BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - KR á Kópavogsvelli sunnudagskvöld kl 20.00

20.05.2016

Breiðablik og KR hafa mæst 80 sinnum í opinberum leikjum frá upphafi.

Fyrsti leikur A-liða Breiðabliks og KR var í 8-liða úrslitum í Bikarkeppni KSÍ 24. október árið 1970. Ekki var hægt að spila á Vallargerðisvelli því KR-ingar mótmæltu að leika á vellinum. Leikurinn fór fram á Melavellinum og lauk með 1-0 sigri KR í leik sem Blikar léku vel. Í blaðaskrifum frá 1970 segir „Breiðablik lék, KR skoraði“ og „KR-HEPPNIN fræga var í algleymi þegar KR-ingar léku við Breiðablik í Bikarkeppninni á laugardag“.

En allra fyrsti kappleikur liðanna var í Bikarkeppni KSÍ þegar Blikar mættu B-liði KR á Vallargerðisvelli 8. september 1964. Leikurinn tapaðist 1-2. Grétar Kristjánsson skorði mark Blika í fyrri hálfleik. En leikurinn er ekki skráður sem opinber leikur í bókum KSÍ sem er undarlegt því að í undanúrslitaleik Bikarkeppni KSÍ 1964 keppir B-lið KR gegn A-liði KR. A-lið KR vann þann leik 2-1 og vann svo úrslitaleik keppninnar líka.

Árið 1971, fyrsta árið sem Breiðablik lék í efstu deild, unnu Blikar KR 1-0 í fyrsta deildarleik liðanna. Það var Haraldur Erlendsson sem skoraði markið þegar hann lék sig út úr þvögu í markteig og skoraði örugglega. Leikið var á Melavellinum, heimavelli Breiðabliks frá 1971 þar til júní 1975, þegar Kópavogsvöllur var tekinn í notkun. Lið Breiðabliks í þessum leik var þannig skipað: Ólafur Hákonarson, Steinþór Steinsþórsson, Magnús Steinþórsson, Bjarni Bjarnason, Guðmundur H. Jónsson, Þór Hreiðarsson, Heiðar Breiðfjörð, Einar Þórhallsson, Guðmundur Þórðarsson, Haraldur Erlendsson og Trausti Hallsteinsson. Varamenn voru: Gissur Guðmundsson, Ríkarður Jónsson, Sveinn Þórðarson og Sigurjón Valdimarsson. 

Liðin hafa mæst alls 57 sinnum í deildarleik síðan þá - alltaf í efstu deild. KR hefur unnið um helming leikjanna gegn 13 sigrum Blika og 17 jafnteflum.

Morgunblaðið skrifar 26. júní 1971: "Fyrir þennan leik lét Breiðablik útbúa leikskrá, mjög einfalda í sniðum, en með öllum nöfnum leikmanna og númerum þeirra. Er þetta lofsvert framtak." 

Breiðablik og KR hafa mæst 80 sinnum í opinberum leikjum frá upphafi. KR hefur vinninginn með 40 sigra gegn 18 sigrum Blika. Jafnteflin eru 23. Skoruð mörk í þessum leikjum eru 206  eða 2.6 mark per leik. 

Árangur Breiðabliks gegn KR árin 1971 - 2005 er rýr. En frá árinu 2006 eru úrslitin í efstu deild nokkuð jöfn. Í 24 leikjum liðanna í efstu deild frá aldamótaárinu hafa Blikar sigrað 6 sinnum, KR 9 sinnum og jafnteflin eru 9. Liðin hafa skorað 74 mörk sem skiptast hnífjafnt á milli liðanna - hvort lið hefur skorað 37 mörk í þessum 24 leikjum, eða 3 mörk per leik. Leikir Breiðabliks og KR eru markaleikir – það er bara þannig. Breiðablik - KR 2016 upphitun 

Jafntefli hefur verið niðurstaðan í þremur síðustu deildarleikjum liðanna; 1-1 í Frostaskjólinu 2014, 0-0 í Vesturbænum og 2-2 í Kópavoginum í fyrra. En Blikar hafa verið með gott tak á KR. 3 sigrar, 1 tap, 3 jafntefli í síðustu 8 deildarleikjum. 55% stigaárangur gegn 29% KR-inga. Það verður spilað til sigurs á sunnudaginn. 

Sjáumst öll á vellinum á sunnudagskvöld.

Kópacabana stuðningshópur Blika fjölmennir auðvitað.

Búast má við fjölmenni á völlinn kvöld þannig að við hvetjum fólk til að mæta tímanlega. Leikurinn hefst 20:00.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

POA

Til baka