BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Einvígið um Evrópu! Breiðablik – Fjölnir í PEPSI laugardaginn 1. október kl. 14:00

29.09.2016

Leikur Blikaliðsins í lokaumferð PEPSI deildarinnar á laugardaginn kl. 14:00 er gríðarlega mikilvægur leikur um Evrópusæti 2017 við Fjölnismenn á Kópavogsvelli. Blikar eru núna í þriðja sæti deildarinnar og verða að vinna leikinn til að tryggja Evrópusætið. Við erum með jafnmörg stig og KR en markatalan er okkur hagstæðari sem nemur 4 mörkum. Sigur á laugardaginn tryggir okkur Evrópusætið, nema mjög óvænt úrslit líti dagsins ljós í leik Fylkismann og KR-inga í Árbænum. Möguleiki Fjölnismanna á að tryggja sér Evrópusætð liggur í sigri í leiknum og að Stjarnan eða KR vinni ekki sína leiki.

Blikar eiga ágætar knattspyrnuminningar frá viðureignum við Fjölnismenn. Í lokaleik Íslandsmótsins í fyrra lögðum við þá gulklæddu að velli 0:2 í sögufrægum leik þar sem Jonathan Glenn og Andri Rafn settu mörk Blika. Með sigrinum bættu Blikar stigamet sitt í efstu deild og tryggðu sér jafnframt silfurverðlaunin Íslandsmótsins 2015  umfjöllun um leikinn.

Leikur liðanna á Kópavogsvelli á laugardaginn kl. 14:00 er nítjándi opinberi leikur liðanna frá upphafi. Allra fyrsti keppnisleikur liðann var í Deildarbikarnum árið 2003. Liðin voru samstíga í 1. deildinni árin 2004 og 2005. Allra fyrsta viðureign liðanna í efstu deild var árið 2008. Heilt yfir eru liðin búin að keppa 18 sinnum opinberlega. Breiðablik hefur vinninginn með 13 sigra, 5 jafntefli og 0 tap. Breiðablik hefur skorað 37 mörk gegn 15 mörkum Fjölnismanna.

Viðureignir liðanna í efstu deild eru 9. Árið 2008 vinna Blikar 1-2 í miklum rokleik í Grafarvoginum með hörku marki  Blikans Árna Kristnis Gunnarssonar en Árni Kristinn lék með Fjölnismönnum árin 2012-2014. Blikar vinna svo seinni leikinn á Kópavogsvelli 4-1 með mörkum frá Guðmundi Kristjánssyni, Nenad Zivanovic, Prince Rajcomar. Eitt markanna var sjálfsmark. Árið 2009 var markalaust jafntefli í heimaleiknum en Blikar vinna seinni leikinn í Grafarvogi 0-2 með mörkum frá Kidda Steindórs og Gumma P. Fjölnisliðið fellur 2009 en er komið upp aftur upp í efstu deild árið 2014. Báðir leikirnir 2014 enduðu með jafnteflum; 2-2 í Kópavoginum og 1-1 í Grafarvoginum. Mörk Blika skoruðu Árni Vilhjálmsson 2 mörk og Davíð Kristján Ólafssson 1 mark. Mark Davíðs á Kópavogsvelli var sérlega vel gert og fagnið í kjölfarið var ekki síður glæsilegt!

Í fyrra vannst heimaleikurinn  2-0 með mörkum frá Oliver Sigurjónssyni og fyrirliðanum Arnóri Sveini Aðalsteinssyni. Mark Olivers var glæsilegt, algjörlega óverjandi, aukaspyrnumark. Markið var jafnframt fyrsta mark Olivers í efstu deild. Gísli Eyjólfsson kom inn á undir lok leiks í sínum fyrsta efstu deildar leik.

Í sumar gerðu Blikar mjög góða ferð í Grafarvoginn í 11.umferð PEPSI deildarinnar og unnu öruggan 0:3 sigur á Fjölnismönnum með mörkum frá Daniel Bamberg, Gísla Eyjólfssyni og Andra Rafni Yeoman.

Árangur okkar í 9 leikjum í efstu deild gegn Fjölni er: 6 sigrar, 3 jafntefli og 0 tap.

Þess má geta að Kristófer Sigurgeirsson, aðstoðarþjálfari meistraflokks karla, ætti að þekkja vel til Fjölnisliðsins því hann var aðstoðarþjálfari liðsins árin 2006-2008, ásamt því að spila með liðinu árið 2006, og svo aðstoðarþjálfari hjá núverandi þjálfara Ágústi Gylfasyni 2012-2014. 

Fjölnismenn eru með gríðarlega sterkt lið og hafa staðið sig frábærlega í sumar. Liðið er nú í 5. sæti með 34 stig, 1 stigi á eftir okkur og með 14 mörk í plús.

Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi leiksins. Nú er skyldumæting hjá öllum Blikum!

Einvígið um Evrópu á Kópavogsvelli á laugardaginn kl. 14:00. 

Berjumst Blikar – saman til sigurs!

Til baka