BLIKAR.IS STUÐNINGSMANNAVEFUR

Sýnd veiði en ekki gefin.

11.07.2013

Blikar mættu í kvöld FC Santa Coloma í undankeppni Evrópudeildar UEFA. Blikar voru með nokkuð breytt lið frá síðasta leik og Elfar Árni, Finnur Orri og Tómas Óli voru allir í byrjunarliði að þessu sinni í stað Jökuls, Nichlas og Árna.

Byrjunarliðið okkar var þannig skipað;

Gunnleifur
Þórður Steinar  – Sverrir Ingi – Renee Troost – Kristinn Jónsson
Ellert – Tómas Óli - Andri Yeoman  – Finnur Orri (F) – Guðjón Pétur Lýðsson
Elfar Árni

Varamenn voru;
Arnór Bjarki Hafsteinsson (M)
Jökull Ingason Elísabetarson
Páll Olgeir Þorsteinsson
Viggó Kristjánsson
Olgeir Sigurgeirsson
Árni Vilhjálmsson
Nichlas Rohde

Sjúkralisti;  Gísli Páll Helgason – Rafn Andri Haraldsson – Ósvald Jarl Traustason

Leikbann ; Ekki nokkur maður.

Sjá leikskýrslu: UEFA.com

Það voru góðar aðstæður á Kópavogsvelli kvöld. 12- 14°C hiti, hægviðri og völlurinn í toppstandi og greinilega búið að vökva hann duglega fyrir leikinn. Áhorfendur  voru í kringum 900 og verður það að teljast sæmilegt þegar horft er til þess að andstæðingarnir eru lítt þekktir og svo er landinn lagstur í allskyns flakk og ferðalög þannig að þetta telst eiginlega topp mæting.
Það er skemmst frá því að segja að Blikar tóku völdin á vellinum strax og létu þau aldrei af hendi.  Andorramennirnir lágu aftarlega og voru greinilega ekki í neinum sóknarhug. Samt þurfti að bíða dágóða stund eftir fyrsta markinu og þangað til það sá dagsins ljós voru menn svona að þreifa hvorir á öðrum. Á nítjándu mínútu fengu Blikar svo aukaspyrnu rétt utan vítateigs eftir að Ellert var klipptur niður. Gula spjaldið fór loksins á loft hjá slökum dómara leiksins. Guðjón tók spyrnuna og sendi boltann á fjærstöngina þar sem Sverrir Ingi tók við og skallaði boltann inn að markinu. Þar kom Þórður Steinar á fleygiferð og skoraði af stuttu færi. Fallegt mark og vel að því staðið. Mætti jafnvel segja mér að þetta hafi komið beint af æfingasvæðinu. Staðan þar með orðin 1-0. Aðeins þrem mínútum seinna áttu Blikar svo góða sókn upp vinstri kantinn þar sem Andri, Tómas og Kristinn fóru illa með gestina og tættu vörn þeirra í sundur. Kristinn komst inn í teig og upp að endamörkum þar sem hann sendi fasta sendingu fyrir markið. Elfar náði ekki til boltans en Ellert kom í humátt á eftir og hann átti ekki í neinum  vandræðum með klára dæmið. Staðan orðin 2-0 og Blikar með sannkölluð glæsimörk. Nú gerðist eiginlega ekkert næstu 3 mínúturnar, en svo gerðist soldið. Ellert fékk knöttin nálægt miðlínu vallarins og smeygði sér lipurlega á milli andstæðinga og setti svo afturbrennarann á og komst óáreittur upp að vítateigsboganum (20,15 metra frá marki) og þar lét hann skotið ríða af og það var stöngin inn. Snaggaralega gert hjá Ellert og staðan skyndilega breyst úr 0-0 í 3-0 fyrir Blika á örfáum mínútum.  Þessi markaveisla kallaði fram bros á vallargestum og ekki laust við að kæmi glampi í augu stuðningsmannanna. Blikar reyndu nú sem mest þeir máttu en fóru kannski aðeins fram úr sér næstu mínúturnar. Fóru að flækja hlutina eilítið og freistuðu þess að spila hálfgerðan samba bolta með aðeins of mörgum snertingum í stað þess að halda í einfaldleikann og snerpuna sem hafði gefist vel fram að þessu. Til að gera langa sögu stutta urðu mörkin ekki fleiri í fyrri hálfleik þrátt fyrir nokkrar ágætar tilraunir og staðan í hálfleik því 3-0.

