BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Blikar meistarar!

23.04.2015

Breiðabliks er Lengjubikarmeistari eftir 1:0 sigur á KA í Kórnum í dag. Það var Ellert Hreinsson sem setti sigurmarkið á snyrtilegan hátt eftir snilldarsendingu Olivers Sigurjónssonar strax á sjöttu mínútu leiksins. Þrátt fyrir fjölmörg færi Blika þá vildi boltinn ekki oftar í net norðanpilta. En þetta dugði til að Blikar hampa nú þessum titli í annað sinn. 

KA menn vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið fyrstu 20 mínútur leiksins. Hver sóknin á fætur annarri skall á marki þeirra gulklæddu. Arnþór Ari átti meðal annars tvo mjög góð færi, Höskuldur skaut þrumuskoti rétt yfir markið eftir snilldartilþrif Kristins Jónssonar og nokkur hálffæri sáum dagsins ljós. Nokkuð dró úr sóknarþunganum eftir því sem leið á hálfleikinn en Norðanpiltarnir áttu varla álitlega sókn í háflleiknum.

Okkar piltar hleyptu gestunum hins vegar of mikið inn í leikinn í síðari hálfleik. Þeir gengu á lagið og í 2-3 skipti skall hurð nærri hælum upp við mark okkar grænklæddu. En við áttum samt hættulegustu færi hálfleiksins. Davíð vippaði knettinum í slána og markvörður KA-manna varði frábærlega skalla Kristins í kjölfarið. Skömmu fyrir leikslok átti Höskuldur hörkuskalla sem small í markstöng gestanna. Við drógum okkur til baka síðustu mínúturnar en sem betur fer tókst þeim gulklæddu ekki að finna leið fram hjá sterkri vörn okkar pilta. 

Bestu menn Blikaliðsins í þessum leik voru þeir Kristinn Jónsson og Oliver Sigurjónsson. Oliver var eins og kóngur á miðjunni, sérstaklega í fyrri hálfleik, og tapaði varla skallaboltum á móti mun stærri andstæðingum. Gaman að sjá hve drengurinn hefur verið að blómsta eftir að hann kom til baka úr veru sinni í Danaveldi. Kristinn heldur áfram að sýna að hann er langbesti vinstri bakvörður á Íslandi í dag. Ef hann heldur áfram að bæta sig mun Kristinn banka á landsliðssæti á nýjan leik og hugsanlega atvinnumennsku.

Nú er aðeins rúm vika þar til við höldum í Árbæinn og mætum Fylkismönnum. Nú verðum við að bíta í skjaldarendurnar og undirbúa okkur vel undir þann leik. Það er gríðarlega mikilvægt að byrja vel í Pepsí-deildinni. Allir sigrar og titlar i vetur skipta í sjálfu sér engu máli þegar út í alvöruna er komið. 

Leikskýrsla.

Áfram Blikar, alltaf, alls staðar!

 

-AP

Til baka