BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – ÍA 2015

15.08.2015

ÍA er sá andstæðingur sem Breiðablik hefur næst oftast keppt við (104 leikir) í opinberri keppni frá byrjun. Flestir leikir Breiðabliks (117 leikir) frá upphafi hafa verið gegn liði Keflavíkur.

Samkvæmt vef KSÍ hafa lið Breiðabliks og ÍA mæst 69 sinnum í opinberri keppni frá 4. júlí 1971. ÍA hefur sigarð 36 viðureignir, Breiðablik 19 viðureignir og 14 leikir hafa endað með jafntefli. Breiðablik hefur skorað 94 mörk gegn 137 mörkum ÍA.

Leikjafjöldinn er reyndar 104 þegar 2 leikjum í gömlu B-deildinni árið 1968 og 33 leikjum í Litlu Bikarkeppninni árin 1965 - 1992 er bætt við. Og vinningshlutfallið fellur með ÍA því Skagamenn hafa sigrað í 60 viðureignum gegn 22 Blika, jafnteflin eru 22. Enda unnu Skagamenn nánast alla leiki liðanna frá árinu 1965 til ársins 1995. Fyrsti sigur Blika á ÍA kom í Litlu Bikarkeppninni árið 1970. Fyrsti sigur Blika í efstu deild (1.deild) kom árið 1971 á gamla Melavellinum í Reykjavík.

En í 27 opinberum leikjum liðanna síðan árið 2000 hafa Blikar unnið 11 leiki, gert 8 jafntefli en tapað 8 leikjum. Blikar hafa skorað 54 mörk gegn 36 frá ÍA. Samtals 90 mörk í 27 leikjum liðanna.

Skoðum úrslit í viðureignum liðanna í efstu deild eftir að Blikar komu þangað aftur árið 2006. ÍA lék í 1. deild 2009, 2010, 2011 og aftur árið 2014. Því eru þetta bara 11 efstu deildar leikir sem liðin hafa lekið frá 2006. Liðin sigra 4 sinnum hvort og jafnt er í 3 leikjum. Liðin skora 35 mörk í þessum 11 leikjum.

Blikum hefur gengið ágætlega með ÍA á Kópavogsvelli í þessum 5 heimaleikjum síðan árið 2006. Blikar gera 2-2 jafntefli árið 2006, vinna öruggan 3-0 sigur árið 2007 og vinna 6-1 árið 2008 í frægum leik. Næsti heimaleikur var svo árið 2012 sem Blikar tapa 0-1. Blikar vinna svo sannfærandi 4-1 sigur árið 2013. Liðin skora 20 mörk í þessum 5 heimaleikjum á Kópavogsvelli.

Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 0-1 sigri Blika á Skaganum. Arnþór Ari Atlason skoraði hið dýrmæta mark eftir frábæra stoðsendingu frá Guðjóni Pétri Lýðssyni. Fréttaritari blikar.is skrifar „að í raun og veru hefðum við átt að skora að minnsta kosti 3-4 mörk í viðbót“. Netmiðlar og Stöð 2 Sport völdu Elfar Frey Helgason mann leiksins. Og markvörðurinn okkar Gunnleifur V. Gunnleifsson fagnaði tvöhundraðasta leiknum sínum í efstu deild á Íslandi.

Seinni leikur Breiðablikis og ÍA í Pepsi-deildinni 2015 verður á Kópavogsvelli klukkan 18:00 á mánudaginn 17. ágúst.

Áfram Breiðablik!

Til baka