BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Umfjöllun: Bráðadoði í Smáranum

28.09.2019

Blikar stóðu heiðursvörð fyrir Íslandsmeistara KR fyrir leik á Kópavogsvelli í dag og færðu þeim blómvönd. Í hátölurunum söng Bubbi Morthens: „Við erum KR og berum höfuðið hátt“. Bubbi á mörg stórkostleg lög sem hafa fylgt manni frá unglingsárum. Þetta klastur er ekki  í þeim hópi og vona ég að ég þurfi aldrei að heyra það aftur í Smáranum. Þarna hefði gestrisni og kurteisi heimamanna – og dómara – átt að ljúka en raunin reyndist önnur. Áður en dómarinn setti allt í gang voru Viktor Örn, Gulli og Damir síðan allir heiðraðir fyrir fjölda leikja fyrir Blika og í efstu deild. Það var því hálfgerð hátíðarstemning í sólinni og blíðunni.

Sólin á óvæntum stað

Sólin, já. Hún kom sterk inn. Okkar menn léku á móti gríðarlega öflugri sól í fyrri hálfleik. Haustsólin eins og hún gerist beittust. Hún er frekar lágt á lofti á þessum tíma árs og dags og miðar geislum sínum um það bil beint í augu karlmanna sem eru ca 170-190 cm á hæð. Það getur verið afskaplega óþægilegt og hindrað menn í ýmsum efnum. En nánar að því síðar.

Gulli var í markinu, Davíð og Alfons bakverðir, Damir og Elfar Freyr miðverðir, Viktor Örn og Alexander fyrir framan þá, Guðjón Pétur í holunni, Höskuldur og Viktor Karl á köntunum og Thomas frammi. Andri Rafn Yeoman var fjarri góðu gamni og er óhætt að miðjuspilið hafi liðið fyrir það í dag.

Augljósu víti sleppt

Okkar menn byrjuðu af nokkrum krafti, þó að maður saknaði þess að þeir fylgdu eftir endasprettinum í Stjörnu-leiknum á dögunum þar sem hrein unun var að fylgjast með hröðu spilinu. Það var eins og vantaði aðeins upp á kraftinn. KR-ingar voru heldur ekkert að æsa sig. Ég hef punktað hjá mér ýmislegt um fínt spil, næstum-því-færi af og til en það skapaðist svo sem engin sérstök hætta. Manni fannst samt eins og Blikar væru með full tök á leiknum.

En þá fengu KR-ingar hornspyrnu á stórhættulegum stað. Tóku hana stutt og Kennie Chopart þrumaði boltanum frá vítateigshorni í gegnum alla þvöguna og í hornið fjær. Þetta var á 23. mínútu. Tveimur mínútum síðar voru okkar menn að gaufa eitthvað í vörninni og upp úr því skoraði Kristján Flóki Finnbogason með skalla. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þarna hafi sólin haft mikil og afgerandi áhrif. Það er meira en að segja það að spila á móti svona miklu sólskini og eiginlega spurning hvort ekki hefði átt að fresta leiknum vegna veðurs. En mínútu eftir seinna markið var brotið fólskulega á Viktori Karli inni í teig hinum megin en dómarinn ákvað að vera ekki með leiðindi við Íslandsmeistarana og sleppti augljósu víti.

Ekki Valur eða FH

Lítið markvert gerðist það sem eftir lifði hálfleiks og reyndar rekur tíðindamann Blikar.is ekki minni til þess að Beitir hafi þurft að verja einn einasta bolta í öllum hálfleiknum. Það var því þungt yfir mönnum í kaffinu. Í sumar gáfu Blikar bæði Val og FH tveggja marka forskot til að hleypa spennu í leikinn en menn voru á því að öðru máli gegndi um Íslandsmeistana – þeir myndu ekki fá á sig tvö mörk í seinni hálfleik.

Blikar völdu Alexander Helga Sigurðarson mann leiksins 

Leikurinn hófst að nýju en nú brá svo við að sólin var alls ekki eins sterk, hafði óvænt fært sig lengra til vesturs og skein því ekki beint í augu varnarmanna KR. Það mætti eiginlega kalla þetta meistaraheppni. En það var eins og bæði lið biðu eftir því að lokaflautið ómaði í Kópavogsdalnum. Það var ósköp lítið að frétta. Nokkrum sinnum var brotið á Höskuldi í kringum teiginn án þess að hætta skapaðist. Þó brá fyrir góðu spili eins og við höfum svo oft orðið vitni að hjá okkar mönnum í sumar en það var stopult og herslumuninn vantaði.

