BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – Þróttur R í PEPSI mánudaginn 15. ágúst kl. 18:00

13.08.2016

Allra fyrsti opinberi knattspyrnuleikur Breiðabliks í landsmóti frá upphafi var leikur gegn Þrótti R. á gamla Melavellinum föstudaginn 7. júní 1957.

Þetta var skrifað blöðin eftir leikinn 7. júní 1957: „Í kvöld leikur nýtt utanbæjarlið hér sinn fyrsta leik, Ungmennafélagið Breiðablik í Kóapvogi leikur gegn Þrótti í 2, deildarkeppninni og hefst leikurinn kl. 20,30“ – og –  „Þeir sem léku fyrir Kópavog í fyrsta leik félags þaðan í landsmóti i knattspyrnu heita: Gunnlaugur Sigurgeirsson, Ármann J. Lárusson, Ingvi Guðmundsson, Baldur Sigurgeirsson, Hilmar Bjarnason, Þorsteinn Steingrímsson, Grétar Kristjánsson, Friðbjörn Guðmundsson, Magnús Tryggvason, Sigmundur Eiríksson og Árni Kristmundsson.“  Nánari umfjöllun.

Grétar Kristjánsson, faðir Arnars Grétarsson þjálfara , var í byrjunarliði Breiðabliks í þessum fyrsta leik árið 1957. Grétar var góður framherji og skoraði 50 mörk í 113 leikjum með Breiðablik frá 1957 til 1968. Allir synir Grétars eiga farsælan feril að baki með Breiðabliki:  Jóhann Grétarsson lék 189 frá 1978 til 1996, Sigurður Grétarsson lék samtals 159 frá 1979 til 1983 og 1998 til 2000, Arnar Grétarsson lék samtals 289 leiki frá 1988 til 1996 og 2006 til 2010. Samtals eru þetta 750 leiki hjá Grétari og sonum og 193 skoruð mörk, enda er Grétar Kristjánsson, ásamt þeim Sigurði og Arnari, einn af aðeins 10 leikmönnum sem skorað hafa 50 eða fleiri mörk með Breiðabliki frá upphafi.

Á þeim 59 árum sem liðin eru frá þessum fyrsta leik Breiðabliks í landsmóti í knattspyrnu hafa liðin mæst 52 sinnum í opinberri keppni í 11 manna bolta.  Niðurstaðan er hníf jöfn. Bæði lið hafa sigrað í 21 skipti og jafnteflin eru 10. Í deildarkeppni hafa liðin mæst 39 sinnum (S13, J9, T17) þar af 24 sinnum í B-deild (S8, J4, T12) og 15 sinnum í A-deild (S5, J5, T5).

Leikir í A-deild eru 5 frá því að Blikaliðið kom upp í eftu deild árið 2006 (S1, J2, T2) þar af 1 sigur og 1 jafntefli á Kópavogsvelli.

Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 2:0 sigri Þróttar í leik sem Þróttur nýtti sín færi en við ekki.

Liðin hafa skorað 134 mörk í leikjunum 52 sem skiptast þannig að Þróttur hefur skorað 77 mörk en Blikar 57. Þarna telja árin frá 1957 til 1968 mikið þegar Breiðablik skorar aðeins 6 mörk gegn 27 mörkum Þróttar. Fyrstu sigrar á Þrótti komu ekki fyrr en B-deildinni árið 1970 þegar við unnum Þrótt 5-1 á Vallargerðisvellinum og svo 2-3 á Melavellinum .

Vonandi sjá flestir sér fært að mæta á Kópavogsvöll á mánudaginn og hvetja Blikaliðið til sigurs.

Kópacabana stuðningshópur Blika fjölmennir auðvitað.

Leikurinn hefst klukkan 18:00 mánudaginn 15. ágúst.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka