BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik – Fjölnir 2015

13.07.2015

Leikur Breiðabliks og Fjölnis á Kópavogsvelli á mánudagskvöld er 16. opinberi leikur liðanna frá upphafi. Fyrsti keppnisleikur var í Deildarbikarnum árið 2003. Liðin voru saman í 1. deildinni árin 2004 og 2005. Fyrsta viðureign liðanna í efstu deild var árið 2008.

Heilt yfir eru liðin búin að keppa 15 sinnum. Breiðablik sigrar 10 leiki og jafnteflin eru 5. Breiðablik hefur skorað 30 mörk gegn 15 mörkum Fjölnismanna.

Viðureignir liðanna í efstu deild eru 6. Árið 2008 vinna Blikar 1-2 í miklum rokleik í Grafarvoginum með hörku sigurmarki frá Árna Kristni Gunnarssyni, en Blikinn Árni Kristinn Gunnarsson fór í nám til USA eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitli með Breiðabliki árið 2010. Árni snéri svo aftur í boltann eftir að hann kom heim og lék með Fjölnismönnum árin 2012-2014. 

Blikar vinna svo seinni leikinn á Kópavogsvelli 4-1 með mörkum frá Guðmundi Kristjánssyni, Nenad Zivanovic, Prince Rajcomar og eitt markanna var sjálfsmark.

Árið 2009 gerum við 0-0 jafntefli í heimaleiknum vinnum seinni leikinn 0-2 með mörkum frá Kidda Steindórs og Gumma P.

Fjölnismenn falla haustið 2009 en eru komnir aftur meðal þeirra bestu 2014. Báðir leikir liðanna í fyrra enduðu jafntefli. Heimaleikurinn endaði 2-2 og leikurinn í Grafarvoginum endaði með 1-1. Mörk Blika skoruðu: Árni Vilhjálmsson 2 mörk og  Davíð Kristján Ólafssson 1 mark, en markið hans var sérlega vel gert og fagnið hans ekki síður glæsilegt.

Árangur okkar í efstu deild gegn Fjölni er því 3 sigrar og 3 jafntefli í 6 leikjum. Fjölnismenn eru búnir að gera gott mót og það munar aðeins 2 stigum á liðunum. Fjölnissigur myndi setja þá í 4. sæti á okkar kostnað. Tölfræðin bendir hins vegar til að Fjölnismenn fari ekki með 3 stig heim í Grafarvoginn á mánudagskvöld.

Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst klukkan 20:00.

Sigur setur okkur í 3. sætið a.m.k.

Áfram Breiðablik !

Til baka