BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar stóðust prófið

15.07.2015

Fjölnismenn úr Grafarvogi sóttu Blika heim í kvöld í lokaleik 11. umferðar PEPSI deildarinnar. Fyrir leikinn skildu einungis tvö stig liðin að og því var von á hörkuleik og Blikar máttu ekki við að misstíga sig eftir slæmt tap í Eyjum í síðustu umferð. Fjölnismenn þurftu einnig sigur eftir tap í tveimur síðustu leikjum. Aðstæður voru ágætar í kvöld á Kópavogsvelli. Völlurinn að vísu rennblautur og talsverð úrkoma nánast allan leikinn. En lognið var algert og því ekki undan neinu að kvarta. Hiti rétt undir 11° og loft því sem næst rakamettað, eða 94-97%. Skyggni 9 km.  Vel grillaður hamborgari á tilboði smakkaðist vel og kjötsúpan ku hafa verið ágæt líka.
Í liði Blika var Höskuldur kominn á ról á ný eftir veikindi en nú er Ellert lagstur ásamt Arnóri Gauta og Guðjón Pétur var í leikbanni í kvöld. Arnþór Ari var því í fremstu víglínu og liðið að langmestu leyti skipað miðvallarleikmönnum.

Byrjunarlið Blika;
Gunnleifur Vignir Gunnleifsson (M)
Arnór Aðalsteinsson (F) - Damir Muminovic - Elfar Freyr Helgason - Kristinn Jónsson - Atli Sigurjónsson - Höskuldur Gunnlaugsson - Andri R. Yeoman - Oliver Sigurjónsson - Arnþór Ari Atlason - Davíð Kristján Ólafsson

Varamenn:
Aron Snær Friðriksson(M)
Sólon Breki Leifsson
Olgeir Sigurgeirsson
Gunnlaugur Hlynur Birgisson
Guðmundur Friðriksson
Viktor Örn Margeirsson
Gísli Eyjólfsson

Sjúkralisti: Ellert Hreinsson – Arnór Gauti Ragnarsson - veikir.
Leikbann: Guðjón Pétur Lýðsson  v. 4 gulra spjalda.
Leikskýrsla: Breiðablik- Fjölnir 13. júlí 2015
BlikarTV: Útvarpslýsing

Leikurinn í kvöld fór frekar rólega af stað og liðin þreifuðu hvort á öðru en fljótlega þróaðist þetta skv. forskrift sem við þekkjum ansi vel. Okkar menn með boltann og frumkvæðið en gekk illa að opna varnir andstæðingsins. Dálítið mikið verið að klappa turðunni og taka of margar snertingar en af og til bjarmaði fyrir spili sem því miður endaði oftast í spilþröng í öngstræti. Ferðir án fyrirheits voru alltíðar og stundum eins og menn væru ekki alveg vissir hvernig ætti að komast inn fyrir og í færi. Því var oft slegið í langar sendingar sem oftast skiluðu litlu, enda völlurinn rennblautur eins og fyrr var getið, en þó kom hættulegasta færi okkar manna eftir eina slíka þegar Kristinn komst upp að endamörkum og sendi boltann fyrir og Arnþór Ari náði skoti á markið móts við nærstöngina en boltinn fór naumlega yfir markið. Besta færi leiksins hingað til. Svo gekk þetta sitt á hvað næstu mínúturnar og þó gestirnir ógnuðu markinu ekki mikið sóttu þeir ávallt á mörgum mönnum þegar færi gafst og voru nokkrum sinnum nálægt því að gera usla og óskunda við mark Blika. Of oft, fyrir minn smekk, eftir að hafa étið slakar sendingar okkar manna. ,,Mörk breyta leikjum“ er oft sagt, og það eru orð að sönnu en ekki klisja. Og það var einmitt eitt slíkt sem leit dagsins ljós þegar skammt var til leikhlés. Blikar fengu aukaspyrnu þegar Andri Rafn var beinlínis negldur niður talsvert utan vítatiegs gestanna. Atli og Oliver fóru að boltanum og þó þetta væri upplagt færi fyrir vinstri fót Atla þá var það Oliver sem tók spyrnuna. Hann  hlýtur að hafa dreymt alveg brjálaðan skafrenning í alla nótt því boltinn söng í markinu alveg klíndur út við stöngina. Algerlega óverjandi fyrir markvörðinn. 1-0. Blikar komnir með forystuna og minnstu munaði að þeir tvöfölduðu hana í næstu sókn þegar Arnþór komst í gott færi en gestirnir komust fyrir skotið á síðustu stundu. Skömmu síðar komust Blikar svo í skyndisókn og voru 3 á móti 1 en voru of lengi að dunda sér við þetta og sóknin rann út í hinn margfræga sand. Þar fór stórgóður möguleiki í hundana, svo ekki sé sterkar að orði kveðið. Litlu munaði svo að Blikar fengju mark í andlitið í kjölfarið þegar gestirnir fengu sannkallað dauðafæri eftir mistök í vörn okkar manna en en Gunnleifur bjargaði með góðu úthlaupi. Þar munaði mjóu og það er ekki gott að segja hvernig þetta hefði farið ef jöfnunarmark hefði komið þarna.

