytu og vosbúð.  Ég áttaði mig hinsvegar á því ekki fyrr en ég kom á völlinn að liturinn á þessari forláta uppáhalds flík minni var fallega „orange“  eða sem sagt þeim hinum sama og Fylkir klæðist.  Var ég því hálfpartinn eins og boðflenna meðal félaga minna í áhorfendastúkunni og sór þess eið að þetta kæmi aldrei fyrir aftur.

Núna var klæðnaðurinn óaðfinnanlegur  –  en það voru ekki áhyggjur af klæðaburði sem voru mér og fleirum efst í huganum.  Miklu heldur snerust þær um hvernig Blikaliðið kæmi til leiks eftir gríðarlega erfiðan 120 mínútna langan úrslitaleik í Mjólkurbikarkeppninni á laugardagskvöldið.  Enda var það svo að bæði Andri Yeoman og Viktor voru ekki búnir að ná sér af meiðslum og voru ekki í leikmannahópnum.  Byrjunarliðið og aðrar upplýsingar um leikinn má sjá hér.  Kolbeinn Þórðarson og Aron Bjarnason komu inn í liðið – og báðir áttu skínandi leik.   Áhyggjur okkar reyndust sem betur fer ástæðulausar – liðið kom afar ákveðið til leiks og strákarnir spiluðu firnavel allt frá fyrstu mínútu.   Stundum er sagt að stigataflan ljúgi ekki – og það sást vel strax hvort liðið á að vera betra í fótbolta. 

Það dró til tíðinda eftir 27 mínútur þegar Damir átti fyrirgjöf sem fór í Fylkishönd og víti var dæmt.  Thomas Mikkelsen fór á punktinn og skoraði sitt 8. mark í sínum 10. leik fyrir Breiðablik í deildinni.  Hvar við værum ef hans hefði notið við í byrjun verður aldrei svarað en grunur er um að við værum í enn betri málum.   Á 43. mínútu kom afar skemmtileg skyndisókn þar sem boltinn gekk á milli manna. Sóknin endaði á því að Aron dró að sér varnarmenn Fylkis og setti hann út á hægri til Jonathan Hendrickx sem hafði hlaupið 80 metra úr bakvarðastöðunni til að fylgja eftir sókninni. Hann afgreiddi boltann eins og væri þrælsjóaður framherji og skoraði fallegt mark.  Enn einn stórleikurinn hjá Jonathan – en Belginn er okkur mikill happafengur.

Síðari hálfleikur byrjaði eins og fyrri hálfleikur hafði verið – við réðum spilinu og lykilmaður í þeim strúktúr var Willum Þór.  Það er enn mánuður þar til hann verður tvítugur en það er ekki að sjá á sjálfstraustinu. Það er unun að horfa á tækni hans og leikgreind og hann virðist alltaf taka réttar ákvarðanir í flóknum stöðum.  Það kæmi mér ekki á óvart ef erlend lið myndu falast eftir kröftum hans eftir frammistöðuna í sumar.  Hann ásamt Jonathan og Aron voru bestu leikmenn liðsins í kvöld.   Þetta hlaut að enda með marki og það gerðist á 57. mínútu og var það af fallegri gerðinni.  Boltinn gekk manna á milli með einni snertingu hægra megin. Stutt spil sem gekk frá Jonathan á Gísla, þaðan á Willum sem sendi á Aron sem gerði geysivel, þrumaði boltanum í vinstra hornið fjær.   Ég var staddur á Vestfjörðum um helgina – nánar tiltekið á Barðaströndinni og sá þar laskaðar mæðiveikigirðingar en Fylkisvörnin minnti mig á þær í þessu marki.  Sennilega ósanngjarn samanburður því Blikarnir hreinlega spiluðu vörnina sundur og saman.

Það var ljóður á leiknum að Fylkismenn spiluðu mjög gróft í þessum leik. Þeir eru í vondum málum í botnbaráttu og var hér um að ræða kokteil með þremur sortum.  Ónógri getu í fótbolta, þreytu og gremju.  Ekki góð blanda – en vonandi taka þeir sig taki og spili betur í þeim 2 leikjum sem eftir eru. Gangi þeim vel.  

Ágúst þjálfari gerði breytingar undir lok leiks –  tók Thomas, Willum og Oliver út og inn komu Guðmundur, Alexander og Arnór Gauti.   Spilið riðlaðist nokkuð við þær breytingar enda má liðið tæplega við því að vera án Yeoman, Willum og Oliver á miðjunni.   Á 90. mínútu fékk Fylkir skyndisókn og Gulli fyrirliði sá engan annan möguleika á að stöðva Ragnar Braga ólöglega og hlaut rautt spjald að launum.  Arnór Gauti gerðist sjálfboðaliði sem markmaður í aukaspyrnunni og varði skotið þannig að minnti á takta hjá Einari Þorvarðarsyni bæjarfulltrúa í Kópavogi á blómatíma hans í marki íslenska landsliðsins á sínum tíma.  

Það voru ánægðir stuðningsmenn Breiðabliks sem héldu heim á leið úr Árbænum. Það var ekki sjálfgefið við upphaf leiktíðar að við myndum vera búnir að tryggja okkur sæti í Evrópukeppni þegar 2 umferðir eru eftir.  Hvað þá að komast í bikarúrslitaleik að auki.  Ágúst þjálfari er að búa til sterka liðsheild sem spilar á köflum knattspyrnu eins og hún gerist best hér á landi – og það verður spennandi að sjá hvernig við mætum til leiks á nýju leiktímabili.  Það er yndisleg tilhugsun að við skulum vera þátttakendur í Evrópukeppninni á næsta ári.  Breiðablik er stærsta knattspyrnufélag landsins og við eigum auðvitað ekki að sætta okkur við annað en að vera þar á meðal á hverju ári. 

En þetta tímabil er ekki enn búið. Næst förum við upp í Grafarvog og mætum Fjölni sem berst fyrir lífi sínu sunnudaginn 23. september.  Síðasti leikurinn er svo gegn KA í lokaumferðinni þann 29. september.  Það er nokkuð undarleg tilhugsun að það verður síðasti leikur Breiðabliks á heimavelli á náttúrulegu grasi.   Það verður fróðlegt að fylgjast með hvað sú umbreyting hefur í för með sér.  En nú þurfum við fyrst og síðast að klára þetta leiktímabil með sæmd. Með frammistöðu eins og í kvöld ættum við ekki að kvíða neinu í þeim efnum.      

Hákon Gunnarsson

Umfjallnair netmiðla

BlikarTV - Myndaveisla

Til baka