BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - KR í PEPSI þriðjudaginn 7. ágúst kl. 19:15

05.08.2018

Fimmtánda umferð PEPSI deildar karla hófst í Eyjum þegar ÍBV tók á móti Fylkismönnum á laugardaginn. Á þriðjudag taka Grindvíkingar á móti Reykjavíkur Víkingum. Breiðablik fær KR-inga í heimsókn á Kópavogsvöll í stórleik umferðarinnar. Umferðinni lýkur svo á miðvikudaginn með 2 leikjum: KA-menn fá FH-inga í heimsókn og Fjölnismenn taka á móti Keflvíkingum. Leik Stjörnunnar og Vals í Garðabænum hefur verið frestað vegna þátttöku Valsmanna í 3. umf undankeppni Evrópudeildarinnar.

Blikaliðið er nú í þriðja sæti með 28 stig eftir 14 umferðir - einu stigi minna en topplið Vals en jafn mörg stig og Stjarnan.

Mótherjar okkar á Kópavogsvelli á þriðjudaginn er KR-ingar. KR liðið er í 4. sæti með 23 stig, enda hafa KR-ingar heldur betur verið að rétta úr kútnum í undanförnum leikjum. Blikar og KR eru einu liðiðin sem hafa unnið 3 síðustu deildarleiki (Blikar: Fjölni, FH og Keflavík. KR: Fylkir, Stjörnuna og Grindavík). Bæði lið eru á mikilli siglingu. Það má því búast við hörkuleik á þriðjudaginn eins og alltaf þegar þessi lið mætast.

Sagan

Fyrsti leikur Breiðabliks og KR í efstu deild var leikinn á Melavellinum árið 1971. Blikar unnu leikinn 1-0 með marki frá Haraldi Erlendssyni. Leikið var á gamla Melavellinum sem var heimavöllur Breiðabliks í efstu deild frá 1971 þangað til að Kópavogsvöllur var vígður 7. júní 1975

Breiðablik og KR hafa mæst 87 sinnum í opinberum leikjum frá upphafi. KR hefur vinninginn með 41 sigur gegn 20 sigrum Blika. Jafnteflin eru 26.

Efsta deild

Deilarleikir liðanna frá upphafi eru 63. KR-ingar hafa vinninginn með 28 sigra gegn 14 og jafnteflin eru 21.

Í 25 leikjum liðanna í efstu deild frá 2006 er jafnræði milli liðanna. Blikarsigrar eru 7, jafnteflin eru 10 og í 8 skipti sigrar KR. Skipting milli heimavalla er; 12 leikir á Kópavogsvelli: 4 Blikasigrar, 3 jafntefli, 5 KR-sigrar. 13 leikir í Frostaskjólinu: 3 Blikasigrar, 7 jafntefli, 3 KR-sigrar.

Leikurinn á þriðjudaginn er fjórða viðureign liðanna í ár:

30.05.18: Blikar vinna KR-inga í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á Kópavogsvelli með marki Olivers Sigurjónssonar. Nánar

18.05.18: Fyrri viðureign liðanna í PEPSI í sumar var á KR-vellinum um miðjan maí. Leiknum lauk með jafntefli eins og allir sex deildarleikir liðanna í Vesturbænum frá 2013.

17.03.18: Deildarbikarinn 5.umf. Breiðablik og KR skiptu bróðurlega stigunum á milli sín í 1:1 jafntefli í síðasta leik liðanna í Lengjubikarnum. Nánar

Síðustu 5 á Kópavogsvelli

Reyndar var síðasta viðureign liðanna á Kópavogsvelli ekki í PEPSI deildinni. Í lok maí unnu Blikar KRinga í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins á Kópavogsvelli með marki Olivers Sigurjónssonar. Nánar um þann leik hér

2017: KR með 1-3 sigur í 19.umf. Nánar

2016: Blikasigur 1-0 í 5.umf. Nánar

2015: Liðin gera 2-2 jafntefli í 2.umf. Nánar

2014: KR með 1-2 sigur í 2.umf. Nánar

2013: Blikasigur 3-0 í 16.umf. Nánar

Leikmannahópur Blika

Leikmannahópur Blika tekur sífelldum breytingum. Í síðustu viku skrifaði Sveinn Aron Guðjohnsenundir 3 ára samning við Ítalska liðið Spezia. Í júní skrifaði Danski framherjinn Thomas Mikkelsen undir 2 ára samning við Breiðablik. Fyrir mót kom Jonathan Hendrickx til okkar eins og allir vita. Arnór Gauti snéri aftur heim eftir dvöl í Eyjum í fyrra. Guðmundur Böðvar Guðjónsson kom til okkar frá  ÍA. Alexander Helgi Sigurðarson, sem var lánaður til Ólafsvíkur, var kallaður heim rétt fyrir lok félagaskiptagluggans. Fyrir mót kom Oliver Sigurjónsson aftur til okkar frá Noregi. Í vikunni varð ljóst að Oliver verður með okkur út tímabilið. Og Elfar Freyr Helgason er búinn að ná sér eftir axlarmeiðslin sem hann varð fyrir í byrjun júní. Leikmannahópur Blika 2018

Blikar hjá KR

Nokkrir reynslumiklir Blikar leika núna með KR. Kristinn Jónsson gekk til liðs við Vesturbæjarliðið eftir keppnistímabilið í fyrra. Arnór Sveinn Aðalsteinsson söðlaði um eftir keppnistímabilið 2016 og skrifaði undir hjá KR. Og Finnur Orri Margeirsson gekk til liðs við KR eftir veru í Noregi keppnistímabilið 2015. Fyrrverandi leikmaður Blika, Akureyringurinn Atli Sigurjónsson, leikur nú aftur með KR en hann lék 49 mótsleiki með Breiðabliki á árunum 2015 til 2017.

Dagskráin

Sjáumst öll á Kópavogsvelli á þriðjudagskvöld og hvetjum okkar menn. Búast má við fjölmenni á völlinn kvöld þannig að við hvetjum fólk til að mæta tímanlega.

Það verður kaldur í tjaldi, börger á grilli og rjúkandi kjötsúpa. Sparkvöllurinn á sínum stað fyrir krakkana.

Leikurinn á Kópavogsvelli hefst kl. 19:15

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

Til baka