BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Breiðablik - FH á Kópavogsvelli sunnudagskvöld kl. 20:00

03.06.2016
Breiðablik og FH hafa mæst 99 sinnum í opinberum leikjum. Leikurinn á sunnudaginn verður því hundraðasti skráði leikur liðanna frá upphafi.
 
Efsta deild  42
II deild 20
Litla bikarkeppnin 19
Lengjubikarinn 8
Fótbolti.net mót 5
Bikarkeppni KSÍ 3
Meistarakeppni 2
Samtals 99
 
Fyrsti leikur Breiðabliks gegn FH var í A-riðli í 2. deildar laugardaginn 13. júní 1964. Leikurinn var jafnframt vígsluleikur Vallargerðisvallar og bæjarstjórinn Hjálmar Ólafsson tók upphafsspyrnu leiksins í tilefni dagsins. Dómari leiksins var Magnús Pétursson. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli. Jón Ingi Ragnarsson skoraði mark Blika eftir flotta stoðsendingu Daða E. Jónssonar. Jón Ingi var svo aftur á ferðinni í fyrsta sigri Breiðabliks á FH í síðari deildarleik liðanna sem fram fór á Hvaleyrarholtsvelli 23.7.1964. Guðmundfur Haraldsson dæmdi leikinn. Leikinn vinna Blikar 2-3 með tveimur mörkum Jóns Inga Ragnarssonar og einu marki Grétars Kristjánssonar. Þriðji leikur liðanna frá upphafi var einnig árið 1964 en það var leikur í 2. umferð Bikarkeppni KSÍ. Leikurinn fór fram á Hvaleyrarholtsvelli í Hafnarfirði og lauk með 2-3 sigri Blika. Mörk Blika í þeim leik skoruðu Jón Ingi Ragnarsson, Júlíus Júlíusson og Sigmundur Eiríksson. Nánar um leiki liðanna árið 1964.
 
Þessir leikmenn spiluðu deildarleikina tvo við FH árið 1964: Ármann J. Lárusson - Daði E. Jónsson - Grétar Kristjánsson - Guðmundur H. Jónsson - Helgi Magnússon - Jóhannes Haraldsson - Jón Ingi Ragnarsson - Júlíus Júlíusson - Njáll Sigurjónsson - Sigmundur Eiríksson - Sigvaldi Ragnarsson - Sverrir Guðmundsson - Vilhjálmur Ólafsson. Nánar um leikmenn Breiðabliks.
 
Ári síðar, 29. maí 1965, fá Blikar svo skell þegar FH vinnur okkur 8-0 á Hvaleyrarholtsvelli. En Blikar svara fyrir með óvæntum sigri í heimaleiknum gegn FH á Vallargerðisvelli 3. júlí 1965 með 4-3 sigri. Í hálfleik var staðan 1-3 fyrir FH en Blikar skora 3 mörk í seinni hálfleik og vinna leikinn 4-3. Aðal markaskorari Blika á þessum tíma, Jón Ingi Ragnarsson, skoraði þrennu í leiknum þar með talið sigurmarkið, en eitt markanna var sjálfsmark. Dómari leiksins mætti ekki til leiks þannig að Albert Guðmundsson, sem var meðal áhorfenda, tók að sér að dæma leikinn. Samkvæmt blaðaskrifum þá dæmdi Albert leikinn mjög vel. Nánar um leiki liðanna árið 1965.
 
Það var mikið skorað í leikjum liðanna fyrstu 2 árin eða 27 mörk í 5 leikjum sem gaf tóninn fyrir framhaldið því liðin skora að jafnaði 3+ mörk í meira en helming leikja liðanna frá upphafi.
 
Niðurstaða úr öllum 99 skráðum leikjum liðanna frá 1964 til 2016 eru 34 sigrar Blika, 20 jafntefli og 45 sigrar FH. 
 
Blikar hafa gott tak á FH í þessi 36 ár frá 1964 til ársins 2000. Þegar 1964-2000 og 2001-2016 eru borin saman er þetta niðurstaðan; í 60 leikjum í öllum mótum 1964-2000, að Blikar sigra 28 sinnum, jafnteflin eru 12 og FH vinnur 20 viðureignir. Nánar um tímabilið 1964-2000.
 
