BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar stórtækir á lokadegi félagaskiptagluggans

01.07.2020 image

Blikar voru stórtækir á lokadegi félagaskiptagluggans. Hvorki fleiri né færri en þrír leikmenn meistaraflokks karla voru lánaðir og einn fékk að fara án skuldbindinga.

Stærstu tíðindin voru þau að miðjumaðurinn snjalli Guðjón Pétur Lýðsson fór suður fyrir lækinn í Stjörnuna. Tveir ungir og efnilegir leikmenn, Ólafur Guðmundsson og Stefán Ingi Sigurðarson, fóru suður með sjó til að fá leikreynslu í Lengju deildinni.

Arnar Sveinn Geirsson fékk hins vegar að fara án skuldbindinga upp í Árbæ og þökkum við Blikar honum fyrir góð kynni.

Guðjón Pétur Lýðsson hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Blika á þessu keppnistímabili og því varð að samkomulagi að hann færi á láni til Stjörnunnar tímabundið. Guðjón Pétur, sem er 32 ára, á að baki 147 leiki með meistaraflokki Breiðabliks og hefur skorað í þeim 27 mörk. 

image

Stefán Ingi Sigurðarson hefur verið lánaður til Grindavíkur. Stefán Ingi sem er 19 ára gamall stór og sterkur framherji skoraði gott mark gegn Keflvíkingum í bikarnum í síðustu viku. Hann á að baki tvo leiki með meistaraflokki og hefur skorað tvo mörk! Það er nú ágætis tölfræði.  Stefán Ingi hefur stundað háskólanám í Bandaríkjunum og á að baki 14 leiki með yngri landsliðum Íslands.

image

Ólafur Guðmundsson er 18 ára fjölhæfur varnar og miðjumaður. Hann hefur verið lánaður til Keflavíkur. Hann hefur leikið 7 leiki með meistaraflokki Breiðabliks og skorað eitt mark. Hann á að baki 8 leiki með yngri landsliðum Íslands. Ólafur lék 1 leik í láni með Augnablik í 3. deildinni í fyrra.

image

Arnar Sveinn Geirsson gekk í raðir Blika frá Val vorið 2019. Hann lék 11 leiki í Pepsí deildinni í fyrra með Blikaliðinu. Arnar Sveinn hefur átt við erfið meiðsli að stríða en hefur náð sér. Hann lék meðal annars gegn Keflavík í Mjólkurbikarkeppninni. Arnar Sveinn var töluvert í fréttum á Covid tímanum því hann er formaður leikmannasamtakanna og skilaði góðu starfi fyrir verkalýðsstarf leikmannanna.

Blikar þakka honum fyrir góð kynni og óska honum velfarnaðar í appelsínugula búningnum.

-AP

image

Til baka