Myndaveisla í boði BlikarTV

Streita og veður

Af því að ég fórnaði knattspyrnuferlinum á sínum tíma fyrir íslenskan landbúnað og fór í sveit tel ég mig hafa nokkra innsýn í málefni þessa undirstöðuatvinnuvegar þjóðarinnar. (Halldór Laxness er að vísu ósammála þessu um mikilvægi landbúnaðarins en hann segir á einum stað: „Ef ætti að flokka hann, heyrir hann eftilvill helst undir sport einsog þolhlaup eða í besta falli stángveiði.“)

Helstu stoðir íslensks landbúnaðar eru ær og kýr. Eitt af því sem getur ógnað lífi og heilsu þessara ágætu skepna, einkum kúnna, er doði – stundum kallaður bráðadoði. Orsakir hans geta verið ýmsar, meðal annars streita og veðurbreytingar. Því er ekki að leyna að undirbúningur fyrir leikinn í dag var afar óvenjulegur í ljósi atburða vikunnar og veðrið enn sérkennilegra, miðað við árstíma.

Gísli snýr aftur

Streitan sem fylgdi þessum vendingum í þjálfaramálum og þessi fáséðu veðrabrigði ollu klárlega doða hjá okkar mönnum í dag, að því viðbættu að það var ekki að neinu að keppa. Doði er læknaður með því að sprauta kalki, sérstaklega bórkalki, undir húðina á tveimur, þremur stöðum. Og Gústi Gylfa greip til sinna kalksprauta og gerði tvöfalda skiptingu. Gísli Eyjólfs og Brynjólfur Darri hleyptu nýju lífi í doðasjúklinginn og sama má segja um Kristian Nökkva Hlynsson sem kom inn á í sínum fyrsta leik í efstu deild undir lokin.

590

Gísli átti nokkra frábæra spretti sem einir og sér gerðu leikinn þess virði að horfa á. Þarna þekkti maður aftur kappann sem hefur ekki verið nema skugginn af sjálfum sér í sumar. Það var líf í honum. Hann reyndi að öskra sína menn í gang, til dæmis þegar hann komst upp að endamörkum en enginn var mættur í teignum til að taka við sendingunni. Og Brynjólfur Darri átti skalla að marki eftir horn sem var varinn á línu með ævintýralegum hætti.

Stundum er sagt að gott silfur sé gulli betra. Það er auðvitað kjaftæði! Auðvitað hefðum við viljað fá gullið

Rifinn niður

Mínútu síðar kom löng sending inn fyrir vörn KR. Thomas, sem eltir bókstaflega alla bolta, sama hversu vonlausir þeir virðast, tók á rás. Beitir stökk af stað úr markinu. Báðir hoppuðu upp í boltann en Beitir náði ekki að grípa heldur sló Thomas í höfuðið og uppskar réttilega gult spjald og víti. Thomas skoraði af öryggi. Litlu síðar skaut Kristian framhjá og í blálokin átti Gísli eina af sínum góðu rispum upp völlinn, stakk inn á Thomas sem var rifinn niður í teignum um það bil sem skot hans reið af. Það var varið og bjuggust allir réttsýnir menn við því að dómarinn myndi umsvifalaust benda á punktinn en því var ekki að heilsa. Því fór sem fór.

Blikaliðið verður ekki dæmt af þessum leik. Íslandsmótinu var lokið áður en hann hófst og væri nær að líta svo á að þarna hefði undirbúningur fyrir tímabilið 2020 hafist. Það er sama hversu einbeittir menn eru, sama hversu mjög þeir ætla að leggja sig fram í leik sem engu máli skiptir – það verður vart hjá doðanum komist. En okkar menn hafa sannarlega veitt okkur margar gleðistundir í sumar og fyrir það ber að þakka. Takk fyrir mig.

PMÓ

Umfjallanir annarra netmiðla. 

Kristian Nökkvi Hlynsson kom inn á í sínum fyrsta leik í efstu deild. Kristian, sem er fæddur í janúar 2004, er því yngstur leikmanna til að spila í efstu deilda karla fyrir Breiðablik. Sjá frétt: Kristian yngstur stráka til að spila efstu deildar leik fyrir Breiðablik

.

Lokastaðan í Pepsi MAX deild karla 2019

Til baka