BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Danirnir of stór biti fyrir Blika

10.02.2014
Blikar urðu að bíta í það súra epli að tapa 2:0 fyrir sterku liði FC Köbenhavn á Atlantic mótinu í kvöld. Sigur Dananna var fyllilega verðskuldaður en mörkin voru samt í ódýrari kantinum. Strax í byrjun leiks varði Gunnleifur vel en Damir var óheppinn í hreinsuninni. Skaut boltanum í Elfar Frey og norski landsliðsmaðurinn Brathens skoraði örugglega. Í byrjun síðari hálfleiks var síðan Damir aftur á ferðinni og skoraði sjálfsmark eftir sendingu utan af kanti.
 
Kaupmannahafnarbúarnir héldu boltanum meirihluta leiksins en náðu samt ekki að skapa sér mörg færi. Vörnin hélt ágætlega en þó var ljóst að nokkuð var farið að draga af mönnum eftir stífa æfingaferð. Miðjumennirnir Finnur og Andri Rafn náðu ekki að halda boltanum nægjanlega vel. Líklegast hefði Óli átt að setja frískari menn fyrr inn á völlinn því um leið og skiptingarnar komu þá fór Blikaliðið loksins að ógna marki andstæðinganna. Fyrst átti Viggó ágætt færi en skaut framhjá. Síðan var Finnur Orri í fínu færi en boltinn fór hárfínt yfir.
 
Í heild getur Blikaliðið samt verið ánægt með þessa æfingaferð. Liðið náði ágætum úrslitum og eru strákarnir reynslunni ríkari eftir mótið. Liðið kemur heim á morgun en næsti leikur liðsins er gegn Grindavík þriðjudaginn 18. febrúar í Lengjubikarnum.
 
Byrjunarlið Blikaliðsins var óbreytt frá síðasta leik nema að Damir kom inn í liðið fyrir Palla. Stefán Gíslason fór á miðjuna og stóð sig með ágætum. Í síðari háfleik komu Tómas Óli, Ellert, Viggó og Gísli Páll inn fyrir Davíð, Guðmund og Elvar Aðalsteinsson. Í lokin komu síðan Ernir Bjarnason og Guðjón Lýðsson inn fyrir Andra og Finn Orra.
 
-AP

Til baka