BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Ekki búið !

19.09.2013

Blikar mættu meistaraefnum KR í dalnum græna (og blauta) í dag. Gestirnir alveg við það að tryggja sér Íslandsmeisaratitilinn og hugðu gott til glóðarinnar með heimsókn í Kópavoginn. En þar hafa reyndar ekki verið þeirra fengsælustu mið undanfarin ár og ef undan er skilinn sigur þeirra á okkar mönnum í fyrsta leik mótsins 2011, (eitt eftirminnilegasta dómarahneyksli seinni ára) þá hefur okkur gengið takk bærilega með þá. Blikar komnir upp að vegg og ekkert nema sigur gat haldið Evrópudraumnum á lífi. Andri Rafn var kominn á ról á ný og settist á bekkinn en Renée og Nichlas voru báðir fjarri góðu gamni vegna meiðsla og Elfar Freyr Helgason og Gísli Páll komu á ný inn í byrjunarliðið í þeirra stað.

Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;

Gunnleifur (M)
Gísli Páll - Sverrir Ingi – Elfar Freyr- Kristinn J
Finnur (F) – Þórður Steinar - Guðjón Pétur- Tómas Óli
Árni Vill - Ellert

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Olgeir Sigurgeirsson
Elfar Árni Aðalsteinsson
Jökull I. Elísabetarson
Arnar Már Björgvinsson
Andri Rafn Yeoman
Viggó Kristjánsson

Sjúkralisti;  Rafn Andri Haraldsson – Renée Troost – Nichlas Rohde

Leikbann; Enginn

Leikskýrsla           Mörkin

Það var norðaustan kaldi, 8 m/sek og hiti nálægt 6°C. Úrkomulítið. Raki 85 % og 15 km skyggni. Völlurinn nokkuð blautur en greinilega í fínu standi. Það var frítt á völlinn, af alkunnum ástæðum, og rétt tæplega tvö þúsund áhorfendur  mættu á völlinn í dag í boði knattspyrnudeildarinnarog kláruðu þar með þennan leik sem nú var flautaður á í annað sinn, ef svo má segja.

Blikar léku af krafti í dag og má segja að þeir hafi klárað þennan leik af fagmennsku. Þjálfarinn breytti leikskipulaginu frá því sem verið hefur, þannig að gestirnir fengu að halda boltanum en okkar menn lágu til baka og voru mjög þéttir. Þetta gekk ljómandi vel og KR-ingarnir sköpuðu sér einungis tvö færi í öllum leiknum. Það fyrra kom rétt eftir að Blikar komust yfir en Gunnleifur varði meistaralega fast skot Emils Atlasonar. Seinna færið kom á 70. mínútu, en mývetningurinn Baldur Sigurðsson, smali, skallaði þá framhjá í góðu færi í stöðunni 1-0. Þar vorum við heppnir. Blikar lágu nokkuð eins og fyrr er getið aftarlega á vellinum lengst af og freistuðu þess að sækja hratt þegar færi gafst. Þetta svínvirkaði. Okkar menn vörðust mjög vel og voru vel skipulagðir. Baráttan alveg til fyrirmyndar. Fram á við voru þeir beittir og áttu slatta af álitlegum sóknum og góðum færum, sérstaklega í síðari hálfleik. Uppskeran 3 góð mörk og þar af eitt eftir hornspyrnu. Jájá, það er líka hægt að skora úr svoleiðis.

Niðurstaða dagsins var 3 stig og við eigum enn möguleika á Evrópusætinu. KR-ingar munu svo eflaust fagna síðar, en það sem er mest um vert er að það verður ekki á okkar heimavelli. Það ber að þakka.
Okkar menn sýndu að þeir eru ekki búnir að gefa þetta frá sér. Þeir munu mæta grimmir og tilbúnir á sunnudaginn í Garðabæinn, það er næsta víst.

Við stuðningsmenn Blika þurfum hinsvegar að gera mikið betur en í dag til að geta talist leggja lóð á vogarskálarnar. Þetta var döpur frammistaða hjá okkur, svo vægt sé til orða tekið. En við getum enn bætt okkar ráð og það er tilvalið að byrja á sunnudaginn. Höfum gaman að þessu, styðjum strákana af krafti og þöggum niður í silfurskeiðinni.
Aftur !

Áfram Breiðablik !

OWK
(að undirbúa sig fyrir leikinn á sunnudaginn)

Til baka