Staðan 1-0 í hálfleik og í Blikakaffinu var nú ekki töluð nein vitleysa. Kæfisvefn, aukaspyrnur, slakar sendingar á miðsvæðinu, meðlætið, Þorsteinn Már Ragnarsson,  efnahagsástandið í Grikklandi, svo fátt eitt sé nefnt.  Þrennt voru menn sammála um. Nr. 1.  Það vantar sóknarmann og nr. 2 er að það vantar helst annan sóknarmann til. Nr. 3. Þorsteinn væri góður kostur. Og svo var náttúrulega hlegið að vitleysunni í Valsmönnum. Hvað halda þeir að þeir séu? Sennilega bara smiðurinn að grínast. En þá er þess að geta að þeir urðu meistarar og voru á toppnum 2007. Sumir segja að það klikkaða ár sé komið aftur. Er þá kannski von á Prins Rajcomar í Blikana? Það væri fengur.

Seinni hálfleikur hófst eiginlega á því að Fjölnismenn gerðu sér lítið fyrir og pressuðu okkar menn inn að vítateig og Blikar náðu engum takti í sinn leik. Voru algjörlega heillum horfnir. Gestirnir voru hinsvegar  miklu ákveðnari og unnu nánast öll návígi úti á vellinum, voru fljótari í alla bolta og áhorfendur voru farnir að bóka jöfnunarmarkið.  En það lét hinsvegar á sér standa og eftir þennan c.a. 10-15 mínútna hörmungarkafla náðu okkar menn smátt og smátt vopnum sínum og náðu að færa sig framar á völlinn. En það skilaði fáum færum og alls engum dauðafærum. Gestirnir áttu heldur engin færi sem orð er á gerandi en fegnu nokkur horn og aukaspyrnur en því var öllu hadlið frá markinu. Gestirnir freistuðu þess að gera breytingar á liði og leikskipulagi sínu en þegar þeir voru rétt nýbúnir að senda varamann nr. 2 inná fengu þeir mark í andlitið. Og það var fínt mark og af sjaldgæfari gerðinni. Blikar gerðu harða hríð að vörn gestanna á vinstri vængnum og sóknin virtist vera runnin út í sandinn. Höskuldi datt hinsvegar í hug að elta vonlausan bolta og setja pressu á varnarmann gestanna með þeim ágæta árangri að honum mistókst að hreinsa og boltinn endaði hjá vinstri bakverði Blika, Kristni Jónssyni, sem tók á rás inn í vítateiginn og sendi svo nokkuð háan bolta fyrir markið. Þar kom hægri bakvörðurinn, Arnór Aðalsteinsson, á ferðinni og varnarmönnum Fjölnis að óvörum, og skallaði boltann í markið. Vel gert hjá bakvörðunum, og ekki síður hjá Höskuldi sem setti pressuna á varnarmanninn.  Staðan 2-0 og 20 mínútur til leikskloka.
Blikar gerðu kjölfarið breytingu á liðinu og Olgeir kom inn fyrir Davíð Kristján. Maður vill sjá meira frá Davíð. Hann hefur fullt af hæfileikum en það er stundum eins og hann tími ekki að leyfa þeim að njóta sín, á milli þess sem hann er að flækja hlutina aðeins of mikið í stað þess að spila einfalt. En það er ekki eftir neinu að bíða, tíminn er núna. Það er ekki hægt að bíða þar til maður er fertugur. NÚNA. Olli hrærði strax í flotta sendingu og setti Arnþór Ara í gegn en hann náði ekki nógu góðu skoti á markið undir pressu frá varnarmanni. Það var eiginlega síðasta marktækifæri Blika en Gunnleifur þurfti hinsvegar að taka á honum stóra sínum þegar þokkalega föst sending í átt að marki Blika sem virtist á leiðinn aftur fyrir endamörk, hafði viðkomu á höfði Damirs og stefndi í bláhornið. Gunnleifur var hinsvegar vel á verði og stökk eins og köttur á boltann og náði að blaka honum út fyrir stöngina. Þarna skall hurð nærri hælum. Blikar sendu svo Sólom Breka inn á fyrir Atla þegar skammt var til leiksloka. Atli átti fínan leik og er óðum að komast í sitt best form með auknum spiltíma. En gestirnir komust lítt áleiðs það sem eftir lifði leiks og Blikar sigldu 3 stigum í hús í rólegheitunum, ja fyrir utan að bjarga einu sinni á línu í blálokin. En Blikar héldu hreinu, eins og svo oft áður í sumar. Það venst.   

Það er alveg hægt að segja að leikurinn í kvöld var ekki besti leikur Blika í sumar. Spilið stirt á löngum köflum og við náðum sjaldan að opna vörn gestanna.
Það er ekkert leyndarmál að framherjaskortur háir liðinu eins og staðan er. Þó Ellert hafi ekki skorað mikið í sumar tekur hann alltaf talsvert til sín og það er virkilega slæmt að hann skuli vera fjarverandi. Vonandi jafnar hann sig fljótt. Arnór Gauti lofar líka góðu en hann er líka veikur, auk þess að vera að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki ásamt Sóloni Breka. Það er því alveg ljóst að til að halda liðinu í toppbaráttu og og berjast af alvöru um titilinn þarf að landa sóknarmanni, og helst tveim, í félagaskiptaglugganum. Vönum mönnum. Forráðamenn deildarinnar hafa reyndar, ásamt þjálfara gefið í skyn að það standi til og vinna sé í gangi sem miði að því.  Vonandi eru það ekki orðin tóm og nú má ekki klúðra undirskriftum, því það væri synd ef ekki tækist að landa 1-2 leikmönnum. Við erum í góðu færi að vinna þetta mót. En til þess þarf styrkingu fram á við. Við eigum nóg af góðum varnar og miðjumönnum.
Drífa í því.

Næsti leikur okkar manna er heimaleikur gegn Fylki n.k. mánudag. Hann hefst kl. 19:15. Það er úrslitaleikur. Nema hvað?

Áfram Breiðablik.

OWK

Til baka