BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

“Enginn útundan”

14.07.2019

Það var mikið um að vera á félagssvæði okkar Blika um helgina. Þá fór fram Símamótið í knattspyrnu en þarna er framtíð íslenskrar kvennaknattspyrnu saman komin. Þarna etja kappi ungar knattspyrnukonur í 5., 6. og 7. flokki hvaðanæva að af landinu og skemmta sér saman. Í ár voru þátttakendur 2.300 talsins og hafa aldrei verið fleiri. Þetta er því langstærsta knattspyrnumót sem haldið er á Íslandi og hefur farið vaxandi allt frá því það fór fram í fyrsta sinn árið 1985. Í upphafi bar mótið nafnið “Gull- og Silfurmótið” en frá árinu 2005 hefur það kallast “Símamótið” enda er Síminn bakhjarl þess og helsti stuðningsaðili. Samstarf Símans og Breiðabliks í mótshaldinu er til mikillar fyrirmyndar og allir sammála um að standa þannig að málum að sómi sé að. Umgjörðin í kringum félagssvæðið okkar er líka afar hentug og gefur þessum viðburði einstaka ásýnd. Um helgina lék veðrið líka við okkur og gerir alla framkvæmd auðveldari og ánægjulegri. 

Það er skemmst frá því að segja að Símamótið hefur sérstakan sess í hugum okkar Breiðabliksfélaga. Mótshaldið er mikið sameiningartákn í okkar huga. Að mótinu koma nokkur hundruð sjálfboðaliðar sem gera það mögulegt að láta mótið ganga sinn þannig að allt takist eins og best verður á kosið. Þess má geta að í samningum við flesta leikmenn beggja meistaraflokka Breiðabliks er klásúla um að taka þátt í störfum við Símamótið. Það hefur aldrei komið fram athugasemd við þetta ákvæði og var virkilega ánægjulegt að sjá leikmenn meistarflokkana við dómgæslu og fleira sem þau öll sinntu af stakri snilld. Undirritaður hefur mörgum sinnum sinnt dómgæslu á Símamótinu. Það starf tekur á sig ýmsar myndir og ánægjulegar auk hefðbundinnar dómgæslu. Má þar nefna aðstoð við að reima skó keppenda, stilla til friðar á hliðarlínunni gagnvart allt of kappsömum foreldrum eða þá að hugga leikmenn tapliða og stappa í þær stálinu.

Einar Sumarliðason starfsmaður Breiðabliks í Smáranum hefur komið að þessu mótshaldi allt frá upphafi eða 35 ár. Fyrst sem sjálfboðaliði og foreldri en frá 1991 sem starfsmaður Kópavogsvallar. Hann segir það stórfenglega upplifun að fylgjast með þróuninni og sagði í samtali við blikar.is um helgina að “mótið hefur aldrei verið stærra – og aldrei tekist jafn vel.” Hann sagði að það væri alltaf jafn gaman að koma að mótinu og að sjá stelpurnar njóta sín jafn vel og raun bar vitni. Alls eru félögin sem taka þátt 41 talsins en keppnisliðin eru 344! Við Blikar erum fjölmennastir á svæðinu með 34 lið, hvorki fleiri né færri. Það er erfitt að gera sér grein fyrir stærðargráðunni. Í hverju liði eru 10 leikmenn. Þegar við bætast þjálfarar, liðsstjórar, foreldrar, afar/ömmur og langafar/ömmur er ljóst að liðunum fylgja þúsundir aðstandenda, jafnvel tugþúsundir. Þá eru allir sjálfboðaliðarnir sem skipta hundruðum og sjá svo um að allt gangi upp.

Einar Sumarliðason hefur komið að öllum stúlknamótum sem Breiðablik hefur haldið frá 1985. Einar segir að Símamótið 2019 sé það stærsta og glæsilegasta hingað til. Hér er hann með tveimur af mörg hundruð sjálfboðaliðum sem að Símamótinu stóðu, þeim Ingu Freyju til vinstri og Guðnýju Lilju til hægri.

Þetta myndi aldrei vera mögulegt nema með öflugri skipulagningu en það er barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar sem ber ábyrgð á framkvæmdinni undir forystu Jóhanns Þórs Jónssonar og fá allir aðstandendur mótsins mikið hrós fyrir sín störf. 

 

Það er auðvitað hart tekist á inni á vellinum – og keppnin um að sigra er alltaf markmiðið. Þarna hafa nánast allar landsliðskonur Íslands stigið sín fyrstu spor í keppni og sama má segja um leikmenn í meistaraflokki kvenna hér á landi. En þegar upp er staðið er það ekki lykilatriðið hverjir standa uppi sem sigurvegari. Símamótið hefur miklu dýpri tilgang en það að bera sigurorð af andstæðingunum. Þarna koma knattspyrnukonur framtíðarinnar saman og eiga saman yndislega helgi við leik og keppni – og skemmta sér konunglega. Þær læra að sigra – en líka að tapa og gera það með sæmd. Það er afar mikilvægt að læra að tapa með reisn. Það er hægt ef þú gerir eins vel og þú getur – og það eru skilaboðin sem íþróttahreyfingin á að senda til samfélagsins.

Breiðablik er um þessar mundir að vinna að stefnumótun sem snýr að því að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í starf félagsins á sem flestum sviðum. Vinnuheiti verkefnisins er “Enginn útundan”. Það er áhugavert að skoða Símamótið í því samhengi. Inntak heimsmarkmiðanna er að “allir taki þátt” og að allir íbúar jarðar fái tækifæri til að nýta hæfileika sína á sem bestan hátt. Símamótið hefur nákvæmlega það inntak að leiðarljósi og það var unun að horfa á gleðina og ánægju allra um helgina á Símamótinu 2019.

Blikar.is er heimasíða stuðningsmanna meistaraflokka Breiðabliks. Það breytir ekki því að við aðstandendur blikar.is teljum að allt starf á vegum knattspyrnudeildar Breiðabliks tengist órjúfanlegum böndum og það er okkur sönn ánægja að geta fengið tækifæri á að þakka öllum þeim sem að Símamótinu í ár fyrir framlag sitt. Þarna liggja okkar rætur og án þessa öfluga starfs sem þarna er unnið – munum við ekki halda úti jafn öflugum meistarflokkum og raun ber vitni.

Hákon Gunnarsson

Smellið á myndina hér fyrir neðan til að sjá svipmyndir frá Símamótinu 2019

Til baka