Liðin léku 40 leiki í A og B deild á árunum 1964-2000. Blikar höfðu yfirhöndina á þessum árum. Í 20 B deildar leikjum liðanna 1964-2000 sigra Blikar 11 sinnum, jafnteflin eru 3 og FH vinnur 6 sinnum. Í A deild 1964-2000 vinna Blikar 12 sinnum, jafnteflin eru 3 og 5 sinnum sigrar FH. Nánar um Deildarleiki 1964-2000.
 
En frá 2001 er tölfræðin á bandi FH því að í 39 skráðum leikjum í öllum mótum sigrar FH 25 sinnum jafnteflin eru 8 og Blikar vinna 6 leiki. Nánar um tímabilið 2001-2016.
 
Efstu deildar leikir liðanna 2001-2015 eru 22. Blikar hafa unnið 4 leiki, alla á heimavelli, jafnteflin eru 6 og 12 sinnum sigrar FH. Deildarleikir 2001-2016.
 
Nokkrar viðureignir liðanna, frá því að Blikar koma aftur upp í efstu deild árið 2006, hafa verið mjög fjörugrir markaleikir.
 
Í september 2007 vinna Blikar 4-3 í rosalegum leik þar sem Blikar komast í 4-1 stöðu með mörkum frá Nenad Zivanovic, Prince Rajcomar og 2 mörkum frá Magnúsi Páli Gunnarssyni.. En FH-ingar settu mikla spennu í leikinn með mörkum 71. og 77. mín og voru nærri búnir að jafna leikinn. Úrslitin höfðu mikil áhrif um úrslit íslandsmótsins sem Valsmenn unnu. Nánar um leikinn. 
 
Í júní 2008 sigra Blikar FH með 4 mörkum gegn 1 í gríðarlega skemmtilegum leik. Prince Rajcomar skoraði 2 mörk áður en Tryggvi Guðmundsson skorar úr víti. Nenad Petrovic skoraði gott mark. Og þjálfarinn okkar, Arnar Grétarsson, innsiglaði 4-1 sigur með marki úr vítaspyrnu á 82. mín. Það er ekki hægt annað en að minnast á atriði sem átti sér stað milli Casper Jacobsen og Tryggva Guðmundssonar eftir að sá síðarnefndi skoraði úr vítaspyrnunni á 50. mínútu. Nánar um atvikið og leikinn.
 
Í maí 2010 vinnum við FH 2-0. Kristinn Steindórsson skoraði bæði mörk Blika. Einhverjir sjónvarpslýsendur töluðu um „stoðsendingu ársins“ þegar Alfreð Finnbogason sendi boltann á Kristinn Steindórsson í fyrra markinu. Nánar um leikinn og myndband.
 
Í september 2015 vinna Blikar 2-1 sigur eftir að FH komst í 0-1. Sigur FH í leiknum hefði tryggt þeim Íslandsmeistaratitilinn í 20. umferð með tilheyrandi fagnaðarlátum á Kópavogsvelli. Slík niðurstaða var aldrei í boði á okkar heimavelli enda skoruðu Jonathan Glenn og Damir Muminovic sitt hvort markið eftir stoðsendingu frá Atla Sigurjónssyni. Nánar um leikinn. 
 
Fyrri leik liðanna í Krikanum lauk með 1-1 jafntefli. Arnþór Ari Atlason skoraði mark Blika á 69. mín. En Kassim Doumbia jafnaði fyrir FH á 93. mín. Nánar um leikinn.
 
Leikurinn við FH á sunnudaginn er önnur viðureign liðanna í keppni á þessu ári. Liðin átust við í Fótbolta.net mótinu 30. janúar 2016. Þeim leik lauk með 0-1 sigri FH. Nánar um leikinn.
 
Margir leikir liðanna hafa verið miklir markaleikir og hin besta skemmtun í orðsins fyllstu merkingu. Úrslit eins og 2-4, 3-0, 4-1, 2-3 og 4-3 eru ekki óalgeng þegar þessi lið mætast.
 
Blikar eru nú á toppnum en FH er aðeins stigi á eftir ásamt tveimur öðrum liðum.  Veðurspáin er mjög góð fyrir helgina þannig að búast við mörgum á völlinn. Við hvetjum alla Blika til að mæta þvi þetta er skemmtileg stund sem menn hitta vini og kunningja til að ræða sameiginlegt áhugamál
 
Upphitun Breiðablik - FH 2016.
 
Breiðablik - FH á sunnudaginn kl.20.00! 
 
Skyldumæting hjá öllum Blikum.
 
Kopacabana sveitin verður á staðnum.
 
Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!
 
- POA

Til baka