Í hálfleikskaffinu var grjóthaldið kjafti. DJÓK !
Þar var þvert á móti margt skeggrætt og menn voru nokkuð brattir í ljósi stöðunnar. Vildu fá 1-2 mörk í viðbót hið minnsta en umfram allt halda hreinu. Númer eitt, tvö og þrjú var að halda hreinu. Það væri gott nesti í seinni leikinn. Tiðrætt var um dómaratríóið frá Luxemborg og þótti það í lakara lagi. Sannkallaður flautukonsert. Grátt þótti mönnum Elfar Árni leikinn á köflum en samt iðulega dæmt á hann. Vakti undrun. Ljóst að íslenskir dómarar geta kinnroðalaust borið sig saman við erlenda kollega sína, þó okkar menn eigi vissulega misjafna daga. En nú má maður passa sig, að fara ekki að hæla íslenskum dómurum. Það er bara ekki í tísku. En bakkelsið var með miklum ágætum eins og endranær. Nýi (Evrópu)búningurinn var að sjálfsögðu ræddur og þótti mönnum sitt hvað um hann. Flestum fannst hann skæslega næs, en öðrum síður, eins og gengur. Örfáum, og reyndar bara einum, fannst hann  óþarflega líkur KR búningnum!  Samt sniðugt að prófa þetta svona til hátíðarbrigða og Blikaklúbburinn seldi dýrðina fyrir slikk. Glæný treyja og sérframleiddur trefill í tilefni dagsins á 6 óverðtryggðar kúlur. Staðgreitt.

En svo  hófst síðari hálfleikur, eins og þeim fyrri lauk. Blikar með boltann meira og minna en gekk illa að skapa sér góð færi. Sendingar oft ónákvæmar framarlega á vellinum og því varð lítið úr fjölmörgum álitlegum sóknum okkar manna. Andri og Elfar fengu reyndar góð færi í sömu sókninni sem endaði með skoti sem fór naumlega framhjá. En á 60. Náðu Blikar að auka við forystuna þegar þeir fengu dæmda vítaspyrnu.  Guðjón náði snúa á vörn gestanna á þeirra vallarhelmingi og sendi laglega inn á Elfar Árna. Hann lék inn í vítateig og mætt þar markverði gestanna sem skellti sér niður og í fætur Elfars. Elfar reyndi kannski ekki mikið að forðast snertinguna , heldur steig fast og ákveðið til jarðar og laut svo umsvifalaust í gras. Dómarinn dæmdi umsvifalust víti og Guðjón fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Staðan orðin 4-0. Blikar gerðu fljótlega eftir þetta tvöfalda skiptingu. Af velli fóru Guðjón Pétur og Þórður Steinar og inn komu Olgeir og Árni. Blikar héldu áfram að sækja og stundum munaði mjóu, en það munaði samt nógu, og ekkert gekk að bæta við. Nichlas kom inn fyrir Ellert þegar stundarfjórðungur var til leiksloka en allt kom fyrir ekki. Blikum tókst ekki að bæta við mörkum og því lauk leiknum með öruggum 4-0 sigri okkar manna.
Það kann að vera erfitt að meta hve góður þessi leikur var að hálfu Blika. Til þess var frammistaða gestanna of döpur. Og sennilega er þetta ekki gott lið. En við höfum stundum áður tapað fyrir lélegum liðum og því má segja okkar mönnum til hróss að þeir mættu einbeittir í þenna leik og gáfu aldrei færi á sér. Mörkin hefðu svo sem mátt verða fleiri, en þessi verða að duga.
Nú er seinni leikurinn eftir og að flestra mati er hann nánast formsatriði. En það er nú öðru nær. Sá leikur verður á öðrum velli í öðru umhverfi, hitastigi o.s.frv. Og í fótbolta eru hlutir stundum fljótir að breytast. Afar vænleg leið til að klúðra þessu dæmi er að snúa nú tánum upp í loft og fara að hugsa um næsta mótherja í þessari keppni. Það má ekki gerast. Menn verða að mæta 100% einbeittir í þann leik og sýna andstæðingunum frá fyrstu mínútu að þeir fái ekkert gefins. Og þá meina ég ekkert. Þeir munu reyna öll trixin í bókinni og bæði bíta, sparka og slá á sínum heimavelli og freista þess að koma okkar mönnum úr jafnvægi. Ég er hinsvegar sannfærður um að þeim verður ekki kápan úr því klæðinu og að Ólafur Helgi, og þjálfarateymið allt, undirbúi mannskapinn eins og best verður á kosið fyrir þann slag. Þá þarf engu að kvíða.

Næsti leikur Blika er í 8-liða úrsltum Borgunarbikarsins n.k. sunnudag. Sá leikur er gegn Víkingum á þeirra heimavelli og hefst kl.20:00. Borgunarbikarinn er mjög flottur bikar og okkur langar alveg svakalega til að vinna hann. Þess vegna mætum við í Víkina og styðjum okkar menn.

Stuðningsmenn Blika stóðu sig vel í kvöld en verða að gera enn betur á sunnudaginn.

Áfram Breiðablik !

OWK 

Til baka